mánudagur, apríl 21, 2014

Að villast í Frakklandi


Þriðji dagur búinn og ekki sveik skipulagið frekar en endranær þótt við værum dálitið áttavillt í lok dags og findum ekki hótelið okkar í Graveson, en það tókst nú að lokum með góðri hjálp vegfaranda. Freyja og Oddur æfa sig í frönskunni og tekst bara þó nokkuð að gera sig skiljanleg. Við fengum bara bærilegt veður í dag þrátt fyrir rigningarspá, því sólin lét sjá sig og hitastigið var nálægt 19 stigum svo ekki gátum við kvartað.  Við bættum aðeins við fyrirhugaða ferð og fórum til Arles og þar var nú heldur betur læti í bænum en við sáum kúreka og naut hlaupa eftir götunum. Þar er líka gamalt hringleikahús fra fyrri öldum sem enn er notað við hátíðarhöld eins og í dag. Síðan fórum við til lítils bæjar Tarascon þar sem ekkert var að gerast sjálfsagt allir i Arles á hátíðarhöldunum. Þar fengum okkur hressingu og hjóluðum áfram til Graveson. 50 km voru lagðir að baki í dag í yndislegu umhverfi, eplatré, vínakrar og olífuakrar ásamt hveitiökrum lögðu undir landflæmið svo langt sem augað eygði og hjóluðum við litla sveitavegi að mestu. Fuglasöngurinn gerði okkur lífið ljúft en hann var afar fjölbreyttur og greinilega mikið að gerast hjá þeim núna. Sem sagt veröldin lék við okkur í dag og við nutum hverrar mínútu.
Set með nokkrar myndir til að sýna stemninguna hjá okkur.
Lagt af stað frá Fontvieille um morguninn.










Víða eru leyfar af svona fornminjum þar sem við komum í bæina.



0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home