föstudagur, september 11, 2015

Lokahjóladagurinn

Við gistum í nótt hjá hefðarfrú í St Neot sem er smáþorp rétt við bæinn Bodmin á Cornwall. Þetta er margra alda gamalt hús sem tengdaforeldrar hennar áttu og búið er að endurnýja. Það var skemmtilegt að koma inn í svona hús og sjá hvernig fólk býr á þessum slóðum. Þetta er kona á okkar aldri og þau hjónin bjuggu þarna ein í húsinu. Hún tekur ekki fleiri en 4 í einu í gistingu en við vorum einu gestirnir að þessu sinni og hún dekraði heldur betur við okkur. Hún bauð upp á te/kaffi og kökur við komuna. Búið var að loka þorpskránni vegna skilnaðar hjóna sem ráku hana svo það var ekkert að fá nema í 5 km fjarlægð og frúin bara bauðst til að aka okkur þangað og ná í okkur aftur, því það hefði verið mál að hjóla í myrkrinu og innifalið í því var ein dágóð brekka upp á við, svo við þáðum akstur með þökkum enda búin að hjóla nóg þann daginn.  Svo var þessi fíni morgunverður borinn fram í setustofu fjölskyldunnar sem dugði okkur vel fram á daginn.
Nú var stefnan tekin á Bodmin og þaðan á Padstow eftir svokölluðum Camel Trail sem er vinsæll göngu- og hjólastigur meðfram ánni Camel. Við hjóluðum um 45 km í dag og eins og endranær var þetta upp og niður, en við erum orðin svo vön þannig hjólaleiðum að við tökum nánast ekkert eftir  því hvort við förum upp eða niður :-).
Við stöldruðum við í Padstow en það er greinilega vinsæll ferðamannastaður því mikill erill var á öllum veitingastöðum og búðum. Þetta er fiskibær rétt út við Atlandshafið og lítil skemmtileg höfn með skrautlegum bátum. Þarna gætir mjög vel fljóðs og fjöru  sem eru margir metrar, en bátarnir lágu á þurru upp á landi þegar við hjóluðum út fjörðinn en voru síðan komnir á flot þegar við fórum aftur til baka. 
Nú sitjum við hér á Pickwick Inn eftir góðan kvöldverð og spilum krossorðaspilið í einhvers konar svítu sem Freyja pantaði handa okkur. Það er bæði baðker og sturta í baðherberginu ásamt sjónvarpi enda nýtti Freyja sér það áðan. Við erum afar hress með ferðina í heild, það gekk allt svo vel og veðrið lék við okkur, en sagt er að í Devon rigni "six days out of seven". Við fengum aðeins smáúða í dag í 5 mínútur á leiðinni að hótelinu í lok dags, svo þessi fullyrðing á ekki við um veðrið eins og það var hjá okkur í þessari ferð.

Lampen Farm þar sem hefðarfrúin ók okkur á matsölustaðinn á Landrovernum.

Séð út um gluggann á hótelinu, en þetta er garður frúarinnar en eiginmaðurinn klippir runnana.


Ruslafötur af ýmsum gerðum stóðu út við vegkantinn.

Götusjálfsala - grænmeti og blóm til sölu.

Svona skilti sáust víða en þetta var hallinn á einni brekkunni sem við fórum upp.

Freyja er greinilega að spá í að kaupa sér villu á Cornwall.

Stíðsmannsstytta á leið okkar

Á Camel slóð á leið til Padstow.

Radon-grjót til umræðu á Camelslóðinni.

Í Padstow á Corwall.


Á kráargötunni í Padstow.


Síminn hennar Freyju varð fyrir smáslysi og er hér lagaður með límbandi en hann var notaður sem fararstjóri í ferðinni.

Baðkerið á Pickwick hótelinu hjá St Issey.

Vaskarnir voru eins í laginu.

fimmtudagur, september 10, 2015

Hjólað frá Yelverton til St Neot (Lampen Farm)

Þetta var puðdagur þótt ekki væru farnir nema tæplega 50 km. Við vorum stöðugt að fara upp og niður brekkur svo annað hvort lá maður á bremsunum eða puðaði í 1. gír upp talsvert langar og brattar brekkur. Veðrið lék við okkur fjórða daginn í röð og var hvað best í dag, svolítil gola sem virkaði sem meðvindur því við vorum að fara í rétta átt :-)
Ýmist var hjólað á litlum götum í þorpum eða þröngum sveitavegum (einbíla) þar sem útskot voru til að mætast og trén bjuggu til skógargöng yfir veginn. Það er ótrúlega gefandi að kynnast landinu með því að hjóla. Maður heyrir hljóð, lykt og fer vegi sem maður mundi aldrei fara á bíl. Einnig er svo auðvelt að stoppa hvar sem er þegar það dettur í mann. Google gefur frábærar tillögur að ferðaáætlun og manni er vísað á vegi sem auðveldlega er hægt að komast hjá því að sjá ef maður horfir bara á landakort. Freyja er frábær leiðsögumaður með Google maps í símanum á stýrinu og vísar okkur veginn. Við fórum alls kyns krókaleiðir í dag eftir sveitavegum í Devon, en nú erum við komin yfir til Cornwall og gistum í litlu B&B hóteli í St Neot hjá konu sem leigir bara fjórum í einu. Þetta er gamalt útihús sem búið  er að breyta í íbúðarhús (minnir á Peter í Crabton) og leigir út nokkur herbergi. Það fer mjög vel um okkur hér og við erum enn mjög hress og kát og svolítið þreytt eftir erfiði dagsins.
En hér eru nokkrar myndir frá deginum.

Þær eru fallegar heiðarnar í Devon

Allt tekur sig vel út í góða veðrinu

Harrabeer hótelið í Yelverton

Hjólabrúin milli Yelverton og Tavisstock

Það þurfti líka að fara í gegnum  dimm jarðgöng.

Þessi brekka var nokkuð löng og erfið

En það tókst að komast upp

Á brúnni við Tamar ána, rétt ókomin inn í Corwall

Heillandi heiðarland...

Við tylltum okkur upp á einn vegginn og fengum okkur nesti, en við þurftum að kaupa okkur nesti þar sem engar krár voru á leiðinni sem  við fórum í dag.

miðvikudagur, september 09, 2015

The Garden House í Crapstone

Dagur er að kveldi kominn og við komin aftur inn á hótel eftir frábæran dag. Sólin skein í heiði og lopapeysur og úlpur ekkert notaðar. Við tókum daginn í að hjóla um slóðir sem Oddur var á þegar hann var hjá Fortescue í garðvinnu og foreldrum Peters Barons við sveitastörf sumarið 1962, 17 ára gamall. Peter er búinn að selja húsið á landareigninni og innrétta hlöðuna fyrir þau tvö en dæturnar þrjár eru fluttar að heiman. Húsin á landareigninni eru friðlýst og það er mikið mál að fá að breyta og endurnýja hús sem eru friðuð í Englandi. Það tók hann 5 ár að fá samþykkt það sem hann vildi gera við hlöðuna og allt spariféð hans er uppurið við þær breytingar, en árangurinn er flottur. Breytingarnar tóku aðeins ár í framkvæmd og hann er enn að, því hlaðan er stór og hann er að innrétta tvær litlar íbúðir sem hann ætlar hugsanlega að leiga út seinna. Hann er hættur búskap og leigir túnin og keypti sér húsbíl og hefur ferðast víða á honum síðan hann eignaðist hann.

Hlaðan hans Peters sem hann býr í núna

Peter, Freyja og Oddur fyrir utan hlöðuna nýuppgerðu.

Inni í hlöðunni á efri hæðinni


Gengið út á stóra verönd, takið eftir rennihurðinni sem hann rennir fyrir þegar hann fer í burtu.

Þetta er dráttarvélin sem var notuð þegar Oddur var hjá þeim 1962

Eftir heimsókn til Peters fórum við í Garden House þar sem Fortescue byrjaði með garðrækt en hann dó 1981 89 ára gamall og hafði hann áður gefið garðinn til sjálfseignarfélags. Nú er þetta hinn laglegasti skrúðgarður mjög þekktur hér í Englandi. Við dvöldum í garðinum í 4 tíma og fengum okkur "Cream tea with scones" en það er te með skonsum og rúsínum og þykkum rjóma og sultu. Geitungarnir voru afar hrifnir af sultunni og það var varla að Oddur næði henni úr skálinni án þess að vera með einn slíkan á hnífnum. 
Oddur leitaði að hurð þar sem hann hafði skrifað nafnið sitt á þegar hann var hérna en hann fann það ekki svo hann spurðist fyrir um hana og fékk heldur betur leiðsögn um garðinn og við fundum hurðina þar sem nafnið hans var á. Á leiðinni heim komum við aðeins við í Buckland Abbey sem er sögusafn sem nær í um 800 ár aftur í tímann, en það var búið að loka svo við rölum um svæðið sem var mjög fallegt, flottir garðar og eldgömul friðuð hús. 

Oddur við hurðina sem hann skrifaði nafnið sitt á 1962.

Fengum okkur skonsur og te í Garden House

Geitungarnir voru hrifnir af sultunni sem var með skonsunum


Við hjóluðum  aðeins rúmlega 20 km í dag og fengum einnig að reyna okkur í brekkunum eins og undanfarna daga.  Þetta var svona hvíldardagur eftir góða hjólaskorpu undanfarna daga, annars líður okkur bara vel með þetta og allir eru hressir og kátir og ángæðir með það sem við höfum séð og upplifað hingað til.

þriðjudagur, september 08, 2015

Hjólað til Yelverton

Veðrið lék við okkur í dag eins og í gær og var hitastigið rétt undir 20 °C og logn. Við lögðum í hann um 10 leytið og fórum í fyrstu í öfuga átt en  áttuðum okkur fljótlega og snerum við, google reddaði okkur. Í dag voru tæplega 60 km hjólaðir um Dartmoor þjóðgarðinn. Við treystum á Google og símann hennar Freyja og var það góð hugmynd því þetta gekk allt eins og í sögu. Við fundum hjólaleið nr. 27 sem leiddi okkur suður með öllum garðinum. Á kafla er vegurinn lagður meðfram lestarteinum og þar var lítið um hæðir og lægðir. Annars var þetta svona upp og niður hæðirnar og reyndi mikið á bremsurnar í dag. Þetta var skemmtileg og fjölbreytt hjólaleið þar sem við fórum m.a.  inn í göng (eingöngu fyrir hjóla-/göngufólk) og yfir brýr og um dimma skógarstíga með háum trjám sem mynduðu skógargöng. Við hittum þó nokkuð af fólki á þessari leið bæði hjólandi og gangandi sem voru að spóka sig í góðaveðrinu og einnig mættum við konu í rafmagshjólastól að viðra hundinn sinn.  Við gáfum okkur á tal við nokkra þeirra og er fólk hér ákaflega hjálpfúst og vingjarnlegt. Nú erum við komin í Yelverton þar sem Oddur var vinnumaður 1962 og fórum við út að borða með Peter Barrons og frú í kvöld og áttum notalega stund. Peter var sonurinn á bænum sem Oddur var vinnumaður á hér í Devon. þeir hittust einnig fyrir 15 árum en ekkert fyrir eða eftir það þar til nú. Á leiðinni sáum við kirkju frá 13 öld upp á hæð sem við áttum leið hjá og ákváðum við að skoða hana og gengum upp að henni og litum inn.


Hjólað meðfram lestarteinunum. 

        Kirkjan upp á hæðinni.


Freyja fékk sér sæti inni. Þarna sést í skírnarfontinn á bak við hana.

mánudagur, september 07, 2015

Hjólað um Devon í Englandi

Dagur 1 
Við erum í hjólaferð um Suður England þar sem Oddur var sumarið sem hann var 17 ára að vinna hjá Fortescue í garðinum hans rétt hjá Yelverton. 

Aðfaranótt sunnudags vorum við hjá Freyju í London en hún er nýflutt í South East hluta Lundúnaborgar og býr þar með Maríu vinkonu sinni í þriggja herbergja íbúð sem þær leigja saman.

Við hófum svo ferðina á því að fara í ranga lest til Exeter frá London. en við vorum búin að kaupa okkur rándýra miða í hraðlestinaa sem fór 6 mínutum seinna en hefðbundna lestin og stoppaði á hundrað stöðum á leiðinni og við föttuðum það ekki fyrr en við vorum búin að sitja í lestinni í klukkustund og vorum að spá í af hverju hún væri að koma við í Bristol og af hverju sætin okkar voru ekki merkt okkur sem við bókuðum og að það væri ekkert borð til að sitja við sætin okkar eins og átti að vera. En þetta bjargaðist allt saman og við sátum klukkustund lengur í lestinni en við hefðum annars þurft.

Gæinn í hjólaleigunni var afar hjálpsamur og sagði okkur mörgum sinnum að þetta væri mjög hæðótt og erfitt að hjóla þetta og að það væri mikil umferð og varaði okkur við oft og sagði að við ættum að fara varlega.
Nú ferðin gekk bara bærilega, það voru vissulega brekkur en við svifum upp þær eins og ekkert væri enda hjólin ágæt. Við hjóluðum um svokallaða B vegi sem voru ekki hraðbraut en samt svona með einhverri bílaumferð.


Það tók okkur þrjár tíma rúma að hjóla á hótelið og leiðin var 26 km löng.  Eftir eina erfiða og langa brekku komum við í næsthæsta þorp í Dartmore. Þar var mjög gömul og falleg kirkja og krá og póststöðin var í þorpsbúðinni. Þar freistuðumst við til að fá okkur ís "Farmer Tom's"  sem búin var til í héraðinu. Við erum að hjóla eftir landbúnaðarhéraði og kúaangan liðast um loftið, hundgáin og baulið kallast á og háir trjárunnar umlykja vegina. Á leiðinni týndum við brómber og við sáum eplatré en horfðum bara á þau. Þetta er ótrúlega fallegt hérað og veðrið lék við okkur en hjólað var í stuttermabol sem var alveg hæfilegt.  Freyja sá um leiðsögnina með aðstoð símans og google maps og gekk það mjög vel, engar villur vegar í dag. Hjólaðir voru 26 kílómetrar í dag og einbeitingin þurfti að vera vinstra megin á götunni.






sunnudagur, apríl 05, 2015

Páskadagur

Sólríkur og góður dagur hjá okkur. Fórum í útsýnisferð um borgina og ákváðum þá að næst þegar við færum í borgarferð að byrja á útsýnisferð en ekki enda á henni eins og núna. Við vorum reyndar búin að ramba á marga af þessum stöðum sem bent var á, það gerðum við þegar við vorum á hjólunum fyrstu þrjá dagana áður en vinnustofan hófst. Nú sáum við að það hefði verið sniðugt að fara fyrst í ferðina og skoða svo frekar það sem við höfum áhuga á.  En í dag voru engin hjól til leigu svo við urðum að ganga og þá erum við ekki eins fljót yfirferðar. Við fórum út á stað sem kallaður er "Herrenhauser Garten í Herrenhausen Garden" og sagður vera eftirlíking af Versalagarðinum í París. En þetta er flottur garður þótt ekki sé komið sumar, trén mynduðu alls kyns mynstur sem voru mjög falleg.  Við dunduðum okkur í garðinum í tvo tíma og tókum svo vagninn áfram í útsýnisferð og lukum henni við járnbrautarstöðina sem allt miðast við í Hannover. Mikið hefur verið byggt upp í borginni, nánast frá grunni þar sem hún fór svo illa í seinna stríðinu, enda húsin snyrtileg og vel frágengin. Margir hafa leitað til Hannover við uppbyggingu hjá sér (fékk þennan punkt hjá konunni sem laumaði þessu að mér í hátalaranum í rútunni í dag). Það er mjög gott að hjóla í borginni, alls staðar hjólastígar aðskildir frá göngustígum og vel merktir. Það liggur hringur umhverfis miðhluta borgarinnar sem hægt er að hjóla eftir og auðvelt er að fá bílastæði og hafa aðgang að verslunum og öðrum þjónustustöðum.
Nú leggjum við í hann snemma í fyrramálið eða um 6 leytið og tökum fyrst u-banann niður á aðalbrautarstöðina, þar tökum við aðra lest til Frankfurt brautarstöðvarinnar og þaðan aðra lest út á flugvöll.  Vonandi gengur þetta allt upp en flugvélin á að fara klukkan 14 í loftið og lenda 15 heima svo við "græðum" tvo tíma á leiðinni, ekki slæmt :-)
Þetta er búin að vera fín ferð og fróðleg og við erum orðin eldklár á lestarferðum og ég tala nú ekki um þýskunni ;-)... en það þyrfti bara nokkra daga í viðbót til að þetta væri fullkomið!!!
Hlakka til að koma heim, því heima er best.

Á brautarpallinum að bíða eftir u-bananum í morgun.

Í flotta garðinum þar sem við eyddum meiri hluta dagsins.

Flott tré með flott mynstur.

Biðstöð fyrir strætó, hannaðar voru 7 svona nýstárlegar 
biðstöðvar sem allar voru mismunandi. Þetta er ein þeirra.

Dagurinn endaði á bananasplitti, uppáhaldið hans Odds. 
Ég fékk mér auðvitað líka honum til samlætis.

laugardagur, apríl 04, 2015

Úti í náttúrunni

Vinnustofan endaði á gönguferð úti í náttúrunni hér í nágrenni Hannover með Reiner, skólastjóra Waldorfskólans sem fararstjóra sem hluti af hópnum fór í dag. Hinn hlutinn var svo önnum kafinn að hann gaf sér ekki tíma til að taka þátt eða gat það ekki einhverra hluta vegna. 15 manna hópur tók lest til Sonnenborstel sem tók um 30 mínútur og þar gengum við um svæði í um 5 tíma og skoðuðum jökulafurðir, mó, mýri og fugla. Veðrið var okkur hliðhollt og lét sólin sjá sig stóran hluta tímans. Við gengum um skóg þar sem fjöldi stórra trjáa hafði fallið í vindinum um daginn þegar við Oddur fórum í hjólaferðina góðu. Stóðu ræturnar upp í loftið og sást vel hve grunnt þær rista í jarðveginn svo það er ekki að undra að þær láti undan í slíku roki.
Það sem mér er efst í huga eftir þátttökuna í vinnustofunni núna er að við kennarar/foreldrar þurfum að láta til okkar taka og fræða nemendur um viðfangsefni sem tengjast heimskautunum og kynna þeim hve mikilvægu hlutverki þau hafa að gegna á jörðinni varðandi vatnsforða, veðurfari og hvernig þetta tengist loftslagsbreytingum, Það eru þeir sem erfa jörðina og þurfa að takast á við verkefni sem tengjast loftslagsbreytingum og öðrum breytingum sem við erum að sjá núna á jörðinni.  Hvernig gerum við það? Góð spurning. Þessi hópur sem vann núna saman veltir þessu líka fyrir sér og er að leita leiða til að færa heimskautavísindin inn í skólastofuna meira en gert er nú. Verið er að finna styrki til að fræða hjálpa kennurum að mennta og fá fleiri áhugasama í hópinn okkar.

Mótekjubóndabær skoðaður, mörg hundruð 
fermetrar af landi eru þarna teknar undir mótekju.

Nýfallið tré.

Þeir eru flottir þessir!