mánudagur, september 15, 2008

Ferð til Kína framundan

Jæja það er langt síðan ég skrifaði hér síðast en nú er mál þar sem ferð til Kína er framundan svo ég dustaði rykið af lykilorðinu til að rifja upp fyrirkomulagið. Nú er sagt að það sé ekki hægt að komast á netið þarna í Kína en við látum reyna á það. Á áætlun er að fljúga til Lanzhou í mið Kína með viðkomu í Kaupmannahöfn og Peking. Ferðalagið mun taka um tvo sólarhringa þar sem við töpum 8 tímum á ferðalaginu. Þar er meiningin að dvelja í 4 daga þar sem Oddur er á ráðstefnu um jöklaskrá heimsins. En eftir það förum upp á jökul (sem er kallaður 12 - skrýtið nafn a tarna) og er sá jökull frábrugðinn okkar jöklum að hann er gaddjökull en okkar jöklar eru þýðjöklar svo það verður spennandi að sjá mismuninn á þessu fyrirbæri sem er að hverfa af jarðskorpunni. Eftir það fljúgum við til Xian og skoðum leirhermennina sem fundust við gröf keisarans Ch'in Shih Huang Ti sem hóf að byggja Kínamúrinn fyrir 2200 árum, en innan við mílu frá gröf hans fundust hermennirnir fyrst 1974 fyrir tilviljun og laða þeir marga ferðamenn að, en mér heyrist að allir sem heimsækja Kína fljúgi þangað og skoði þessar minjar núna. Keisarinn var jarðaður í jarðvegshól sem var 15 hæða hár og er kallaður Li fjallið.
Síðan er ferðinni haldið aftur til Peking þar sem fararstjóri og bíll með bílstjóra tekur á móti okkur og leiðir okkur um helstu ferðamannastaði í borginni.
Freyju dóttur minni finnst við vera heldur varfærin í okkar ferðalagi og að við þorum ekki að taka neina áhættu með því að reyna að bjarga okkur sjálf. En tíminn er stuttur og við viljum sjá mikið svo við ákváðum að hafa þetta svona.
Jæja ekki meira að sinni. Vonandi get ég bloggað í Kína eins og í Chile forðum og leyft ykkur að fylgjast með.

1 Comments:

At 20/9/08 9:38 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Góða ferð bæði tvö...hlakka til að fylgjast með :-)

Bless. bless...
Eygló

 

Skrifa ummæli

<< Home