miðvikudagur, september 09, 2015

The Garden House í Crapstone

Dagur er að kveldi kominn og við komin aftur inn á hótel eftir frábæran dag. Sólin skein í heiði og lopapeysur og úlpur ekkert notaðar. Við tókum daginn í að hjóla um slóðir sem Oddur var á þegar hann var hjá Fortescue í garðvinnu og foreldrum Peters Barons við sveitastörf sumarið 1962, 17 ára gamall. Peter er búinn að selja húsið á landareigninni og innrétta hlöðuna fyrir þau tvö en dæturnar þrjár eru fluttar að heiman. Húsin á landareigninni eru friðlýst og það er mikið mál að fá að breyta og endurnýja hús sem eru friðuð í Englandi. Það tók hann 5 ár að fá samþykkt það sem hann vildi gera við hlöðuna og allt spariféð hans er uppurið við þær breytingar, en árangurinn er flottur. Breytingarnar tóku aðeins ár í framkvæmd og hann er enn að, því hlaðan er stór og hann er að innrétta tvær litlar íbúðir sem hann ætlar hugsanlega að leiga út seinna. Hann er hættur búskap og leigir túnin og keypti sér húsbíl og hefur ferðast víða á honum síðan hann eignaðist hann.

Hlaðan hans Peters sem hann býr í núna

Peter, Freyja og Oddur fyrir utan hlöðuna nýuppgerðu.

Inni í hlöðunni á efri hæðinni


Gengið út á stóra verönd, takið eftir rennihurðinni sem hann rennir fyrir þegar hann fer í burtu.

Þetta er dráttarvélin sem var notuð þegar Oddur var hjá þeim 1962

Eftir heimsókn til Peters fórum við í Garden House þar sem Fortescue byrjaði með garðrækt en hann dó 1981 89 ára gamall og hafði hann áður gefið garðinn til sjálfseignarfélags. Nú er þetta hinn laglegasti skrúðgarður mjög þekktur hér í Englandi. Við dvöldum í garðinum í 4 tíma og fengum okkur "Cream tea with scones" en það er te með skonsum og rúsínum og þykkum rjóma og sultu. Geitungarnir voru afar hrifnir af sultunni og það var varla að Oddur næði henni úr skálinni án þess að vera með einn slíkan á hnífnum. 
Oddur leitaði að hurð þar sem hann hafði skrifað nafnið sitt á þegar hann var hérna en hann fann það ekki svo hann spurðist fyrir um hana og fékk heldur betur leiðsögn um garðinn og við fundum hurðina þar sem nafnið hans var á. Á leiðinni heim komum við aðeins við í Buckland Abbey sem er sögusafn sem nær í um 800 ár aftur í tímann, en það var búið að loka svo við rölum um svæðið sem var mjög fallegt, flottir garðar og eldgömul friðuð hús. 

Oddur við hurðina sem hann skrifaði nafnið sitt á 1962.

Fengum okkur skonsur og te í Garden House

Geitungarnir voru hrifnir af sultunni sem var með skonsunum


Við hjóluðum  aðeins rúmlega 20 km í dag og fengum einnig að reyna okkur í brekkunum eins og undanfarna daga.  Þetta var svona hvíldardagur eftir góða hjólaskorpu undanfarna daga, annars líður okkur bara vel með þetta og allir eru hressir og kátir og ángæðir með það sem við höfum séð og upplifað hingað til.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home