föstudagur, desember 21, 2007

Rauður matur


20. desember 2007
Við eyddum góðum tíma í morgun í að finna út úr því hvar farangurinn okkar væri staddur á þessum drottins degi. Það var hringt út og suður og Freyju á Íslandi blandað í málið og þá kom í ljós að þeir í Santiago höfðu víxlað síðustu tveimur stöfunum í númerunum á ferðatöskunum okkar þannig að þær fundust ekki. En þetta er vonandi allt að koma. Þær fundust í Santiago og höfðu sennilega verið þar þegar við lentum eins og mig reyndar grunaði allan tímann. Svo kom í ljós að Oddur hafði týnt símanum sínum sennilega daginn áður þegar við vorum í hjólatúrnum svo nú höfum við bara minn síma. Við fórum svo niður í bæ og keyptum okkur eitthvað af fötum, það var frekar kalt í dag, lítil sól fyrri partinn þannig að það veitti ekki af meiri klæðnaði. Oddur keypti sér buxur (North Face á 53.000 pesos eða 7000 kr. ísl) og skó (Timberland á 44.900 pesos eða 5500 kr. ísl) og ég peysu (Patagoníu-peysu á 59.900 pesos eða um 8000 kr. ísl.), svona er nú verðlagið hér í Chile. Við erum svo hrikalega nægjusöm og lítið gefin fyrir búðarráp að við létum þetta nægja með von um að töskurnar skili sér á morgun. Svo hjóluðum við um bæinn og dálítið upp í hlíðina fyrir ofan bæinn en þar eru greinilega fátækrahverfi og þau líkjast helst Camp Knox-og braggahverfunum við Suðurlandsbrautina á stríðsárunum heima. Eftir það skiluðum við hjólunum og ætlum að leigja okkur bíl á morgun til að keyra lengra út úr bænum. Við keyptum okkur svo tvö kort af svæðinu hér í kring og erum að skipuleggja göngur og siglingar eftir því sem tíminn leyfir. Það er heldur léttara yfir okkur eftir að við heyrðum að töskurnar hafi fundist enda gefst nú tími til að vasast í öðru en því máli.
Um kvöldið fórum við á kínverskan veitingastað sem er hérna hinum megin við götuna og við fengum sennilega kjúkling og svínakjöt að borða en við erum ekki viss. En maturinn leit skringilega út, eldrauður báðir réttirnir, við vorum að spá í hvort þeir væru í stíl við dúkana á borðunum en allt inni var rautt og svart. Gott að maturinn var ekki svartur.
Svona til að sýna ykkur jólastemninguna hér í Coyhaique þá sendi ég ykkur hérna eina mynd af jólatré sem stóð í garðinum fyrir utan leikskóla. Takið eftir jólapökkunum sem eru undir trénu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home