þriðjudagur, september 23, 2008

Skólaheimsókn og vatnsmyllugarður

Á morgun er síðasti dagurinn hér í Lanzhou en þá lýkur vinnufundinum og við fljúgum síðdegis til Dunhuang og skoðum jökul og hella og eitthvað fleira. Í dag fórum við í skoðunarferð eftir hádegi um Lanzhou og kíktum á garða með vatnsmyllum og gosbrunnum, brýr og fjall með musterum og stúpum (hindú). Þetta var allt saman afar fallegt og ætla ég að láta myndirnar tala sínu máli.


Gula áin er hrikaleg, hún var svo sannarlega gul enda Góbí-eyðimörkin hér í næsta nágrenni og ég set hér mynd af henni þar sem sýnir útsýnið ofan úr fjallinu sem við klifruðum upp á og þar sjáum við einnig járnbrúna yfir ána sem aðeins er fyrir gangandi vegfarendur og hjól (hönnunargalli - brúin ber ekki bíla). Það er mikill straumur hérna í ánni enda er Lanzhou í 1500 m hæð yfir sjó.
Ég fór í skólaheimsókn í morgun – menntaskóla sem er hér rétt hjá með honum Guo Zhibong (sem þýðir ljón á kínversku og hann var túlkurinn minn) Við hittum skólastjórann sem beið eftir okkur á hlaðinu og en hann talaði enga ensku en kennir eðlisfræði og efnafræði í skólanum ásamt því að vera skólastjóri. Í skólanum eru 1800 nemendur og 80 kennarar. Skýringin á svona fáum kennurum er sennilega sú að fjöldi í bekkjum er yfirleitt um 80 nemendur (sjá mynd). Ég fékk að horfa á enskukennslu í 1. bekk (16 ára nemendur) og þar var kennarinn með hljóðnema í hendinni og skjávarpa þar sem hann varpaði blaði úr kennslubókinni á vegginn og fór yfir með nemendum það sem átti að standa á blaðinu sem var eyðufyllingarverkefni þannig að nemendur fylltu svona 10 ensk orð á hvert blað með aðstoð kennarans. En allir voru að vinna og engin vandamál sjáanleg varðandi aga eða framkomu. Enskukennarinn lætur nemendur sína ekki nota tölvur í náminu.
Í skólanum voru 150 tölvur og þar af 64 í einu tölvuveri hinar voru í stofunum. Tölvukennari tekur við nemendum einu sinni í viku í 45 mín í tölvuverið og kennir þeim eitthvað varðandi tölvufærni. Takið eftir einn kennari og 64 nemendur, Kínverjar eru snillingar.

Þá er það maturinn enn einu sinni - við vorum í 90 ára afmæli eins ráðstefnugestsins (Kínverja) í gærkvöldi og fengum aftur svona á annan tug rétta. Maturinn er mjög fallega borinn fram og mikið lagt upp úr litum og skrauti. Þið ættuð að sjá gulræturnar, melónurnar og eplin. Ég læt hér fylgja með eina mynd af matarborðinu af þeim réttum sem fyrst voru bornir fram en það var stöðugt verið að skipta út réttunum allt kvöldið eftir því sem þeir kláruðust. Glerplatan snýst og allir fá sér af diskunum með prjónum. Þetta var flott hjá þeim. Okkur er sagt að þetta séu ekta kínverskir réttir sem voru á borðum svona eins og svið og hangikjöt hjá okkur.
Læt þetta nægja að þessu sinni.
Bestu kveðjur frá Kollu og Oddi

2 Comments:

At 24/9/08 7:00 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ætli þau séu ekki bara þakklát fyrir að fá að fara í skóla... kínverjar eru svo þægir!

 
At 30/9/08 9:18 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Við Palomínokonur getum etv lært af matargerðarkunstum Kínverjanna.
KVeðja úr Breiðholtsskóla, sérstaklega frá Helgu og Sigurlín.
Hildur

 

Skrifa ummæli

<< Home