miðvikudagur, desember 19, 2007

Dagbók dagana 16. - 18. des

16.desember 2007 sunnudagur
Skrifað á flugvellinum í New York um morguninn áður en lagt er af stað til Atlanta. Flugið í gær var þægilegt og áfallalaust. Reyndar þurftum við að bíða í flugvélinni í næstum tvo tíma áður en hún lagði af stað vegna strandaglópa sem var verið að reyna að koma burtu af landinu eftir óveðrið í gærdag. Svo við sátum í flugvélinni hátt í átta tíma því það tók næstum 6 tíma að fljúga til New York.
Við náttúrulega „græddum“ tíma og fórum að sofa klukkan 11 og fengum þar af leiðandi 6 til 7 tíma svefn en það veitti ekki af því við áttum langa ferð fyrir höndum eða alla næstu nótt (10 tímar) í flugvélinni á leið til Santiago.
Þegar við komum út á JFK-flugvöll kom í ljós að það var 2 tíma seinkun og nú sitjum við hér í góðu yfirlæti á Cown lounge og með kaffi og köku og horfum út í suddann og á sjónvarpið. En hér er slydda og mjög þungbúið. Margar byggingar hér eru greinilega ekki vatnsheldar og eru margir balar víða til að taka við vætunni eða bæði á hótelinu og á flugstöðinni. Það verður gott að komast héðan úr suddanum og í sólina fyrir sunnan miðbaug.

Sunnudagur 16. desember Atlanta (um kvöldið)
Crowne Plaza hótelið
Nú erum við stödd á hóteli í Atlanta og þar ætluðum við svo sannarlega ekki að vera núna. Delta yfirbókaði á vélina til Santiago frá Atlanta og við vorum sett hjá. Það er enginn farangur frá því í gærmorgun en hann var bókaður beint til Santiago frá New York. Er því ekki sennilegt að hann birtist á rúllubandinu þar þegar við komumst loks þangað. Við lentum í Atlanta um tvöleytið og reyndum ítrekað að fá sætisnúmer en var alltaf sagt að við mundum fá þau við útgönguhliðið, þannig að við biðum í 9 tíma á vellinum án þess að vita að það var yfirbókað sem er víst all vanalegt hjá þessu flugfélagi.
Áætlunin er því núna að við fljúgum til Miami og síðan til Santiago vegna þess að það er yfirbókað þangað í dag frá Atlanta. Við erum ekki ánægð. Santiago verður ekki skoðuð að þessu sinni. Álitamál er hvort við náum vélinni áfram til Coyhaique um morguninn 18. des. En þetta kemur víst allt í ljós.

Á flugvellinum í Atlanta um hádegið 17. des. 2007
Við erum búin að fá okkur göngu neðanjarðar eftir öllum concourse-unum frá T til E eða rúmlega 1200 m og aftur til baka í concourse A. Við erum líka búin að standa í langri biðröð og fá ýmsu framgengt af óskum okkar eins og t.d. að fá okkur færð yfir á Business Class á leiðinni til baka í stað þess að fá miða upp á 400 dollara hjá Delta fyrir ferð sem við mundum sennilega aldrei fara. Við erum mjög glöð með það eftir allt sem á undan er gengið. Nú sitjum við hér inn í svokölluðum Lounge sem er staður fyrir „fína fólkið“ og horfum út um gluggann á flugvélarnar taka sig á loft hver af annarri og það er algjörlega heiðskírt úti en frekar kalt eða rétt um frostmark sem sagt gluggaveður. Við förum í loftið klukkan 3 og lendum rétt fyrir fimm. Þá þurfum við að bíða eftir flugi til Chile í Miami til kl. 9:05 pm og lendum síðan í Chile 7:30 í fyrramálið. Þá eigum við pantað flug til Coyhaique kl. 10:00 svo þetta verður sprettur hjá okkur.

18. desember sídegis í Coyhaique
Komin á áfangastað (Coyhaique). Sólin gengur í öfuga átt. Hundarnir ganga lausir. Búin að fljúga alla nóttina og hálfan daginn. Farangurinn er týndur og við erum södd. Engin föt til skiptanna eins og er. Fundum út að Coyhaique er borið fram kókjí. Sólin skín og hitinn vel yfir 20 stig enda sumar á staðnum. Erum að skanna umhverfið. Fullt af fallegum fjöllum og grundum til að ganga á þegar gönguskórnir koma.
Ferðalagið er búið að var í meira lagi skrautlegt og eru það sennilega afleiðingar vonda veðursins sem kom heima á föstudaginn. En við lentum greinilega á yfirbókunarlista hjá mörgum flugfélögum. Í annað skiptið munaði mjóu að við yrðum eftir eða í Miami en þá brá Oddur fæti fyrir einn afgreiðslumanninn og ég veit ekki hvað hann sagði við hann en Oddur kom að vörmu spori kankvís á svip með bókuð sæti í vél til Chile sem átti að fara eftir hálf tíma. Við hlupum af stað og náðum. Ennþá höfum við ekki séð farangurinn okkar síðan eldsnemma á sunnudaginn þegar við skiluðum honum á færibandið í New York og nú er síðdegi á þriðjudegi og okkur er sárlega farið að lengja eftir honum.
En nú þurfum við að sofa því það var ekki mikill svefn í vélinni í nótt. Góða nótt.

2 Comments:

At 18/12/09 7:26 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

...please where can I buy a unicorn?

 
At 19/12/09 12:56 e.h., Blogger Kolbrún Svala said...

on amason he he he

 

Skrifa ummæli

<< Home