sunnudagur, desember 30, 2007

Santiago

Hæ allir
Nú erum við i Santiagoborg i Chile og búin a fara i rútuferð um borgina sem tók 4 klukkustundir. Þad var mjög fínt. Ferdin hingad gekk svo til áfallalaust en samt smáseinkunn vegna veðurs. Sólin skín hér núna án afláts og Oddur gengur i skugganum og vill ekki meiri sól i bráð. Þad baud sér ein kona ofan i töskuna mína áðan sem ég var med a bakinu en ég hafdi vid henni og var ekki med neitt verðmætt þar svo hún hafði lítið upp úr krafsinu. Vid ætlum út ad rölta smá um næsta nágrenni áður en vid förum út a flugvöll um 7 leytið. Santiagóbúar státa sig af stærsta gsm síma í heimi en þad er turn sem er eins og gsm sími i laginu.
Hér er mynd af honum.



Við erum búin ad hlusta á marga hópa af hjálpræðisherfólki sem er að syngja á torgum og göngugötum og er þad ferlega fyndið. Eg á þad a myndbandi. En við skiljum auðvitað ekki hvað þau eru að syngja, Freyja verdur að þýða þad fyrir okkur.


Þetta er mynd af okkur á Santa Maria hæðinni og sést yfir á aðra hæð þar sem styttan af madonnunni er þ.e.a.s. Maríu mey með jesúbarnið.

Nu er hugurinn farinn að hvarfla heim til Islands og ofurlítil tilhlðkkun farin ad gera vart við sig að hitta börnin og barnabörnin og auðvitað alla hina líka:-)
Bestu kveðjur að sinni.

laugardagur, desember 29, 2007

Heimferðin hafin

29. desember laugardagur
Erum að leggja af stað til Balmaceda (flugvöllurinn hja Coyhaique) til Santiago. Þaðan leggjum við af stað til New York annað kvöld og komum þangað á gamlársdag seinni partinn. Vonandi verður engin töf á leiðinni þangað því við erum svo spennt að vera þar þennan dag.
Við áttum góðan dag í gær lölluðum um bæinn og horfuðum á götulífið, skoðuðum kirkjugarðinn (vá maður) og vorum bara í róleguheitum. Ekki veitir af að hvíla sig fyrir átökin að koma sér heim miðað við fyrri reynslu.
Ég læt hér eina mynd fylgja með svona til gamans en bílinn er að koma sem fer með okkur út á völl. Blessuð í bili.

föstudagur, desember 28, 2007

Sex vatnaleiðin - hugguleg dagsferð

Úr dagbókinni 27. desember – Chile




Við fórum sex vatnaleiðina í dag og var það rúmlega 100 km akstur. Landslagið hér er afar fallegt og breytilegt, allt frá því að vera fjöllum sett og skógivaxið og í að vera smáhæðir, þurrt og með kyrkingslegum gróðri. Vötnin settu óneitanlega svip á landslagið og var víða afar fallegt yfir að líta. Við fórum mörgum sinnum út úr bílnum og dunduðum okkur við að skoða dýralífið og jurtalífið og alltaf sáum eitthvað nýtt og spennandi. Við sáum fullt af fallegum fuglum og ljótum líka en kalkúnar er nú ekki fallegir fuglar. Oddur var voðalega hrifinn af drekaflugunum en þær vildu nú ekki sitja fyrir hjá honum. Við sáum lamadýr, leifar af beltisdýri, héra sem skoppaði í skóginum við veginn og mörg falleg hænsni brún, svört og marglit svona eins og íslensku hænsnin og voru þau á vappi fyrir utan bóndabæina. Við fengum okkur líka einn góðan göngutúr og gáfum flugunum með grænu augun langt nef og hristum þær af okkur eins og við gátum en hvimleiðar voru þær með afbrigðum. Göngutúrinn var ekki farinn á eyðilegum stað eins og í gær því enn sitja hræðslugenin í mér (ekki Oddi hann ber sig vel) og ég hef engan áhuga á að sjá pumu aftur. En ég ætla að setja hér inn mynd af henni sem ég tók af auglýsingaskilti í náttúrugarðinum sem við fórum í um daginn, því þegar ég tók mynd af dýrinu í gær var það horfið af vettvangi.


Jæja nú skilum við bílnum á morgun og leggjum í hann til Santiago á laugardag og þaðan til New York á sunnudagskvöld. Þetta er búið að vera ótrúlega fljótt að líða og það er eins og maður þurfi að aðlagast staðnum dálítinn tíma áður en maður er búinn að átta sig á kringumstæðum og umhverfinu og byrja að njóta hans.

fimmtudagur, desember 27, 2007

Puma, lamadýr og græneygðar flugur

26. desember - annar í jólum
Við hófum daginn á að fara á internetið og sjá hvort einhver væri á línunni en svo var ekki. Við fórum síðan í bæinn og tókum út smápening eða 100 þús pesóa sem eru um 13000 kr. ísl. Síðan ókum við í áttina að argentísku landamærunum og til að skoða landslagið þar. Þar eru svokallaðar steppur, allt mjög þurrt og heldur rýrt land miðað við Chile en vætan verður öll eftir í og við Andesfjöllin þannig að það er enginn raki orðinn eftir í golunni þegar hún kemur yfir til Argentínu.
En við lentum í heljarævintýri eða það finnst mér. Ég hef aldrei á ævinni orðið svona hrædd. Við fengum okkur göngutúr upp á eina hæðina á landamærunum og ætluðum að borða nestið okkar og horfa yfir til Argentínu og taka myndir af klettunum og trjánum á hæðinni sem var með fullt af dvergtrjám (bonsai) rosalega flottum. Þegar við nálguðumst toppinn heyrðum við skrýtið hljóð. Það hljómaði eins og hást, hávært krunk eða krákuhljóð og við áttum von á því að sjá fugl, en viti menn sést ekki gulur haus sem líktist hundi eða stórum ketti gægjast upp efst við toppinn. Oddur sagði strax að þetta væri sennilega villihundur. En eftir á að hyggja höldum við að við höfum séð púmu. Dýrið rak upp hljóð annað slagið og það virtist forða sér þegar við komum upp en svo kom það aftur og þá varð mér ekki um sel og við tókum á rás til baka með góðan lurk í hendi og alltaf heyrðum við hljóðið nálægt okkur það var greinilega að láta okkur vita að við værum ekki velkomin og að við værum að ráðast inn á yfirráðasvæði þess. En sem betur fer hélt það sig á hólnum og veitti okkur ekki eftirför en lengi heyrðum við hljóðið í því. Þetta var frekar óskemmtileg lífsreynsla þar sem við vitum ekki hvernig púmur (villihundar) haga sér, hvort þær ráðast á fólk og svoleiðis.



Hér er Oddur á hæðinni þar sem við hittum dýrið

Hér er hitabylgja í Chile eða vel yfir 30 stig og það nánast hreyfir ekki vind aldrei þessu vant. Við náðum að sólbrenna í sólinni í dag þrátt fyrir sólaráburð upp á 15.
Nýtt um flugurnar með grænu augun. Þær eru bara á ferli í einu viku á ári hér um allt Chile og það er einmitt núna. Við erum alltaf jafn stálheppin eins og endranær.

Við sáum líka hóp af lamadýrum sem gengu þarna úti í náttúrinni. Ég smelli hér einni mynd með af þeim til gamans.

miðvikudagur, desember 26, 2007

Myndband

Hæ Ég ætla að prófa að setja inn myndaröð sem ég bjó til um næsta nágrenni okkar og íbúðina. Annars erum við að fara í smáökuferð út fyrir bæinn að skoða svarta svani og eitthvað fleira skemmtilegt. Í gær sáum við tvo stóra fugla sennilega fálka en eigum eftir að greina þá betur. En meira seinna. Það gengur ekki með myndbandið núna, ætla að vinna frekar í því en það á að vera hægt.

þriðjudagur, desember 25, 2007

Flugferð

25. desember jóladagur
Jæja þá er Kolla búin að fara í flugferð yfir Andesfjöllin í tveggja hreyfla flugvél. Hver hefði trúað því? En ég hugsaði málið þannig að það væri betra að fara með í flugið en að sitja eftir heima og bíða (að deyja úr áhyggjum) á meðan Oddur færi svo ég lét mig hafa það. Og…… það tókst ég er hér aftur:-) En við flugum yfir Norður Patagóniu jökulinn (Campo de Hielo Norte)að lóninu Laguna San Rafael sem við ætluðum að sigla að.


Flugmaðurinn flug rétt í 100 feta hæð yfir lóninu og sveigði og beygði þar á alla vegu og ég hélt að ég yrði ekki eldri. Á leiðinni var Cerro San Valentin tindurinn rétt í seilingarfjarlægð út um gluggann með sína rúmlega 4000 m hæð. Þetta var nú rosalega flott enda heiðskírt og frábært skyggni.


Við kynntumst tveimur Hollendingum í sambandi við fyrirhugaða siglingu sem tóku flugvélina á leigu með okkur . Það var mjög gaman að kynnast þeim og spjalla við þau. Þau heita Charlotte Groothuis og Joost Müller og hafa ferðast saman í yfir 20 ár. Þau skipuleggja ekki ferðalögin heldur leigja sér bíl þar sem það á við og tjalda. Þau hafa farið víða um heiminn m.a. til Íslands. Hún talar mjög góða spænsku og við fengum hana með okkur á lögreglustöðina til að gefa skýrslu um hlutina sem hurfu úr töskunum okkar á leiðinni hingað. Hér talar varla nokkur maður ensku ekki einu sinni á flugvellinum í Santiago og ef það finnst enskumælandi maður þá er hún mjög léleg.
Það er svo heitt núna að við höldum okkur innandyra og ætlum út sídegis og skoða eitthvað og rölta smá um. Annars fékk Oddur blöðru á aðra stóru tána í göngunni í gær svo það er rétt að gefa henni smáhlé svona einn dag.

Svo er hérna fyrri partur til að botna fyrir jólaboðið hjá Systu:

Kolla og Oddur andfætis
óska jólafriðar.


Annars bestu jólakveðjur til ykkar allar og takk fyrir "commentin" sem þið hafið sett inn, við erum ekki eins "ein" í heiminum þegar við lesum þau.
Takk takk - Kolla og Oddur

Jólin í Chile

24. desember - Coyhaique
Fórum í ferðaskrifstofuna til að kanna endurgreiðslu á siglingunni, síðan fórum við á skrifstofu flugfélagsins og færðum ferðina til Santiago fyrr um morguninn þann 29. des, þannig að við verðum komin þangað um 3 leytið í stað 7 eins og áður var ákveðið. Þá höfum við smátíma til að skoða borgina eitthvað frekar eins og við ætluðum að gera á leiðinni hingað. Eftir það fórum við í 7 tíma göngu upp á tæplega 1400 m hátt fjall hér í næsta nágrenni. En það var búið að benda okkur á það og að það væru stígar upp á það. En það er næsta ómögulegt að ganga upp á fjöll hérna nema eftir stígum því skógurinn er svo þéttur. Við klifum 1000 upp í mjög góðu veðri, næstum of góðu enda vorum við þyrst þegar heim kom þótt við hefðum verið með drykki með okkur. Reyndar fengum við okkur að drekka úr einum læknum upp í fjalli og var það mjög gott vatn næstum eins og heima en vatnið hérna er hreint og hægt að drekka það beint úr krananum. Það vekur furðu okkar var hve fátækleg fánan er því fyrir utan þessar freku leiðinlegu flugur sem sífellt voru að stinga okkur sáum við varla nokkur dýr. Örfá lamadýr voru í girðingu neðst í fjallinu, greinilega húsdýr. Við sáum undir iljarnar á einum héra sem forðaði sér með miklu írafári úr vegi okkar. Þá lölluðu sárafáir maurar á stígnum. Eina stóra hugnangsflugu sáum við sem vildi ekki láta taka mynd af sér. Einnig sáum við loðin tré. Smelltu á myndina til að sjá það stærra.
Svona lítur það út í nálægð.

Þegar heim kom skelltum við okkur í samband við krakkana okkar á Skypinu til að segja gleðileg jól (við söknum þeirra mikið)og fórum síðan út að borða aftur á þennan kínverska sem við fengum rauða matinn um daginn, en hann var ekki rauður í gær, bara eðlilegur he he he og ágætur.

Við verðum ekki mikið vör við jólahátíðina hjá heimamönnum nema að veitingahús lokuðu mörg hver frekar snemma á aðfangadag og bakaríið var ekki opið á jóladagsmorgun svo við skelltum okkur í morgunmat á hótelinu. Það virtist ekki koma háheilagaður tími þegar klukkan varð sex eins og hjá okkur, því við sáum fólk fara út að borða og vera að kaupa inn, margar búðir opnar og almenn rósemi yfir öllu. Á þorláksmessu var samt eitthvert uppistand á aðalgötunni í bænum. Fólk hrópaði og barði trumbur og var með mikinn hávaða og þetta virtust vera nokkrir smáhópar sem söfnuðust saman á aðaltorginu aðallega ungir karlar og krakkar. Síðan óku bílar um bæinn þar sem ökumenn lágu á flautunum þannig að það var varla vært fyrir hávaða. Hér sér maður ekki pinklum hlaðið fólk að kaupa inn fyrir jólin enda ekki mikið um búðir. Jólalög heyrast stöku sinnum á veitingastöðunum. Jólaskreytingar eru víða hangandi utan á húsum og í gluggum. Jólatréð á aðalgöngugötunni er orðið heldur dapurt, brúnt og visið í sólinni og hitanum.

sunnudagur, desember 23, 2007

Myndavélalinsur og GPS tæki

23. desember - þorláksmessa
Við fengum okkur göngu upp í fjall áðan og lentum í mjög grimmum flugum sem stungu okkur án afláts og var það lítið gaman. Hér er mynd af þessari flugu, hún er með græn augu og brún á litinn.


Annars er það nýjasta nýtt af okkur að frétta að við vorum að uppgötva að það skilaði sér ekki allt sem við settum í töskurnar þegar við fórum af stað í upphafi ferðar eins og t.d. myndavélalinsurnar hans Odds og GPS tækið mitt sem við ætluðum að skrá ferðalagið okkar á. Eitthvað fleira vantar sem er kannski ekki eins bagalegt að missa og þó.... t.d. gleraugun mín (sem bara hæfa mér vegna styrkleika) Gott á þjófinn, vonandi getur hann ekki notað þau. Bíðið bara þetta er örugglega ekki síðasta ævintýrið sem við lendum í.... er ekki annars gaman að lesa svona vandamálablogg?
En við erum í heilu lagi og líður ágætlega þrátt fyrir smá áföll svona nánast daglega til þessa. Við óskum ykkur gleðilegra jóla og hafið það sem allra best yfir hátíðirnar. Hér er mynd af okkur tekin í dag (í golunni) svona til að sýna ykkur að við höfum það alveg ágætt og erum hess og glöð þrátt fyrir áföll síðustu daga.

laugardagur, desember 22, 2007

Töskur og sigling

21. desember


Smelltu á myndina til að sjá hana stærri.
Við leigðum okkur bíl í dag og ókum út í sveit. Frábært landslag en sóðaskapur mannanna er frekar óþægilegur. Við ókum eftir þröngum dölum meðfram vatnsmiklum ám og skógivöxnum háum fjöllum. Litbrigði trjánna og mismunandi trjátegundir voru ótrúlega fjölbreytilegt. Sérstaklega áberandi eru aspartré sem eru frekar gannvaxin og mjög há og vaxa í þyrpingum. Einnig eru bambustré nokkuð áberandi. Landbúnaður er aðalatvinnugreinin, kýr, kindur, endur, hænur og svín ásamt fjölda hunda er leikur lausum hala eru hér út um allt.

Þetta eru aspirnar sem eru svo áberandi alls staðar.

Við skelltum okkur í morgun inn á eina ferðaskrifstofuna og keyptum okkur siglingu til að skoða stóra norðurjökulinn og tekur hún heilan dag eða allan daginn á morgun. En við siglum suður með ströndinni frá litlum bæ sem kallast Chacabuco og er í um tveggja tíma akstursfjarlægð frá Coyhaique (80 km). Það er ekið mjög hægt hér eða á 50 til 60 km hraða sem er ágætt fyrir okkur því við vorum svo mikið að skoða landið. Þar er hótel sem við ákváðum að gista á í tvær nætur því siglingin tekur það langan tíma eða frá hálf átta um morguninn til hálf tíu um kvöldið þannig að við keyrðum núna síðdegis.
Töskurnar komu loks um fimm leytið og vorum við afar glöð að sjá þær en þetta er búið að vera hálfgerð útilega þegar það vantar alla þessa vanalegu hluti.

22. desember Chacabuco

Hér erum við Oddur í golunni (sem er alltaf) í náttúrugarðinum í dag.
Við vöknuðum kl. hálf sjö í morgun og drifum okkur í fötin því nú var ferðinni heitið suður á bóginn í siglinguna. En viti menn eitthvað var þetta nú í stíl við annað í ferðinni. Einn úr móttökunni í hótelinu kom til okkar þegar við komum fram og sagðist hafa leiðinlegar fréttir. Ferðin var felld niður vegna rafmagnsbilana í skipinu. Okkur var boðið í sárabætur í tveggja tíma gönguleiðsögn um einkanáttúrugarð eftir morgunverð og síðan í miðdegismat á eftir. Nú það var ekkert annað hægt en að þiggja það. Eftir matinn fórum við svo sjálf í smáferð og skoðuðum næsta nágrenni. Við leggjum nú ekki í að ganga hér á fjöll í umhverfi Chacabuco vegna þess hve fjöllin eru há og þétt vaxin skógi. Svo eru girðingar með fram öllum vegum með nautgripum og finnst okkur heldur óárennilegt að ganga innan um bolana og geltina. Skógurinn er svo þéttur að það er ógerningur að reyna að komast í gegnum hann nema eftir stígum og þeir eru ekki til. Landslagið hér er hrikalega fallegt og ekki er til orð til að lýsa fjölbreytileika gróðursins. Við höfum lítið séð af dýrum ennþá en samt nokkur skordýr og rosalega stórar hunangsflugur sem í raun eiga ekki að geta flogið vegna stærðarinnar en þær gera það samt. Spóarnir eru eins og gæsir að stærð, gráir og gulir á lit og lóan er á stærð við íslenskan spóa. Við sáum tvo fugla í göngunni um skóginn í morgun sem ekki geta flogið, skrýtnir flugar það og verða þeir að halda sig í skóginum til að verða ekki ránfuglum að bráð.
Við verðum hér á hótelinu aftur í nótt og meiningin er að ganga í þjóðgarði nokkrum sem er rétt við Coyhaique á morgun. Oddur er enn skaðbrenndur á enninu og höfðinu þrátt fyrir húfu og sólarvörn upp á 30 í dag.
Þetta er allt saman ævintýralegt og skemmtilegt og frábært að vera ekki með neina fyrirframákveðna áætlun en spila þetta bara af fingrum fram eftir því sem hugmyndirnar fæðast. Nú er í býgerð að fara í flugferð inn að jökli með tveimur Hollendingum og það er aldrei að vita nema að það takist næst þegar veður leyfir. En það kemur í ljós.

föstudagur, desember 21, 2007

Rauður matur


20. desember 2007
Við eyddum góðum tíma í morgun í að finna út úr því hvar farangurinn okkar væri staddur á þessum drottins degi. Það var hringt út og suður og Freyju á Íslandi blandað í málið og þá kom í ljós að þeir í Santiago höfðu víxlað síðustu tveimur stöfunum í númerunum á ferðatöskunum okkar þannig að þær fundust ekki. En þetta er vonandi allt að koma. Þær fundust í Santiago og höfðu sennilega verið þar þegar við lentum eins og mig reyndar grunaði allan tímann. Svo kom í ljós að Oddur hafði týnt símanum sínum sennilega daginn áður þegar við vorum í hjólatúrnum svo nú höfum við bara minn síma. Við fórum svo niður í bæ og keyptum okkur eitthvað af fötum, það var frekar kalt í dag, lítil sól fyrri partinn þannig að það veitti ekki af meiri klæðnaði. Oddur keypti sér buxur (North Face á 53.000 pesos eða 7000 kr. ísl) og skó (Timberland á 44.900 pesos eða 5500 kr. ísl) og ég peysu (Patagoníu-peysu á 59.900 pesos eða um 8000 kr. ísl.), svona er nú verðlagið hér í Chile. Við erum svo hrikalega nægjusöm og lítið gefin fyrir búðarráp að við létum þetta nægja með von um að töskurnar skili sér á morgun. Svo hjóluðum við um bæinn og dálítið upp í hlíðina fyrir ofan bæinn en þar eru greinilega fátækrahverfi og þau líkjast helst Camp Knox-og braggahverfunum við Suðurlandsbrautina á stríðsárunum heima. Eftir það skiluðum við hjólunum og ætlum að leigja okkur bíl á morgun til að keyra lengra út úr bænum. Við keyptum okkur svo tvö kort af svæðinu hér í kring og erum að skipuleggja göngur og siglingar eftir því sem tíminn leyfir. Það er heldur léttara yfir okkur eftir að við heyrðum að töskurnar hafi fundist enda gefst nú tími til að vasast í öðru en því máli.
Um kvöldið fórum við á kínverskan veitingastað sem er hérna hinum megin við götuna og við fengum sennilega kjúkling og svínakjöt að borða en við erum ekki viss. En maturinn leit skringilega út, eldrauður báðir réttirnir, við vorum að spá í hvort þeir væru í stíl við dúkana á borðunum en allt inni var rautt og svart. Gott að maturinn var ekki svartur.
Svona til að sýna ykkur jólastemninguna hér í Coyhaique þá sendi ég ykkur hérna eina mynd af jólatré sem stóð í garðinum fyrir utan leikskóla. Takið eftir jólapökkunum sem eru undir trénu.

fimmtudagur, desember 20, 2007

Hjólaferð um Coyhaique



Jæja enn er verið að vinna í því að ná ferðatöskunum heim á hótel. Þær eru ennþá týndar og ekkert vitað hvar þær eru. Freyja er komin í málið með bæði ensku og spænsku til að tjá sig á, flottir eiginleikar það.
Í gær fórum við í hjólaferð um næsta nágrenni. Sólin skín án afláts beint ofan í hvirfilinn á okkur svo við verðum greinilega að passa okkur og nú er á dagskrá að ná sér í húfur og sólarkrem til að geta farið út aftur. Þannig að eftir þessa færslu förum við í bæinn að kaupa okkur föt og skó til að geta farið eitthvað út í náttúruna að ganga. Nóg er að sjá. Meiningin er að leigja sér bíl og aka út fyrir bæjarmörkin og skoða náttúruna gangandi svona hér og þar. Odd langar að sjá chileanskann jökul í návígi:-) Hver veit nema að honum takist það.

miðvikudagur, desember 19, 2007

Farangur týndur ennþá

Heil og sæl öll
Þá erum við búin að sofa heila nótt hér og mun hressari en í gær. Úti er sól og talsverð gola. Loks komst ég inn á netið á hótelinu (eins og sjá má) en ég er búin að liggja talsvert yfir því að tengjast og gafst upp í gær. Enginn farangur hefur birst á tröppunum ennþá og er það næsta verk að finna út hvar hann er staddur í heiminum. Annars er allt gott að frétta við ætlum að fá okkur hjól á leigu á eftir og hjóla um bæinn og skoða hann en hann er ekki stór. Kannski get ég sett inn einhverjar myndir af ferðalaginu í kvöld þegar við komum heim aftur.
Fyrstu áhrif: lítið af blökkufólki, ekkert ofurfeitt fólk eins og í USA, engir ferðamenn, engin háhýsi bara smákofar og lítil hús og margir kaupmenn á hornunum og landslagið líkist svolítið íslensku landslagi. Við búum á mjög notalegu litlu hóteli og konan talar ofurlitla ensku og er hún núna að reyna að hringja út af farangrinum okkar.
Látum kannski eitthvað á bloggið í kvöld. K og O

Dagbók dagana 16. - 18. des

16.desember 2007 sunnudagur
Skrifað á flugvellinum í New York um morguninn áður en lagt er af stað til Atlanta. Flugið í gær var þægilegt og áfallalaust. Reyndar þurftum við að bíða í flugvélinni í næstum tvo tíma áður en hún lagði af stað vegna strandaglópa sem var verið að reyna að koma burtu af landinu eftir óveðrið í gærdag. Svo við sátum í flugvélinni hátt í átta tíma því það tók næstum 6 tíma að fljúga til New York.
Við náttúrulega „græddum“ tíma og fórum að sofa klukkan 11 og fengum þar af leiðandi 6 til 7 tíma svefn en það veitti ekki af því við áttum langa ferð fyrir höndum eða alla næstu nótt (10 tímar) í flugvélinni á leið til Santiago.
Þegar við komum út á JFK-flugvöll kom í ljós að það var 2 tíma seinkun og nú sitjum við hér í góðu yfirlæti á Cown lounge og með kaffi og köku og horfum út í suddann og á sjónvarpið. En hér er slydda og mjög þungbúið. Margar byggingar hér eru greinilega ekki vatnsheldar og eru margir balar víða til að taka við vætunni eða bæði á hótelinu og á flugstöðinni. Það verður gott að komast héðan úr suddanum og í sólina fyrir sunnan miðbaug.

Sunnudagur 16. desember Atlanta (um kvöldið)
Crowne Plaza hótelið
Nú erum við stödd á hóteli í Atlanta og þar ætluðum við svo sannarlega ekki að vera núna. Delta yfirbókaði á vélina til Santiago frá Atlanta og við vorum sett hjá. Það er enginn farangur frá því í gærmorgun en hann var bókaður beint til Santiago frá New York. Er því ekki sennilegt að hann birtist á rúllubandinu þar þegar við komumst loks þangað. Við lentum í Atlanta um tvöleytið og reyndum ítrekað að fá sætisnúmer en var alltaf sagt að við mundum fá þau við útgönguhliðið, þannig að við biðum í 9 tíma á vellinum án þess að vita að það var yfirbókað sem er víst all vanalegt hjá þessu flugfélagi.
Áætlunin er því núna að við fljúgum til Miami og síðan til Santiago vegna þess að það er yfirbókað þangað í dag frá Atlanta. Við erum ekki ánægð. Santiago verður ekki skoðuð að þessu sinni. Álitamál er hvort við náum vélinni áfram til Coyhaique um morguninn 18. des. En þetta kemur víst allt í ljós.

Á flugvellinum í Atlanta um hádegið 17. des. 2007
Við erum búin að fá okkur göngu neðanjarðar eftir öllum concourse-unum frá T til E eða rúmlega 1200 m og aftur til baka í concourse A. Við erum líka búin að standa í langri biðröð og fá ýmsu framgengt af óskum okkar eins og t.d. að fá okkur færð yfir á Business Class á leiðinni til baka í stað þess að fá miða upp á 400 dollara hjá Delta fyrir ferð sem við mundum sennilega aldrei fara. Við erum mjög glöð með það eftir allt sem á undan er gengið. Nú sitjum við hér inn í svokölluðum Lounge sem er staður fyrir „fína fólkið“ og horfum út um gluggann á flugvélarnar taka sig á loft hver af annarri og það er algjörlega heiðskírt úti en frekar kalt eða rétt um frostmark sem sagt gluggaveður. Við förum í loftið klukkan 3 og lendum rétt fyrir fimm. Þá þurfum við að bíða eftir flugi til Chile í Miami til kl. 9:05 pm og lendum síðan í Chile 7:30 í fyrramálið. Þá eigum við pantað flug til Coyhaique kl. 10:00 svo þetta verður sprettur hjá okkur.

18. desember sídegis í Coyhaique
Komin á áfangastað (Coyhaique). Sólin gengur í öfuga átt. Hundarnir ganga lausir. Búin að fljúga alla nóttina og hálfan daginn. Farangurinn er týndur og við erum södd. Engin föt til skiptanna eins og er. Fundum út að Coyhaique er borið fram kókjí. Sólin skín og hitinn vel yfir 20 stig enda sumar á staðnum. Erum að skanna umhverfið. Fullt af fallegum fjöllum og grundum til að ganga á þegar gönguskórnir koma.
Ferðalagið er búið að var í meira lagi skrautlegt og eru það sennilega afleiðingar vonda veðursins sem kom heima á föstudaginn. En við lentum greinilega á yfirbókunarlista hjá mörgum flugfélögum. Í annað skiptið munaði mjóu að við yrðum eftir eða í Miami en þá brá Oddur fæti fyrir einn afgreiðslumanninn og ég veit ekki hvað hann sagði við hann en Oddur kom að vörmu spori kankvís á svip með bókuð sæti í vél til Chile sem átti að fara eftir hálf tíma. Við hlupum af stað og náðum. Ennþá höfum við ekki séð farangurinn okkar síðan eldsnemma á sunnudaginn þegar við skiluðum honum á færibandið í New York og nú er síðdegi á þriðjudegi og okkur er sárlega farið að lengja eftir honum.
En nú þurfum við að sofa því það var ekki mikill svefn í vélinni í nótt. Góða nótt.

laugardagur, desember 15, 2007

Flogið af stað

Það lítur nú út fyrir að við komust af stað í dag. Veður er gott og ekki útlit fyrir næstu óverðurshrinu fyrr en í kvöld. Við þurftum að breyta fluginu suður á bóginn og það kostaði nokkra auka tugi þúsunda og mörg símtöl. En nú er kominn ferðahugur í fólkið og við bíðum eftirvæntingarfull eftir að komast af stað. Ég fékk mér göngu eldsnemma í morgun til að láta tímann líða fljótar og var notalegt að hreyfa sig svona í morgunsárið. Fáir voru á ferli og rólegt yfir að líta. Nú er bara að líta yfir minnislistann og athuga hvort allt er með allavega farmiðar, passar og þessi nauðsynlegu kort.
Geri ráð fyrir að setja eitthvað á bloggið í kvöld þegar við komum á hótelið í New York. Þaðan förum við svo í fyrramálið til Atlanta og er bið þar í 9 klukkustundir. Um kvöldið er svo flug til Santiago sem tekur að ég held 10 til 11 klukkustundir og komum við þangað snemma um morguninn. Meiningin var að dvelja þar í tvo daga en það verður víst bara einn að þessu sinni svo við reynum að nýta tímann vel til að skoða okkur um.

föstudagur, desember 14, 2007

Seinkun á flugi


Jæja það var sem mig grunaði að það yrði seinkun á flugi vegna verðurs. Þessa stundina á að fara klukkan sjö í kvöld sem þýðir að við náum þá vélinni til Santiago Chile. En þá verður sjálfsagt lítið um svefn og það tekur því ekki að fara á hótelið sem við vorum búin að panta. Við lifum það af. Annars er allt tilbúið og við bara bíðum eftir að leggja af stað út á völl. Það er smá fiðringur í maganum við tilhugsunina að fara svona langt út í heim en eftirvænting líka.
Ég skrifa sennilega ekki meira hér fyrr en við komum til Chile, en planið er að gista tvær nætur í Santiago og skoðum okkur um þar áður en við höldum til Coyhaique þann 18. desember. Mér sýnist af myndum sem ég hef skoðað af Santiago og sést hér á myndinni að þar séu fjöll, háhýsi og mengun. En ætli við látum ekki fjöllin eiga sig í þetta sinn og skoðum bara borgina og háhýsin neðan fra:-)

fimmtudagur, desember 13, 2007

Óveður og flug


Jæja þá er verið að raða í ferðatöskurnar og gæta þess að allt sé nú með, ekkert má að sjálfsögðu vanta, gönguskór, göngustafir, göngubuxur, göngubakpoki og gönguhitt og þetta. Óveður er í aðsigi í nótt sem á að standa yfir í næstum sólarhring og ekkert víst með flug á morgun frá Íslandi og við sem eigum pantað flug kl. hálf átta á laugardagsmorgun frá New York til Santiago í Chile með viðkomu í Columbíu.
En sem sagt New York á morgun - svona smástopp á leiðinni út.

miðvikudagur, desember 12, 2007

Belisario Jara


Jæja þá er bara einn dagur í brottförina. Nú ætla ég að kynna fyrir ykkur hótelið sem við verðum á í bænum Coyhaique í Chile. Það heitir Belisario Jara og hér er slóðin á vefsíðu þess. Það segir á vefsíðunni að þar sé internetsamband svo við ættum að geta sent ykkur línu af og til á meðan við dveljum þar.
Hér er svo mynd af hótelinu. Það virkar voða huggó.

mánudagur, desember 10, 2007

Sléttan


Hér er mynd af þessari sléttu.

Sléttan og lömbin


Bærinn Coyhaique liggur á stórri sléttu og inn í bænum eru styttur sem eru greinilega einhverjar þjóðarstyttur og er þessi mynd af þeim. Þetta ætlum við Oddur að skoða nákvæmlega þegar við komum í bæinn. Í bænum búa á milli 40 til 50 þús. manns. Það tekur um það bil 3 tíma að fljúga þangað frá Santiago en þar ætlum við fyrst að dvelja í tvo daga og skoða borgina áður en við höldum lengra suður á bóginn.

Coyhaique


Hæ aftur
Borgin sem við ætlum til heitir Coyhaique. Hún liggur á 45 breiddargráðu á suðurhluta hnattarins.

Nýtt bloggtímabil

Jæja þá er best að dusta rykið af þessu bloggi því nú þarf ég að láta vita um ferðir mínar á næstunni. Við hjónin ætlum að leggja land undir fót og skella okkur til Suður Ameríku yfir jólin og áramótin. Patagónína varð fyrir valinu og þar á að ganga um fjöll og dali og skoða tilveruna.
Ég mun á næstunni setja inn ferðaáætlun svo hægt sé að fylgjast með (í huganum).
KSH