föstudagur, desember 09, 2005

Vikulok

Nú er föstudagur að kveldi kominn og vinnuviku í skólanum lokið. Notalegt að hugsa til helgarinnar framundan við að dunda sér heima í bakstri og tiltekt - ja svona öðruvísi vinnu en í skólanum. Best að gleyma sér ekki í jólavitleysunni sem maður heyrir og sér úti í þjóðfélaginu og gæta þess að slökkva vandlega á útvarpinu og passa sig að horfa ekki á sjónvarpið. Setja bara góða plötu á spilarann og dansa með kústinn um gólfin og tuskuna á hillunum. Ekki má gleyma göngutúrunum sem verður að fara í á hverjum degi til að anda að sér góðu lofti og endurnýja og hressa upp á vöðvana.
Ég fékk leynivin í dag í skólanum (hann veit ekki af því) og nú er ég að velta því fyrir mér hvað ég eigi að gera fyrir hann á mánudaginn. Spennandi - en mér dettur reyndar ekkert í hug. Ég ætla að gá hvort ég fæ ekki eitthvert heilræði heima hjá mér frá börnunum mínum og manni.
Jæja best að skella sér út í myrkrið og hvíla tölvuna í bili.
Lifið heil.