laugardagur, september 27, 2008

Með róna á bakinu

Jæja nú er ég loks komin í samband aftur en í DunHuang var ekkert netsamband við umheiminn og því lítið skráð á netið. En hér kemur smá úr dagbókinni minni síðustu daga.


Miðvikudagurinn 24. september 2008 – Lanzhou
Síðdegis fór ég með myndavélarnar mínar út til að taka myndir af mannlífinu á götunni. Fyrst sá ég gamlan mann sem sat á litlum kolli og las bók undir tré og tók myndband af honum og fann þá að andað var yfir öxlina á mér og sá heldur ritjulegan mann vera að athuga af hverju ég væri að taka mynd svo ég forðaði mér og hélt áfram út á næsta götuhorn þar sem mannlífið var heldur fjörugra. Fann ég þar hóp af hjólreiðamönnum sem voru að bíða eftir græna ljósinu og mundaði ég nú vélina aftur og viti menn aftur var andað á bakið á mér og annar slæpingi var kominn á öxlina til að athuga hvað ég væri að gera. Þeir eru óþægilega forvitnir þessir gæjar þarna. Ég sá að þetta var nú ekki alveg það sem mér líkaði svo ég fékk mér göngutúr með myndavélina í töskunni. Ég áttaði mig líka á því að ég var eina evrópska konan á götunni og vakti athygli bæði barna og fullorðinna. Þetta minnti mig á þegar ég sá svertingja í fyrsta sinn á götu á Íslandi að ég gat ekki annað en horft pínu mikið á hann og hefur hann sennilega haft sömu tilfinningu og ég þarna á göngu minni. Það er munur að geta baðað sig í sviðsljósinu. Göngutúrinn varð frekar stuttur og ekki voru fleiri myndir teknar í bili af götulífi í Lanzhou í Kína.
Um kvöldið flugum við svo til DunHuang sem tók tæpa tvo tíma með þotu og þar tók á móti okkur leiðsögumaður frá staðnum hann Larrý en við vorum líka með leiðsögumann frá Lanzhou með okkur þannig að nú eru þeir orðnir tveir. Við vorum nú komin í enn meiri sveitabæ en áður en þarna búa um 130 þús. manns nánast úti í eyðimörkinni. Hér fær maður ekki einu sinni hníf og gaffal til að borða með sem fékkst þó á hinum staðnum, aðeins prjóna. Hafið þið einhvern tímann reynt að borða hrísgrjón með prjónum? Þetta er að koma hjá mér en ég er lengi að dunda mér með matarprjónana.

Fimmtudagurinn 25. september 2008 – Dun Huang
Nú vorum við sko komin í stífa dagskrá. Vakna kl. 7 um morguninn og af stað í rútunni kl. 8. Ferðinni að þessu sinni var heitið að jökli nr. 12 (sjá mynd) – en Kínverjar nefna jöklana sína með númerum eftir því hvað þeir eru merkilegir (þessi var greinilega ekkert voðalega merkilegur). Ferðin upp í fjöllin tók 4 tíma (aðra leið) og það var einu sinni pissustopp á leiðinni þar sem ég fékk að fara á bak við steinahrúgu í eyðimörkinni, en leiðsögumaðurinn sagði að hún væri miklu betri en WC í húsi (þau eru hola og enginn klósettpappír). Við jökuljaðarinn var nestið tekið upp (sem leiðsögumaðurinn sá um) en það samanstóð af pylsu, spaghetti, eggi , niðursoðnu salati og brauðbollu (sjá mynd). Svo fengum við sætt kaffi á eftir, það fannst Oddi gott. Þarna vorum við komin í 4300 m hæð yfir sjó þannig að við urðum að hreyfa sig hægt og rólega til að fá ekki háfjallaveiki. Samt varð einn fljótlega veikur eftir að við komum upp eftir og urðum við því að flýta för okkur niður aftur til að forða honum frá frekari veikindum, það er víst ekkert annað ráð við háfjallaveiki en að fara niður aftur.
Það er afar sérstakt landslag hérna, hálfgerð eyðimörk (rignir aðeins 40 til 50 mm árlega) með vinjum á nokkrum stöðum þar sem landsbúar rækta með áveitu helst maís, bómull, melónur og silki. Alls staðar var fólk á ökrum að tína bómullina af plöntunum bæði þegar við fórum upp eftir og einnig þegar við komum heim 7 til 8 tímum síðar. Þá stóðu pokarnir fullir hér og þar um akrana eftir afrakstur dagsins.
Bæði Lanzhou og Dun Huang eru borgir á Silkileiðinni fornu en á þessum slóðum er mikil silkirækt.


Föstudagurinn 26. september 2008 – DunHuang
Í dag fórum við að skoða hella sem gerðir voru frá því fyrir 327 e.Kr. Í þeim eru mörg búddalíkneski og flottar myndskreytingar á veggjum frá keisaratímabilunum (sem voru 14) og er þetta ótrúlega vel varðveitt. Þarna eru tæplega 500 hellar sem fundust fyrir tilviljun aftur í upphafi 20. aldar en höfðu verið týndir í aldir. Einnig fundust handrit íeinum hellinum sem Evrópubúar plötuðu út úr Kínverjum (keyptu þau fyrir slikk) og eru þau núna geymd í London og Frakklandi og standa Kínverjar í samningaviðræðum um að fá þau aftur. Í þeim er að finna sögu Kínverja, listasögu, tónlistarsögu, trúarsögu o.fl. frá þessum tímum. Þeir sem fóru silkiveginn gerðu hellana og líkneskin, bæði til að biðjast verndar á leiðinni og til að þakka fyrir verndina ef þeir komust heilir á húfi á leiðarenda. Þriðji stærsti Búdda í heimi er staðsettur þarna, hann er 35 m á hæð og er hann í húsinu á myndinni hér til hægri.
Seinna um daginn ókum við að sandhæðunum og tunglvatninu sem liggur hér í um 7 km fjarlægð rétt utan við bæinn og það var algjört ævintýri. Þarna var hægt að fá úlfalda til að flytja sig upp á sandöldurnar (sem við ekki gerðum). Við Oddur tókum okkur til að gengum nærri alla leið upp á eina þeirra til að taka myndir (aldan fyrir ofan húsið á myndinni).


Á leiðinni heim stoppuðum við hjá bómullarakri og skoðuðum bómullarjurtina og hvernig bómullin vex á henni, á myndinni sjáið þið hvernig annar hnoðrinn er rétt að springa út en hinn er kominn styttra. Bómullin þroskast smátt og smátt frá því í byrjun september og fram í október og þarf stöðugt að vera að týna til að ná sem bestu hráefni. Við komum við í silkiverksmiðju og þar fengum við fyrirlestur um teppagerð og sáum eina konu vera að vefa teppi - smábleðil (24x24 cm) sem hún er tíu daga að vefa og eru 300 hnútar í hverri umferð. Teppin voru rosalega falleg þarna og við Oddur stóðumst ekki mátið og skelltum okkur á eitt, með munstri af lótusblóminu. (sjá mynd).
Eftir matinn fórum við á akróbatik sýningu með frábærum listamönnum. Þannig að þetta var hinn ævintýralegasti dagur. Dagurinn endaði reyndar með því að Oddur afrekaði það að fá í magann og er lasinn núna en vonandi verður það frá á morgun.

4 Comments:

At 27/9/08 9:46 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Haha, skemmtilegt blogg! Kínverjarnir eru alveg sér á báti þarna úti í sveit.
Þetta er alvöru eyðimörk, ég þarf að kíkja á eina svona bráðlega.

 
At 29/9/08 10:00 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Gaman að lesa ferðasöguna =)
Er samt farin að hlakka til að fá ykkur heim. Þó ég sé ekki heima þá finnur maður samt fyrir nálægðinni sko =)

Jórunn

 
At 29/9/08 3:56 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Aldeilis ævintýri hjá ykkur. Takk fyrir ítarlega ferðasögu. Okkur hlakkar til að sjá ykkur fljótlega, en góða skemmtun þangað til.
Kv.
fo

 
At 30/9/08 9:20 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Flott teppi,
Gaman að lesa dagbókina.
Hildur

 

Skrifa ummæli

<< Home