þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Dagurinn í gær

Jæja það er nú gott að dagurinn í gær er liðinn. Hann var svolítið furðulegur. Maðurinn minn átti að sækja mig en gleymdi að hann var á bílnum og við biðum bæði eftir því að við sæktum hvort annað. Síðan ætlaði hann að koma í afmælið hans Jens seinna um kvöldið en hringdi og sagðist hafa týnt lyklunum af bílnum og bað um að varalyklar væru sóttir. Þar með lauk partýinu og þegar við vorum svo að fara út úr dyrunum hringdi hann aftur og ..... hann hafði farið í vitlausan jakka og þar með voru lyklarnir komnir í leitirnar. Svona er þetta stundum að allt gengur á afturfótunum. Vonandi verður þessi dagur án uppákoma. Sjáum til.

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Hvunndagurinn

Jæja þá fólkið mitt, nú gengur lífið sinn vanagang (sem betur fer) og allt í reglunni, sofa, borða, vinna, keyra, brosa, hlæja, ganga, tala og svo framvegis. Ekkert sérstakt í gangi þessa dagana. Var reyndar með tölvunámskeið í gær fyrir starfsfólkið í skólanum og viti menn 10 mættu sem var bara mjög gott, fleiri en síðast. Ég vona að þeir hafi lært eitthvað;-()
Nú er úti veður gott og mann langar út. Kannski að maður kíki út í hádeginu og andi að sér heilnæmu lofti og skreppi í hraðbankann til að ná sér í reiðufé.
Kaffitíminn búinn, best að koma sér að verki.
Skjáumst :-)

föstudagur, nóvember 04, 2005

Orkulandið


Jæja þá loks kom sólin og viti menn heimurinn leit öðruvísi út. Hvílík fegurð. Eins og þið sjáið er fagurt um að litast. Hvítar grundir hvert sem litið er enn….. því miður er þetta ekki eins og ég vil hafa það því það heyrast allt of oft skothvellir rjúpnaveiðimanna hinum megin í dalnum og eru þeir örugglega búnir að veiða upp í kvótann ef þeir hafa hitt í öðru hverju skoti blessaðir. En svona er það við sjáum slóðir eftir rjúpur hvert sem litið er á göngu okkar um svæðið og það er greinilega mikið um hana hérna og ég vona að þær haldi sig hérna megin í dalnum því ekki skjótum við þær. Nú er bara að bíða eftir norðurljósunum og stjörnunum í kvöld þá getum við haldið heim á leið endurnærð af náttúrunni og verunni hér.
Við erum búin að dunda okkar hér í sæluríkinu Sellandi við göngur, skógarhögg og frætínslu úti við en lestur, hannyrðir, útvarpshlustun, spil og fleira innan húss og er ekki hægt að hugsa sér þetta betra. Við höldum heim á leið á morgun full orku og byrjum að vinna á mánudag eftir vikufrí hérna. Hlakka bara til að hitta krakkana bæði mína og þessa í skólanum. :-)

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Selland


Jæja þá er vetrarfríið hafið og ég komin norður í land í Sellandið okkar (myndin hér að ofan). Hér er allt á kafi í snjó eins og sjá má og friðsældin þvílík að annað eins hef ég ekki upplifað. Við hjónin unum okkur hér við göngutúra, snjómokstur, spil, lestur góðra bóka og handyrðir og höfum unað svo við í tvo daga og notið þess í botn. Hér er enginn lifandi vera að þvælast fyrir okkur nema nokkrar hvítar fallegar rjúpur. Snjókoma hefur verið þó nokkur og þá hefur hann ætíð verið að norðan nema núna að hann hefur snúið sér og er byrjaður að snjóa að sunnan. Skrýtið, það snjóar úr öllum áttum bara. Ekkert hefur sést til sólar ennþá og norðurljósin og stjörnurnar hafa falið sig á bak við skýin. En það kemur ekki að sök, við vitum að þau eru þarna einhvers staðar og koma í ljós í fyllingu tímans. Hér eru öll þægindi sem hægt er að hugsa sér, rennandi heitt og kalt vatn, rafmagn og nógur matur þannig að það væsir ekki um okkur. Hér ætlum við að vera a.m.k. fram að helgi en þá tekur auðvitað vinnan og hvunndagurinn við.