laugardagur, desember 22, 2007

Töskur og sigling

21. desember


Smelltu á myndina til að sjá hana stærri.
Við leigðum okkur bíl í dag og ókum út í sveit. Frábært landslag en sóðaskapur mannanna er frekar óþægilegur. Við ókum eftir þröngum dölum meðfram vatnsmiklum ám og skógivöxnum háum fjöllum. Litbrigði trjánna og mismunandi trjátegundir voru ótrúlega fjölbreytilegt. Sérstaklega áberandi eru aspartré sem eru frekar gannvaxin og mjög há og vaxa í þyrpingum. Einnig eru bambustré nokkuð áberandi. Landbúnaður er aðalatvinnugreinin, kýr, kindur, endur, hænur og svín ásamt fjölda hunda er leikur lausum hala eru hér út um allt.

Þetta eru aspirnar sem eru svo áberandi alls staðar.

Við skelltum okkur í morgun inn á eina ferðaskrifstofuna og keyptum okkur siglingu til að skoða stóra norðurjökulinn og tekur hún heilan dag eða allan daginn á morgun. En við siglum suður með ströndinni frá litlum bæ sem kallast Chacabuco og er í um tveggja tíma akstursfjarlægð frá Coyhaique (80 km). Það er ekið mjög hægt hér eða á 50 til 60 km hraða sem er ágætt fyrir okkur því við vorum svo mikið að skoða landið. Þar er hótel sem við ákváðum að gista á í tvær nætur því siglingin tekur það langan tíma eða frá hálf átta um morguninn til hálf tíu um kvöldið þannig að við keyrðum núna síðdegis.
Töskurnar komu loks um fimm leytið og vorum við afar glöð að sjá þær en þetta er búið að vera hálfgerð útilega þegar það vantar alla þessa vanalegu hluti.

22. desember Chacabuco

Hér erum við Oddur í golunni (sem er alltaf) í náttúrugarðinum í dag.
Við vöknuðum kl. hálf sjö í morgun og drifum okkur í fötin því nú var ferðinni heitið suður á bóginn í siglinguna. En viti menn eitthvað var þetta nú í stíl við annað í ferðinni. Einn úr móttökunni í hótelinu kom til okkar þegar við komum fram og sagðist hafa leiðinlegar fréttir. Ferðin var felld niður vegna rafmagnsbilana í skipinu. Okkur var boðið í sárabætur í tveggja tíma gönguleiðsögn um einkanáttúrugarð eftir morgunverð og síðan í miðdegismat á eftir. Nú það var ekkert annað hægt en að þiggja það. Eftir matinn fórum við svo sjálf í smáferð og skoðuðum næsta nágrenni. Við leggjum nú ekki í að ganga hér á fjöll í umhverfi Chacabuco vegna þess hve fjöllin eru há og þétt vaxin skógi. Svo eru girðingar með fram öllum vegum með nautgripum og finnst okkur heldur óárennilegt að ganga innan um bolana og geltina. Skógurinn er svo þéttur að það er ógerningur að reyna að komast í gegnum hann nema eftir stígum og þeir eru ekki til. Landslagið hér er hrikalega fallegt og ekki er til orð til að lýsa fjölbreytileika gróðursins. Við höfum lítið séð af dýrum ennþá en samt nokkur skordýr og rosalega stórar hunangsflugur sem í raun eiga ekki að geta flogið vegna stærðarinnar en þær gera það samt. Spóarnir eru eins og gæsir að stærð, gráir og gulir á lit og lóan er á stærð við íslenskan spóa. Við sáum tvo fugla í göngunni um skóginn í morgun sem ekki geta flogið, skrýtnir flugar það og verða þeir að halda sig í skóginum til að verða ekki ránfuglum að bráð.
Við verðum hér á hótelinu aftur í nótt og meiningin er að ganga í þjóðgarði nokkrum sem er rétt við Coyhaique á morgun. Oddur er enn skaðbrenndur á enninu og höfðinu þrátt fyrir húfu og sólarvörn upp á 30 í dag.
Þetta er allt saman ævintýralegt og skemmtilegt og frábært að vera ekki með neina fyrirframákveðna áætlun en spila þetta bara af fingrum fram eftir því sem hugmyndirnar fæðast. Nú er í býgerð að fara í flugferð inn að jökli með tveimur Hollendingum og það er aldrei að vita nema að það takist næst þegar veður leyfir. En það kemur í ljós.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home