laugardagur, apríl 26, 2014

Komin heim

Þá erum við komin heim aftur endurnærð á sál og líkama. Ekki gafst tími til að blogga fyrr en nú. Þetta var frábær ferð og nú er ég alla vega búin að fá bakteríuna og langar að hjóla meira. Síðasti dagurinn var eins ánægjulegur og allir hinir, við tókum okkur góðan tíma til að hjóla þessa km sem eftir voru og skoðuðum klaustur á leiðinni heim og það var eins og allar þessar fornu byggingar með flotta turna og flottan garð. Þetta var eins og lítið þorp með hárri girðingu í kring og greinilega sjálfu sér nægt.
Eftir að hafa fengið sér hressingu í Avignon og skilað hjólunum tókum við hraðlestina síðdegis og komum til Parísar rétt um átta leytið eftir tæplega þriggja tíma ferð. Fundum íbúðina sem Freyja hafði pantað í gegnum AirBnB, hittum þar stúlkuna Radinu sem á íbúðina og hún leiddi okkur inn í allt í tengslum við vistarveruna en við gistum þarna í eina nótt. Íbúðin var á þriðju hæð og engin lyfta svo við fórum í kraftlyftingar og örkuðum upp tröppurnar með töskurnar okkar. Við vorum fegin að vera einni hæð neðan en í hinni íbúðinni svo það var bara Pollýönnuleikur að þessu sinni. Freyja á ekki orð yfir allan þennan farangur sem við erum alltaf að dröslast með. Hún var með eina litla tösku í handfarangri og dró hvert dressið af öðru upp úr henni daglega, það var ótrúlegt hvað kom upp úr svona lítilli tösku. Við þurfum greinilega að skoða listann okkar betur næst þegar við förum og læra af henni hvað á að taka með. Við áttum að fljúga heim um tvö leytið daginn eftir en fengum smá bónus (aftur Pollýönnuleikur) á tímann vegna verkfalls og gátum rölt um París og notið góða veðursins í 3 tíma í viðbót og vorum við þó komin heim um kvöldmatarleytið síðasta vetrardag því það var tveggja tíma munur á tímanum. Freyja hitti vinkonu sína um miðjan dag þegar við fórum en hún átti kvöldflug til Birmingham. Hún á vini í öllum löndum sem hún hittir þegar hún er á ferðinni enda daman búin að ferðast víða um heim og mynda sambönd.
Sem sagt þessi páskaferð var vel heppnuð eins og margar okkar páskaferðir hafa verið áður t.d. til Krítar og Ítalíu. 
Abbaye de Saint-Michel de Frigolet klaustið sem við heimsóttum,

Freyja og Oddur á ferðinni í góða veðrinu.

Á hóteli í Graveston á leiðinni til Avignon síðasta daginn.

Rýnt í kortin, við vorum ekki alveg viss á leiðinni þarna.




0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home