sunnudagur, mars 22, 2015

Kúba - 24. febrúar - Havana


Flugferðin til Kúbu gekk vel við fengum hagstæða vinda og þurftum ekki að millilenda í Halifax og ferðin tók aðeins tæpa níu tíma. Síðan tókum við rútu til Havana frá Varadero þar sem við lentum en ferðin þangað tók um tvo tíma. Hótelið sem við erum á hefur einhvern tíman verið glæsilegt en hefur ekki fengið þá aðhlynningu sem svona hús þurfa á að halda og er þar af leiðandi margt bilað og illa farið bæði í umhverfinu og húsnæðinu. Eftir að við vorum búin að koma okkur fyrir í "bungalóum" utan við hótelið settum við saman hjólin sem öll voru flutt í kössum og tekin í sundur fyrir ferðalagið. Það verk gekk bara vel og ekkert vandamál kom upp. Náðum við þessu fyrir myrkur en það skall á nokkuð snögglega um 7 leytið.

Kúbverjar eru afar músikalskt fólk og það hljómar fjörug tónlist alls staðar sem við förum. Oddur er búinn að láta pranga inn á sig 2 diskum en tónlistarmenn spila og syngja fyrir okkur þegar við borðum og svo ganga þeir um með söfnunarbauk og diskana og selja okkur. Reyndar tók Oddur undir með söngkonunni í gærkvöldi og söngu dúett með henni og skemmti gestunum á barnum.

Í dag hjóluðum við inn í Havana eða Old Havana og skoðuðum okkur um með Javier leiðsögumanninum okkar sem fylgir okkur hvert fótmál (ekki á hjólunum) og fræðir okkur um allt milli himins og jarðar um það sem varðar Kúbu. Við höfum fengið allt aðra og víðari yfirsýn af Kúbu en áður og erum mun fróðari. Við heimsóttum allmörg torg og eitt safn um Jose Marti sem er rithöfundur og blaðamaður á síðari hluta 19. aldar. Um kvöldið fengum við okkur að borða í Turninum, en hann er mun hærri en hjá okkur eða 32 hæðir og tók heldur á hjá mér að taka lyftuna og út að glugganum fór ég ekki. Rafmagnið fór af þrisvar sinnum á meðan við vorum að borða og var ég ansi smeyk við að fara niður í lyftunni þegar við vorum búin. En þetta endaði allt vel og ævintýrin biðu næsta dag en þá stefnum við á Las Terrazas - San Juan river - Soroa.




Á flugvellinum þegar hjólin komu úr vélinni.


Hjólin sett saman um kvöldið.


0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home