miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Selland


Jæja þá er vetrarfríið hafið og ég komin norður í land í Sellandið okkar (myndin hér að ofan). Hér er allt á kafi í snjó eins og sjá má og friðsældin þvílík að annað eins hef ég ekki upplifað. Við hjónin unum okkur hér við göngutúra, snjómokstur, spil, lestur góðra bóka og handyrðir og höfum unað svo við í tvo daga og notið þess í botn. Hér er enginn lifandi vera að þvælast fyrir okkur nema nokkrar hvítar fallegar rjúpur. Snjókoma hefur verið þó nokkur og þá hefur hann ætíð verið að norðan nema núna að hann hefur snúið sér og er byrjaður að snjóa að sunnan. Skrýtið, það snjóar úr öllum áttum bara. Ekkert hefur sést til sólar ennþá og norðurljósin og stjörnurnar hafa falið sig á bak við skýin. En það kemur ekki að sök, við vitum að þau eru þarna einhvers staðar og koma í ljós í fyllingu tímans. Hér eru öll þægindi sem hægt er að hugsa sér, rennandi heitt og kalt vatn, rafmagn og nógur matur þannig að það væsir ekki um okkur. Hér ætlum við að vera a.m.k. fram að helgi en þá tekur auðvitað vinnan og hvunndagurinn við.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home