fimmtudagur, apríl 02, 2015

Vinnustofan

Aðalumræðuefnið í dag á vinnustofunni var umræðan um verðandi umferð um norðurheimskautasvæðið, hverjir ættu að hafa aðgang að því og hverjir ætluðu að eigna sér það. Það væri jafnvel farið að skipuleggja ferðir frá ferðaskrifstofum um svæðið þótt ekki sé hægt að fara þar auðveldlega um ennþá. 
Þá var talað um freðmýrarnar því þær eru að þiðna meira en góðu hófi gegnir og er það óhugnanleg þróun sem lýst var í fyrirlestri í dag. Oddur talaði um jöklasporðamælingar og hvernig jöklarnir væru á hröðu undanhaldi og hvernig bændur, lögfræðingar, læknar og skólakrakkar mældu jökulsporðana. Við fengum líka að leika okkur smá og nota spil þar sem hægt er að læra ýmislegt um náttúruna og hvernig hún hagar sér og er byggð upp. 
Á vinnustofunni eru um 40 manns og það hallar eilítið á fjölda karla í hópnum.  Þetta eru mest kennarar en það eru líka nemendur úr Waldorf skólanum þar sem vinnustofan er haldin og nokkrir vísindamenn.  Flottur og skemmtilegur hópur á öllum aldri sem hefur það sameiginlegt að hafa áhuga á náttúrunni og hvernig hægt er að vernda hana og kenna nemendum um hana og að virða hana og njóta.
Um kvöldið fóru allir út að borða á grískan veitingastað og áttum við þar góða stund saman yfir góðum mat.  Það er ótrúlega gaman að hitta þetta áhugasama fólk og spjalla við það um þessa hluti og mynda sambönd sem ef til vill leiða til einhvers meira, það er aldrei að vita.


Teikning eftir þýskan nemanda sem skreytir vegg vinnustofunnar.


Ekaterina frá Belogorskaya í Siberíu að halda fyrirlestur um heimabæinn sinn. 
Hún skreytti sig með þjóðbúningi þegar hún flutti fyrirlesturinn.

Það snjóaði pínulítið annað slagið yfir daginn, rétt eins og heima.

Elena er að kenna okkur náttúrufræðispilið sem verður gefið út í sumar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home