þriðjudagur, desember 25, 2007

Jólin í Chile

24. desember - Coyhaique
Fórum í ferðaskrifstofuna til að kanna endurgreiðslu á siglingunni, síðan fórum við á skrifstofu flugfélagsins og færðum ferðina til Santiago fyrr um morguninn þann 29. des, þannig að við verðum komin þangað um 3 leytið í stað 7 eins og áður var ákveðið. Þá höfum við smátíma til að skoða borgina eitthvað frekar eins og við ætluðum að gera á leiðinni hingað. Eftir það fórum við í 7 tíma göngu upp á tæplega 1400 m hátt fjall hér í næsta nágrenni. En það var búið að benda okkur á það og að það væru stígar upp á það. En það er næsta ómögulegt að ganga upp á fjöll hérna nema eftir stígum því skógurinn er svo þéttur. Við klifum 1000 upp í mjög góðu veðri, næstum of góðu enda vorum við þyrst þegar heim kom þótt við hefðum verið með drykki með okkur. Reyndar fengum við okkur að drekka úr einum læknum upp í fjalli og var það mjög gott vatn næstum eins og heima en vatnið hérna er hreint og hægt að drekka það beint úr krananum. Það vekur furðu okkar var hve fátækleg fánan er því fyrir utan þessar freku leiðinlegu flugur sem sífellt voru að stinga okkur sáum við varla nokkur dýr. Örfá lamadýr voru í girðingu neðst í fjallinu, greinilega húsdýr. Við sáum undir iljarnar á einum héra sem forðaði sér með miklu írafári úr vegi okkar. Þá lölluðu sárafáir maurar á stígnum. Eina stóra hugnangsflugu sáum við sem vildi ekki láta taka mynd af sér. Einnig sáum við loðin tré. Smelltu á myndina til að sjá það stærra.
Svona lítur það út í nálægð.

Þegar heim kom skelltum við okkur í samband við krakkana okkar á Skypinu til að segja gleðileg jól (við söknum þeirra mikið)og fórum síðan út að borða aftur á þennan kínverska sem við fengum rauða matinn um daginn, en hann var ekki rauður í gær, bara eðlilegur he he he og ágætur.

Við verðum ekki mikið vör við jólahátíðina hjá heimamönnum nema að veitingahús lokuðu mörg hver frekar snemma á aðfangadag og bakaríið var ekki opið á jóladagsmorgun svo við skelltum okkur í morgunmat á hótelinu. Það virtist ekki koma háheilagaður tími þegar klukkan varð sex eins og hjá okkur, því við sáum fólk fara út að borða og vera að kaupa inn, margar búðir opnar og almenn rósemi yfir öllu. Á þorláksmessu var samt eitthvert uppistand á aðalgötunni í bænum. Fólk hrópaði og barði trumbur og var með mikinn hávaða og þetta virtust vera nokkrir smáhópar sem söfnuðust saman á aðaltorginu aðallega ungir karlar og krakkar. Síðan óku bílar um bæinn þar sem ökumenn lágu á flautunum þannig að það var varla vært fyrir hávaða. Hér sér maður ekki pinklum hlaðið fólk að kaupa inn fyrir jólin enda ekki mikið um búðir. Jólalög heyrast stöku sinnum á veitingastöðunum. Jólaskreytingar eru víða hangandi utan á húsum og í gluggum. Jólatréð á aðalgöngugötunni er orðið heldur dapurt, brúnt og visið í sólinni og hitanum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home