þriðjudagur, september 30, 2008

Kínamúrinn


Jæja þá er Kínamúrinn kominn í reynslusarpinn. Við trítluðum upp á hæsta punktinn á Kínamúrnum í dag og gengum fararstjórann okkar hana Katie af okkur. Katie er 24 ára gömul kínversk stúlka sem er búin að leiðsegja í 3 ár hér í Peking. Hún er mjög umhyggjusöm um okkur hjónin og sleppir varla af okkur hendinni fyrr en inn á hóteli á kvöldin. Það var ótrúlega hlýtt og gott veður í dag eða um 25-27 stiga hiti en mikil mengun þannig að sólin sást varla. Á Múrnum var múgur og margmenni og er það sennilega vegna þess að þessa vikuna er frí í öllum skólum og mörgum vinnustöðum vegna þjóðhátíðardags Kína sem er 1. október. Þeir unnu síðustu helgi til að vinna sér inn lengra frí og fara síðan ekki í vinnuna eða skólann aftur fyrr en mánudaginn 6. okt. Við eru dálítið óheppin hvað þetta varðar vegna þess að það er núna svo mikill fjöldi á öllum ferðamannastöðunum, við erum alltaf í biðröð og að lenda í umferðarhnútum. Við vorum föst í marga klukkutíma í umferðinni í dag á leið á Múrinn og heim aftur. En það eru ævintýri á hverju horni og við leyfum Katie að ráða sem mestu því hún finnur upp á svo mörgu skemmtilegu. Í gær fórum við á tehús þar sem kynntar voru fyrir okkur hinar ýmsu tetegundir og listir varðandi tedrykkju sem var afar skemmtilegt.

Í dag ókum við svo inn í lítið þorp utan við Peking og hittum þar fyrir skrýtinn karl sem átti garð og kofaræskni og ræktaði tóbakið sitt sjálfur. Við spjölluðum smá við hann (með aðstoð Katiear) og hann gaf okkur gingseng sem hann tók upp úr garðinum sínum. Þar sáum við líka 3 flotta og glaða krakka í kerru.
Deginum lauk með því að við fórum á kínverska Operu. Svo það er stíf dagskrá alla daga og er maður lúinn þegar heim á hótel er komið.

Síðan við komum til Peking erum við búin að skoða Forboðnu borgina og Musteri himinsins og eru þarna afar tilkomumiklar byggingar og fróðlegt að skoða þetta með aldur þeirra í huga, þarna hafa verið snillingar á ferð. Það er líka búið að lagfæra allt svo mikið í tilefni Olympíuleikanna og allt er svo hreint og snyrtilegt hér að það er alveg ótrúlegt. Mér finnst Kínverjar flottir arkitektar, nýju húsin þeirra er alltaf eitthvað meira en kassar (eins og við byggjum). Þeir skreyta húsin miklu meira og setja gler og ávöl horn eða annað skraut á þau svona til að gleðja augað.
Á morgun er svo stefnt á Sumarhöllina og kannski eitthvað fleira en það kemur í ljós.





laugardagur, september 27, 2008

Með róna á bakinu

Jæja nú er ég loks komin í samband aftur en í DunHuang var ekkert netsamband við umheiminn og því lítið skráð á netið. En hér kemur smá úr dagbókinni minni síðustu daga.


Miðvikudagurinn 24. september 2008 – Lanzhou
Síðdegis fór ég með myndavélarnar mínar út til að taka myndir af mannlífinu á götunni. Fyrst sá ég gamlan mann sem sat á litlum kolli og las bók undir tré og tók myndband af honum og fann þá að andað var yfir öxlina á mér og sá heldur ritjulegan mann vera að athuga af hverju ég væri að taka mynd svo ég forðaði mér og hélt áfram út á næsta götuhorn þar sem mannlífið var heldur fjörugra. Fann ég þar hóp af hjólreiðamönnum sem voru að bíða eftir græna ljósinu og mundaði ég nú vélina aftur og viti menn aftur var andað á bakið á mér og annar slæpingi var kominn á öxlina til að athuga hvað ég væri að gera. Þeir eru óþægilega forvitnir þessir gæjar þarna. Ég sá að þetta var nú ekki alveg það sem mér líkaði svo ég fékk mér göngutúr með myndavélina í töskunni. Ég áttaði mig líka á því að ég var eina evrópska konan á götunni og vakti athygli bæði barna og fullorðinna. Þetta minnti mig á þegar ég sá svertingja í fyrsta sinn á götu á Íslandi að ég gat ekki annað en horft pínu mikið á hann og hefur hann sennilega haft sömu tilfinningu og ég þarna á göngu minni. Það er munur að geta baðað sig í sviðsljósinu. Göngutúrinn varð frekar stuttur og ekki voru fleiri myndir teknar í bili af götulífi í Lanzhou í Kína.
Um kvöldið flugum við svo til DunHuang sem tók tæpa tvo tíma með þotu og þar tók á móti okkur leiðsögumaður frá staðnum hann Larrý en við vorum líka með leiðsögumann frá Lanzhou með okkur þannig að nú eru þeir orðnir tveir. Við vorum nú komin í enn meiri sveitabæ en áður en þarna búa um 130 þús. manns nánast úti í eyðimörkinni. Hér fær maður ekki einu sinni hníf og gaffal til að borða með sem fékkst þó á hinum staðnum, aðeins prjóna. Hafið þið einhvern tímann reynt að borða hrísgrjón með prjónum? Þetta er að koma hjá mér en ég er lengi að dunda mér með matarprjónana.

Fimmtudagurinn 25. september 2008 – Dun Huang
Nú vorum við sko komin í stífa dagskrá. Vakna kl. 7 um morguninn og af stað í rútunni kl. 8. Ferðinni að þessu sinni var heitið að jökli nr. 12 (sjá mynd) – en Kínverjar nefna jöklana sína með númerum eftir því hvað þeir eru merkilegir (þessi var greinilega ekkert voðalega merkilegur). Ferðin upp í fjöllin tók 4 tíma (aðra leið) og það var einu sinni pissustopp á leiðinni þar sem ég fékk að fara á bak við steinahrúgu í eyðimörkinni, en leiðsögumaðurinn sagði að hún væri miklu betri en WC í húsi (þau eru hola og enginn klósettpappír). Við jökuljaðarinn var nestið tekið upp (sem leiðsögumaðurinn sá um) en það samanstóð af pylsu, spaghetti, eggi , niðursoðnu salati og brauðbollu (sjá mynd). Svo fengum við sætt kaffi á eftir, það fannst Oddi gott. Þarna vorum við komin í 4300 m hæð yfir sjó þannig að við urðum að hreyfa sig hægt og rólega til að fá ekki háfjallaveiki. Samt varð einn fljótlega veikur eftir að við komum upp eftir og urðum við því að flýta för okkur niður aftur til að forða honum frá frekari veikindum, það er víst ekkert annað ráð við háfjallaveiki en að fara niður aftur.
Það er afar sérstakt landslag hérna, hálfgerð eyðimörk (rignir aðeins 40 til 50 mm árlega) með vinjum á nokkrum stöðum þar sem landsbúar rækta með áveitu helst maís, bómull, melónur og silki. Alls staðar var fólk á ökrum að tína bómullina af plöntunum bæði þegar við fórum upp eftir og einnig þegar við komum heim 7 til 8 tímum síðar. Þá stóðu pokarnir fullir hér og þar um akrana eftir afrakstur dagsins.
Bæði Lanzhou og Dun Huang eru borgir á Silkileiðinni fornu en á þessum slóðum er mikil silkirækt.


Föstudagurinn 26. september 2008 – DunHuang
Í dag fórum við að skoða hella sem gerðir voru frá því fyrir 327 e.Kr. Í þeim eru mörg búddalíkneski og flottar myndskreytingar á veggjum frá keisaratímabilunum (sem voru 14) og er þetta ótrúlega vel varðveitt. Þarna eru tæplega 500 hellar sem fundust fyrir tilviljun aftur í upphafi 20. aldar en höfðu verið týndir í aldir. Einnig fundust handrit íeinum hellinum sem Evrópubúar plötuðu út úr Kínverjum (keyptu þau fyrir slikk) og eru þau núna geymd í London og Frakklandi og standa Kínverjar í samningaviðræðum um að fá þau aftur. Í þeim er að finna sögu Kínverja, listasögu, tónlistarsögu, trúarsögu o.fl. frá þessum tímum. Þeir sem fóru silkiveginn gerðu hellana og líkneskin, bæði til að biðjast verndar á leiðinni og til að þakka fyrir verndina ef þeir komust heilir á húfi á leiðarenda. Þriðji stærsti Búdda í heimi er staðsettur þarna, hann er 35 m á hæð og er hann í húsinu á myndinni hér til hægri.
Seinna um daginn ókum við að sandhæðunum og tunglvatninu sem liggur hér í um 7 km fjarlægð rétt utan við bæinn og það var algjört ævintýri. Þarna var hægt að fá úlfalda til að flytja sig upp á sandöldurnar (sem við ekki gerðum). Við Oddur tókum okkur til að gengum nærri alla leið upp á eina þeirra til að taka myndir (aldan fyrir ofan húsið á myndinni).


Á leiðinni heim stoppuðum við hjá bómullarakri og skoðuðum bómullarjurtina og hvernig bómullin vex á henni, á myndinni sjáið þið hvernig annar hnoðrinn er rétt að springa út en hinn er kominn styttra. Bómullin þroskast smátt og smátt frá því í byrjun september og fram í október og þarf stöðugt að vera að týna til að ná sem bestu hráefni. Við komum við í silkiverksmiðju og þar fengum við fyrirlestur um teppagerð og sáum eina konu vera að vefa teppi - smábleðil (24x24 cm) sem hún er tíu daga að vefa og eru 300 hnútar í hverri umferð. Teppin voru rosalega falleg þarna og við Oddur stóðumst ekki mátið og skelltum okkur á eitt, með munstri af lótusblóminu. (sjá mynd).
Eftir matinn fórum við á akróbatik sýningu með frábærum listamönnum. Þannig að þetta var hinn ævintýralegasti dagur. Dagurinn endaði reyndar með því að Oddur afrekaði það að fá í magann og er lasinn núna en vonandi verður það frá á morgun.

þriðjudagur, september 23, 2008

Skólaheimsókn og vatnsmyllugarður

Á morgun er síðasti dagurinn hér í Lanzhou en þá lýkur vinnufundinum og við fljúgum síðdegis til Dunhuang og skoðum jökul og hella og eitthvað fleira. Í dag fórum við í skoðunarferð eftir hádegi um Lanzhou og kíktum á garða með vatnsmyllum og gosbrunnum, brýr og fjall með musterum og stúpum (hindú). Þetta var allt saman afar fallegt og ætla ég að láta myndirnar tala sínu máli.


Gula áin er hrikaleg, hún var svo sannarlega gul enda Góbí-eyðimörkin hér í næsta nágrenni og ég set hér mynd af henni þar sem sýnir útsýnið ofan úr fjallinu sem við klifruðum upp á og þar sjáum við einnig járnbrúna yfir ána sem aðeins er fyrir gangandi vegfarendur og hjól (hönnunargalli - brúin ber ekki bíla). Það er mikill straumur hérna í ánni enda er Lanzhou í 1500 m hæð yfir sjó.
Ég fór í skólaheimsókn í morgun – menntaskóla sem er hér rétt hjá með honum Guo Zhibong (sem þýðir ljón á kínversku og hann var túlkurinn minn) Við hittum skólastjórann sem beið eftir okkur á hlaðinu og en hann talaði enga ensku en kennir eðlisfræði og efnafræði í skólanum ásamt því að vera skólastjóri. Í skólanum eru 1800 nemendur og 80 kennarar. Skýringin á svona fáum kennurum er sennilega sú að fjöldi í bekkjum er yfirleitt um 80 nemendur (sjá mynd). Ég fékk að horfa á enskukennslu í 1. bekk (16 ára nemendur) og þar var kennarinn með hljóðnema í hendinni og skjávarpa þar sem hann varpaði blaði úr kennslubókinni á vegginn og fór yfir með nemendum það sem átti að standa á blaðinu sem var eyðufyllingarverkefni þannig að nemendur fylltu svona 10 ensk orð á hvert blað með aðstoð kennarans. En allir voru að vinna og engin vandamál sjáanleg varðandi aga eða framkomu. Enskukennarinn lætur nemendur sína ekki nota tölvur í náminu.
Í skólanum voru 150 tölvur og þar af 64 í einu tölvuveri hinar voru í stofunum. Tölvukennari tekur við nemendum einu sinni í viku í 45 mín í tölvuverið og kennir þeim eitthvað varðandi tölvufærni. Takið eftir einn kennari og 64 nemendur, Kínverjar eru snillingar.

Þá er það maturinn enn einu sinni - við vorum í 90 ára afmæli eins ráðstefnugestsins (Kínverja) í gærkvöldi og fengum aftur svona á annan tug rétta. Maturinn er mjög fallega borinn fram og mikið lagt upp úr litum og skrauti. Þið ættuð að sjá gulræturnar, melónurnar og eplin. Ég læt hér fylgja með eina mynd af matarborðinu af þeim réttum sem fyrst voru bornir fram en það var stöðugt verið að skipta út réttunum allt kvöldið eftir því sem þeir kláruðust. Glerplatan snýst og allir fá sér af diskunum með prjónum. Þetta var flott hjá þeim. Okkur er sagt að þetta séu ekta kínverskir réttir sem voru á borðum svona eins og svið og hangikjöt hjá okkur.
Læt þetta nægja að þessu sinni.
Bestu kveðjur frá Kollu og Oddi

sunnudagur, september 21, 2008

Grjón í koddanum


Hæ hæ - við erum loksins komin til Kína (að hugsa sér) og allt gekk vel, allt skilaði sér. Við töpuðum 8 tímum á leiðinni og vorum á hótelinu um kvöldmat á laugardag. Það var mjög heitt þegar við komum (sennilega um 30° C) rakt og mikið mistur og gott að komast á áfangastað. Það var móttökunefnd á flugvellinum að taka á móti okkur (þeir voru eiginlega að taka á móti Magnúsi sem sá um skipulagningu vinnufundarins og við flutum með) eða þrír kínverjar sem snerust í kringum okkur til að taka töskurnar og koma þeim og okkur í bíl sem ók með okkur á 150 km hraða í ca. klukkustund inn til Lanzhou. Ég þorði ekki að horfa á hraðamælinn en Oddur sagði mér það á eftir hversu hratt hann hefði ekið. Lanzhou er nokkurra milljóna manna borg, ég held um þriggja milljóna og staðsett í sveitahéraði í norðvesstur Kína og er ekkert mjög nýtískuleg. Það er samt greinilega mikil uppbygging hér því við sjáum marga krana við hálfbyggð háhýsi svona eins og heima svo einhver uppgangur er hjá þeim.
Landslagið (sjá mynd) eru endalausar sandhæðir enda Góbi-eyðimörkin ekki langt undan og dregur landslagið útlit sitt nokkuð af því og það er mjög þurrt hérna og kirkingslegur gróðurinn nema þar sem er vökvað.
Við uppgötvuðum þegar við fórum að sofa í gærkvöldi að það voru (hrís-)grjón í koddunum okkar og engar springdýnur í rúminu, heldur eitthvað frekar hart og lítt eftirgefanlegt til að liggja á. Grjónakoddinn var ekkert sérstaklega þægilegur og beddinn frekar harður en líðanin er nú samt ágæt eftir að hafa sofið um nóttina.
Maturinn hér er afar nýstárlegur en ég held að við höfum ekki borðað hund ennþá. Við vorum að koma af svokölluðum "banquet" rétt í þessu og ég missti töluna af réttunum þegar ég var komin upp í 20 og komu þó nokkuð margir réttir eftir það. Á morgun er okkur boðið í 90 ára afmæli kínversks jarðfræðings og sennilega fæ ég líka að heimsækja einhvern skóla.
En er lokið kveðju frá Oddi og Kollu í Kína

mánudagur, september 15, 2008

Ferð til Kína framundan

Jæja það er langt síðan ég skrifaði hér síðast en nú er mál þar sem ferð til Kína er framundan svo ég dustaði rykið af lykilorðinu til að rifja upp fyrirkomulagið. Nú er sagt að það sé ekki hægt að komast á netið þarna í Kína en við látum reyna á það. Á áætlun er að fljúga til Lanzhou í mið Kína með viðkomu í Kaupmannahöfn og Peking. Ferðalagið mun taka um tvo sólarhringa þar sem við töpum 8 tímum á ferðalaginu. Þar er meiningin að dvelja í 4 daga þar sem Oddur er á ráðstefnu um jöklaskrá heimsins. En eftir það förum upp á jökul (sem er kallaður 12 - skrýtið nafn a tarna) og er sá jökull frábrugðinn okkar jöklum að hann er gaddjökull en okkar jöklar eru þýðjöklar svo það verður spennandi að sjá mismuninn á þessu fyrirbæri sem er að hverfa af jarðskorpunni. Eftir það fljúgum við til Xian og skoðum leirhermennina sem fundust við gröf keisarans Ch'in Shih Huang Ti sem hóf að byggja Kínamúrinn fyrir 2200 árum, en innan við mílu frá gröf hans fundust hermennirnir fyrst 1974 fyrir tilviljun og laða þeir marga ferðamenn að, en mér heyrist að allir sem heimsækja Kína fljúgi þangað og skoði þessar minjar núna. Keisarinn var jarðaður í jarðvegshól sem var 15 hæða hár og er kallaður Li fjallið.
Síðan er ferðinni haldið aftur til Peking þar sem fararstjóri og bíll með bílstjóra tekur á móti okkur og leiðir okkur um helstu ferðamannastaði í borginni.
Freyju dóttur minni finnst við vera heldur varfærin í okkar ferðalagi og að við þorum ekki að taka neina áhættu með því að reyna að bjarga okkur sjálf. En tíminn er stuttur og við viljum sjá mikið svo við ákváðum að hafa þetta svona.
Jæja ekki meira að sinni. Vonandi get ég bloggað í Kína eins og í Chile forðum og leyft ykkur að fylgjast með.