mánudagur, mars 30, 2015

Hannóver 30. mars 2015

Þá er maður kominn á flakk aftur. Í þetta sinn var stefnan tekin á Hannover í Þýskalandi. Þar eru vinnubúðir sem við Oddur ætlum að taka þátt í um PEI sem útleggst Polar Educators International. Það eru 15 ár síðan það var stofnað af áhugasömum vísindamönnum og kennurum og fórum við á samskonar vinnustofu í Coimbra í Portúgal fyrir tveimur árum. Síðan þá hef ég tekið þátt í einu eTwinningverkefni þar sem þetta efni var tekið fyrir í tveimur skólum á Ítalíu og í Flataskóla þar sem ég vinn. Fyrra árið vann ég með 7. bekkja kennurum og í ár með 6. bekkja kennurum og voru nemendur mjög áhugasamir í báðum hópum. Nú er ég spennt að heyra eitthvað nýtt í þetta skipti til að færa heim til okkar.  Oddur ætlar að vera með fyrirlestur um sporðamælingar meðal leikmanna og skólanemenda og ég verð með veggspjald þar sem ég sýni hvað við vorum að gera í okkar skóla. 
Vinnustofan byrjar á miðvikudag og stendur frá á laugardag en við ákváðum að koma aðeins fyrr hingað og skoða okkur um og eiga smá frí áður en við hefjumst handa á miðvikudag. 
Í gær fór allur dagurinn að koma sér á staðinn frá því að við fórum frá Íslandi kl. hálf fimm í rútuna og þangað til við komum á hótelið um hálf átta leytið. Eftir þriggja tíma flug til Frankfurt tók við lestarferð í tæplega 3 tíma og svo leigubíll í 25 mínútur frá lestarstöðinni.
Í dag fórum við í miðbæinn að leita okkur að hjólum og skoða okkur um og síðan hjóluðum við aðeins um einhvern hluta Hannover áður en við fórum á hótelið. Það gekk á með éljum/rigningu og sól svo við þurftum annað slagið að leita í skjól en það var gott á milli. Það er ekki hlýtt hér eða bara um 10 gráður (svo það var skrýtið með élin) en sólin er byrjuð að hita aðeins og gott í skjóli.
Það sem sagt væsir ekki um okkur og við erum í fríi engin klukka að reka á eftir okkur sem er alveg indælt.
Nú erum við að horfa á hryllingsmynd um stríðið og Hitler í sjónvarpinu og höfum það mjög náðugt.
Meira frá okkur á morgun. Nú erum við ekki á Kúbu, hér er netsamband á hótelinu sem er mjög þægilegt fyrir svona tölvufíkil eins og mig.

Oddur við hliðina á orkulistaverki, en vindurinn snýr kúlunum
eftir því hvernig stendur á honum. Tvær snerust að þessu sinni.
Listaverkið stendur á götunni fyrir fram aðaljárnbrautarstöðina.

Svona bakkelsesborð var víða í boði og reynt var að freista manns,
en það er svo kalt að það er ekkert freistandi að borða úti núna, 
best að sitja við glugga og láta sólina skína í gegn.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home