mánudagur, febrúar 28, 2011

Ankara - Tyrklandi

Jæja þá er ég komin til Ankara í Tyrklandi en hér er ég á vegum Comeníusar. Ferðin er vegna samskiptaverkefnis við fimm önnur lönd, Pólland, England, Tyrkland, Spánn og Ítalíu og fjallar um lestur og lesskilning og markmiðið er að reyna að auka lestur og lesskilning hjá grunnskólabörnum í ákveðnum skólum í þessum löndum. Verkefnið stendur yfir í tvö ár og er þetta fyrra árið. Með mér í för eru þær Ásta Bára Jónsdóttir námsráðgjafi í Flataskóla og Ingibjörg Baldursdóttir bókasafnsfræðingur í Flataskóla. Við komum hér eftir dagsferðalag í gegnum Amsterdam og Munchen til Ankara um miðnætti í gærkvöldi. Við komuna uppgötvuðum við það okkur til mikillar armæðu að töskurnar okkar höfðu ekki fylgt okkur eftir á ferðalaginu og eru ekki komnar enn þegar þetta er skrifað um kvöldið á mánudegi þ.e.a.s. sólarhring síðar. En ég er alvön þessu eins og víða má sjá á blogginu mínu hér áður og er ég núna alltaf við öllu búin og tók auðvitað það nauðsynlegasta með mér í handfarangur eins og naríur og tannbursta svo ég er bara í góðum málum. Það væri nú samt gott að fá töskugreyið fljótlega. Það var tekið á móti okkur á flugvellinum og okkur var hreinlega fylgt upp í herbergið okkar á hótelinu og lokað á eftir okkur. En um morguninn komumst við að því að það kunni enginn í móttökunni stakt orð í ensku og það voru engin kort til á hótelinu af næsta nágrenni. Ég var auðvitað búin að gera ráð fyrir þessu líka (óvart), en ég hafði sett inn tvo punkta á GPS tækið sem ég tók með mér, en annan setti ég þar sem hótelið var og hinn þar sem einhver flottur garður sást á Google Earth og þangað héldum við eftir tækinu og gekk það allt saman vel upp. Síðdegis hittum við svo Ayzegül (sú sem skipuleggur dvölina fyrir okkur 22 sem komum) sem fór með okkur út að borða og höfðum við það mjög huggulegt. Ásta lagði í það að prófa tyrkneska kaffið og gat drukkið hálfan bolla en þá gafst hún upp, Ingibjörg reyndi að spá í bollann hennar en það var ekkert af viti enda aðeins á færi sérfræðinga að spá í tyrkneska kaffikorginn. Ayzegül sagði okkur frá sínum Jóni Sigurðssyni en hann hét Mustafa Kemal Atatürk og fyrir hans tilstilli var lýðræði sett á í Tyrklandi 1923.



Við komumst að því að því að lyklaborð á tölvum hérna eru ekki eins og á okkar tölvum, stafirnir eru á allt öðrum stöðum, svo tveggja putta aðferðin var notuð og er hún nokkuð hægvirk, ég skil núna þá sem eru að glíma við lyklaborðið og hafa ekki rétta fingrasetningu.
Í göngutúrnum sáum við gamalkunnar persónur úr ævintýrinu Mjallhvít og dvergarnir sjö.



En látum þetta duga í dag, verð vonandi aftur með smápistil á morgun.