fimmtudagur, september 10, 2015

Hjólað frá Yelverton til St Neot (Lampen Farm)

Þetta var puðdagur þótt ekki væru farnir nema tæplega 50 km. Við vorum stöðugt að fara upp og niður brekkur svo annað hvort lá maður á bremsunum eða puðaði í 1. gír upp talsvert langar og brattar brekkur. Veðrið lék við okkur fjórða daginn í röð og var hvað best í dag, svolítil gola sem virkaði sem meðvindur því við vorum að fara í rétta átt :-)
Ýmist var hjólað á litlum götum í þorpum eða þröngum sveitavegum (einbíla) þar sem útskot voru til að mætast og trén bjuggu til skógargöng yfir veginn. Það er ótrúlega gefandi að kynnast landinu með því að hjóla. Maður heyrir hljóð, lykt og fer vegi sem maður mundi aldrei fara á bíl. Einnig er svo auðvelt að stoppa hvar sem er þegar það dettur í mann. Google gefur frábærar tillögur að ferðaáætlun og manni er vísað á vegi sem auðveldlega er hægt að komast hjá því að sjá ef maður horfir bara á landakort. Freyja er frábær leiðsögumaður með Google maps í símanum á stýrinu og vísar okkur veginn. Við fórum alls kyns krókaleiðir í dag eftir sveitavegum í Devon, en nú erum við komin yfir til Cornwall og gistum í litlu B&B hóteli í St Neot hjá konu sem leigir bara fjórum í einu. Þetta er gamalt útihús sem búið  er að breyta í íbúðarhús (minnir á Peter í Crabton) og leigir út nokkur herbergi. Það fer mjög vel um okkur hér og við erum enn mjög hress og kát og svolítið þreytt eftir erfiði dagsins.
En hér eru nokkrar myndir frá deginum.

Þær eru fallegar heiðarnar í Devon

Allt tekur sig vel út í góða veðrinu

Harrabeer hótelið í Yelverton

Hjólabrúin milli Yelverton og Tavisstock

Það þurfti líka að fara í gegnum  dimm jarðgöng.

Þessi brekka var nokkuð löng og erfið

En það tókst að komast upp

Á brúnni við Tamar ána, rétt ókomin inn í Corwall

Heillandi heiðarland...

Við tylltum okkur upp á einn vegginn og fengum okkur nesti, en við þurftum að kaupa okkur nesti þar sem engar krár voru á leiðinni sem  við fórum í dag.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home