mánudagur, mars 23, 2015

1. mars - á leið heim


Farið frá Havanna til Varadero í rútu. Í morgun var farið frá Havanna tíl Varadero strax eftir morgunmat. Hótelið í Varadero var með "all included" sem þýðir að allt sem maður þurfti í mat og drykk var til reiðu án greiðslu. Eftir að við höfðum fengið okkur hádegisverð hjóluðum við eftir ströndinni og skoðuðum okkur um. Þetta er algjör strandlífsstaður með hvítri baðströnd svo langt sem augað eygir í báðar áttir á ströndinni. Franskur auðmaður hafði átt þennan tanga og byggt sér flotta villu þar sem var gerð upptæk af þeim Castrobræðrum og svæðið gert að ferðamannastað. Hótel og minjagripabúðir raða sér meðfram ströndinni og kúbönsk tónlist hljómar í loftinu. Eftir hjólatúrinn voru hjólin tekin í sundur og sett í kassa og inn í rútu. Við áttum góða stund með hópnum um kvöldið og var það nokkurs konar kveðjustund. Var fólk sammála um að ferðin hefði verið góð og sumir eru áfjáðir í að fara aftur og læra meiri spænsku áður. Sighvatur var orðinn betri í fæti og hjólaði smáspöl með okkur svona til að bæta sér upp það sem hann missti af hjólatúrnum í gær.





0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home