mánudagur, október 24, 2005

Sláturgerð

Jæja þá er helgin liðin og sláturgerðin frá. Maður verður að vera þjóðlegur og halda uppi þjóðlegum hefðum eins og að nýta þessa frábæru afurð sem sauðkindin gefur okkur. Já sem sagt ég tók 5 slátur og fullt af aukalifrum og aukavömbum. Vamirnar voru saumaðar á hefðbundinn hátt þ.e.a.s. með nál og bómullargarni. Nú erum við alsæl með fulla kistu af lifrarpylsu- og blóðmörskeppum. Svo var auðvitað sett smá í súr svona til að hafa líka með grjónagrautnum á laugardögum í vetur.
Þetta tók allan laugardaginn svo ekki var mikið gert meira þann daginn, nema reyndar við hjónum fórum í kaffiboð um kvöldið og áttum góða stund með vinum sem við hittum öðru hverjum og spjöllum um það sem efst er á baugi hverju sinni.

Sunnudagurinn leið svo fljótt og vel, ég fór seint á fætur, spjallaði við heimafólkið og fékk mér svo göngu um hverfið í ágætis veðri. Sat svo við tölvuna og gluggaði í hinar og þessar síður á netinu og skrifaði fundargerð sem ég átti eftir að gera. Um kvöldið fengum við svo spilafélaga í heimsókn og tókum nokkra punkta af þeim og sýndum þeim svo vídeómynd frá sumargöngutúrnum sem ég var nýbúin að klippa.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home