mánudagur, október 24, 2005

Samstaða kvenna

Jæja nú toppuðum við aftur eins og fyrir 30 árum. Við erum frábærar við konur. Alltaf komum við á óvart. Það er nú engin smásamstaða að 50 þús konur (og karlar) komi saman til að styðja ákveðið málefni "jafnrétti kynjanna". Ég er stolt af konunum og þetta er allt að koma vona ég. Launaleyndina burt núna það er mikilvægt og fleiri konur í stjórnunarstöður - a.m.k. 50% og þá koma öðruvísi stjórnunarhættir fram í dagsljósið, þótt ekki sé hallað á karlmenn í þessum málum. Það sýndi sig í dag að við gerum þetta allt saman í rólegheitunum og með friði og spekt enda hafði lögreglan ekkert að gera nema að stugga við of mörgum bílum.
Ég ætla nú ekki að fjalla meira um þetta, því nóg er komið í dag af þessum málaflokki. En ég er ósköp glöð með afrakstur dagsins.

Sláturgerð

Jæja þá er helgin liðin og sláturgerðin frá. Maður verður að vera þjóðlegur og halda uppi þjóðlegum hefðum eins og að nýta þessa frábæru afurð sem sauðkindin gefur okkur. Já sem sagt ég tók 5 slátur og fullt af aukalifrum og aukavömbum. Vamirnar voru saumaðar á hefðbundinn hátt þ.e.a.s. með nál og bómullargarni. Nú erum við alsæl með fulla kistu af lifrarpylsu- og blóðmörskeppum. Svo var auðvitað sett smá í súr svona til að hafa líka með grjónagrautnum á laugardögum í vetur.
Þetta tók allan laugardaginn svo ekki var mikið gert meira þann daginn, nema reyndar við hjónum fórum í kaffiboð um kvöldið og áttum góða stund með vinum sem við hittum öðru hverjum og spjöllum um það sem efst er á baugi hverju sinni.

Sunnudagurinn leið svo fljótt og vel, ég fór seint á fætur, spjallaði við heimafólkið og fékk mér svo göngu um hverfið í ágætis veðri. Sat svo við tölvuna og gluggaði í hinar og þessar síður á netinu og skrifaði fundargerð sem ég átti eftir að gera. Um kvöldið fengum við svo spilafélaga í heimsókn og tókum nokkra punkta af þeim og sýndum þeim svo vídeómynd frá sumargöngutúrnum sem ég var nýbúin að klippa.

þriðjudagur, október 18, 2005

Hvaða myndir sá ég?

Jú ég gleymdi að tíunda myndirnar í dag sem ég fór á en þær voru Clean eða Hrein eftir Olivier Assayas sem er frönsk/bresk/canadisk mynd og fjallar um eiturlyf, einstæða móður og tilraunir til að fá son sinn 6 ára aftur í sína umsjá. Nokkuð góð.
Svo var það teiknimyndin Töfrakastali Howls sem er japönsk mynd eftir leikstjórann Hayao Miyazaki. Það tók fjögur ár að vinna myndina og var hún mjög góð en ekki við hæfi ungra áhorfenda. Ég fór nefninlega með 4 ára sonarson minn á hana og það þurfti að fara út með hann undir lokin því hávaðinn var svo mikill og lætin að allt ætlaði um koll að keyra. Rosalega vel gerð og flott mynd.

Something like happiness sá ég líka en það er tékknesk/þýsk mynd eftir Bohdan Sláma og gerist í nágrenni efnaverksmiðju. Hún fjallar einnig um eiturlyf og geðveiki. En myndin var mjög góð og lýsti lífi nokkurra einstaklinga á mjög sannfærandi hátt.

Kvikmyndahátíð


Um daginn var alþjóðlega kvikmyndavika og ég fór í bíó fjórum sinnum (sem er meira en ég fer venjulega á einu ári) og sá jafnmargar myndir, allar mjög góðar. Þessar myndir sem ég sá sýna allar raunverulegt umhverfi fólks ekki neitt sýndarumhverfi og þær höfða alla vega til mín vegna þess.
Nú eiga strákarnir að segja frá einhverjum kvikmyndum sem þeir hafa séð og það verður gaman að lesa það hér á "comments" á eftir hvað þeir hafa að segja um það.

fimmtudagur, október 06, 2005

Bloggstrákarnir mínir

Halló kæra bloggsíða
Ég var að lesa bloggið hjá strákunum mínum. Þið sjáið krækjurnar á þá hérna við hliðina á blogginu mínu. Þeir eru nú misánægðir með þetta fyrirkomulag að þurfa að setja svona eitthvað af því sem á dagana hefur drifið í vikunni á bloggið sitt. Ég svo sem skil það vel og það þarf að yfirstíga vissa feimni til að setja eitthvað sem manni er huglægt fram fyrir almenning. En margt af þessu sem þeir skrifa er bæði frumlegt og skemmtilegt að lesa. Skoðiði bara.
Af mér er það að segja að lífið gengur sinn vanagang, vinna, sofa og borða. Framundan er málþing hjá KHÍ sem ég ætla að fara og hlusta á og svo fer ég í afmæli á laugardaginn til hans Finns (elsti sonur minn). Læt heyra frá mér von bráðar.
:-)