föstudagur, október 03, 2008

Confucius heimspekingur og "Hollywoodstjarna"

Jæja þá er komið að heimferð eftir langa og ævintýralega dvöl hér í Kína. Þetta er búið að vera frábær upplifun á annars konar menningu en maður er vanur. Það er svo margt öðruvísi hér t.d. siðirnir, maturinn, trúarbrögðin, umferðin og viðhorfin svo eitthvað sé nefnt. Við höfum verið með leiðsögumann sem gætir manns eins og sjáaldur auga síns en það er hún Katie (enska nafnið hennar) eða Liu Xiaomin upp á kínversku. Við erum búin að þræða mannmergðina í dýragarðinum í dag og stóru göngugötuna ásamt því að fara á Torg hins himneska friðar til að sjá fána Alþýðulýðveldisins dreginn niður eftir kúnstarinnar reglum og alltaf er hún með auga á okkur og við höfum aldrei týnst:-)
Á torginu upplifði ég mig eins og Hollywoodstjörnu þar sem ég var nokkrum sinnum beðin um að stilla mér upp með innfæddum til að láta taka mynd af þeim með mér ...he he he... haldiði að það sé.
Þetta er mynd af heiminum og olympíueldinum á Torgi hins himneska friðar.

Við þrjú sátum í dag heillengi á kaffihúsi og spjölluðum saman og fengum við Oddur þannig smáinnsýn í daglegt líf og viðhorf Kínverja. Það var svo gaman að geta spurt hana um hitt og þetta varðandi t.d. barneignir, vinnu, formann Maó, skólamál o.fl. Hún er búin með háskólanám eða gráðu í ensku og hefur verið leiðsögumaður í 3 ár þrátt fyrir ungan aldur eða 24 ár. Hún er einkabarn foreldra sinna og pabbi hennar er officer í hernum en mamma hennar vinnur heima. Hún er ekki alin upp í Peking heldur í næsta héraði utan við Peking (í borg með 300 þús. íbúum). Hún hefur aldrei farið til útlanda en langar að læra meira í erlendum háskóla t.d. viðskipti. Hún hefur eiginlega ekkert ferðast innanlands heldur og langar að fara til Tíbet en þarf að safna sér fyrir því. Hún á eiginmann en ekkert barn en ætlar að eignast það. Hún segir að ungir menn vilji ógjarnan eignast barn því það sé aðeins aukabyrði.

Sem sagt í dag var farið í dýragarðinn þar sem hinar margumtöluðu pöndur eignuðust afkvæmi á síðasta ári (sjá mynd). Í gær hins vegar fórum við í Confuciusar-musterið hér í Peking (en þau eru víða í öðrum löndum) sem var allmerkilegt. Ég hef nú aldrei kynnt mér neitt um þennan heimspeking (sem er Kínverji) en hann var uppi fyrir um 2500 árum. Kennarar ættu kannski að skoða hans fræði eitthvað frekar því hann var t.d. sá sem stofnaði fyrsta einkaskólann í heiminum svo eitthvað hefur karlinn verið framsýnn. Eftir að hafa skoðað sögu hans og lesið um það sem hann lagði til sé ég að það er svo sannarlega margt sem á við enn þann dag í dag. Í musterinu geta nemendur svo fengið aðstöðu við að lesa lexíurnar sínar, þar er einnig bókasafn. Sjá mynd af Confuciusi (merkilegt að geta búið til styttu af svo gömlum manni, það þarf gott minni til þess) og okkur fyrir utan musterið hér fyrir neðan.

Við erum búin að fara á marga skemmtilega og flotta veitingastaði hér í Peking með henni Katie og einkabílstjóranum okkar (hann er alltaf með) og fá afar skrýtna, frumlega og misgóða rétti sem við hefðum aldrei pantað okkur ef við hefðum verið ein á ferð. En Kínverjar eru greinilega snjallir kokkar og búa til mat úr öllu sem hreyfist og vex á jörðinni held ég. Ég var nú ekki alveg jafn hress með allt sem var pantað en það voru yfirleitt 6 til 8 réttir í hvert sinn en það var gaman að kynnast þessu samt. (Ég held að ég sé farin að hlakka til að koma heim í ýsuna og soðnu kartöflurnar). Ég prófaði þó alltaf allt og fór það misjafnlega vel í maga. Einu sinni mótmælti maginn og stóðu þau mótmæli yfir í tvo daga svo þá fuku nokkur hundruð grömm í burtu.
En sem sagt þessu ferðalagi lýkur með heimferð á morgun (laugardag) sem tekur 34 klukkustundir þar til við lendum í Keflavík, en við fáum nú aftur þessar 8 klst. sem við töpuðum á leiðinni hingað.

miðvikudagur, október 01, 2008

Olympíuleikvangurinn og sumarhöllin

Það er heilmikið púl að vera ferðamaður með skipulagða dagskrá, maður er bara dauðþreyttur eftir daginn. Í dag afrekuðum við það að fara á uppáhaldsstaðinn hennar Þorgerðar Katrínar eða Ólympíuleikvanginn í Peking. Leiðsögumaðurinn okkar fór eldsnemma í morgun að ná í miða fyrir okkur og fékk þá á þreföldu verði því það var í fyrsta skipti í dag sem almenningur fékk aðgang að leikvanginum enda er þjóðhátíðardagur Kínverja í dag skv. fyrirskipun Maós formanns frá árinu 1949. En þá tilkynnti Maó að Alþýðulýðveldið Kína væri formlega stofnað. Það var magnað að koma inn á leikvanginn og sjá alla dýrðina. Myndirnar tala sínu máli.
Sjónvarpsskjáir voru á háhýsunum í kring um vettvanginn og sjáið hvað sólin er rauð en það er svo mikil mengun að hún nær ekki að skína í gegn. Sundhöllin lýsir þarna blá í rökkrinu fyrir framan háhýsin. Mannfjöldinn á götunum hérna er gífurlegur.





Við fórum einnig í sumarhöll keisarans eða garðinn þar sem hún er og var hann stofnaður á 17. öld þegar Qianlong keisari ríkti en var eyðilagður af ensk/franska árásarliðinu (1860) í opíumstríðinu. Keisaraynjan Cixi fyrrum hjákona keisarans endurreisti hann síðan 1888 en hún var síðasti valdamaður keisaraættarinnar í Kína og ríkti til 1911. Þarna hafði keisarinn og hans lið viðdvöl á sumrin. Garðurinn var settur á menningarminjaskrá heimsins 1998 af UNESCO. Garðurinn er mjög stór eða um tæplega 3 ferkílómetrar og þar er að finna skrautleg húsakynni, stórt vatn, margar litlar eyjar og flottar brýr þar sem bátar sigla milli brúarstólpanna. Hér koma nokkrar myndir frá garðinum.