föstudagur, desember 28, 2007

Sex vatnaleiðin - hugguleg dagsferð

Úr dagbókinni 27. desember – Chile




Við fórum sex vatnaleiðina í dag og var það rúmlega 100 km akstur. Landslagið hér er afar fallegt og breytilegt, allt frá því að vera fjöllum sett og skógivaxið og í að vera smáhæðir, þurrt og með kyrkingslegum gróðri. Vötnin settu óneitanlega svip á landslagið og var víða afar fallegt yfir að líta. Við fórum mörgum sinnum út úr bílnum og dunduðum okkur við að skoða dýralífið og jurtalífið og alltaf sáum eitthvað nýtt og spennandi. Við sáum fullt af fallegum fuglum og ljótum líka en kalkúnar er nú ekki fallegir fuglar. Oddur var voðalega hrifinn af drekaflugunum en þær vildu nú ekki sitja fyrir hjá honum. Við sáum lamadýr, leifar af beltisdýri, héra sem skoppaði í skóginum við veginn og mörg falleg hænsni brún, svört og marglit svona eins og íslensku hænsnin og voru þau á vappi fyrir utan bóndabæina. Við fengum okkur líka einn góðan göngutúr og gáfum flugunum með grænu augun langt nef og hristum þær af okkur eins og við gátum en hvimleiðar voru þær með afbrigðum. Göngutúrinn var ekki farinn á eyðilegum stað eins og í gær því enn sitja hræðslugenin í mér (ekki Oddi hann ber sig vel) og ég hef engan áhuga á að sjá pumu aftur. En ég ætla að setja hér inn mynd af henni sem ég tók af auglýsingaskilti í náttúrugarðinum sem við fórum í um daginn, því þegar ég tók mynd af dýrinu í gær var það horfið af vettvangi.


Jæja nú skilum við bílnum á morgun og leggjum í hann til Santiago á laugardag og þaðan til New York á sunnudagskvöld. Þetta er búið að vera ótrúlega fljótt að líða og það er eins og maður þurfi að aðlagast staðnum dálítinn tíma áður en maður er búinn að átta sig á kringumstæðum og umhverfinu og byrja að njóta hans.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home