föstudagur, apríl 03, 2015

Enn á vinnustofunni

Seinni dagurinn á vinnustofunni. Fyrirlestrar hófust um 9 leytið og við vorum mætt tímanlega til að hlusta á fyrirlestur um loftslagsbreytingar á heimskautasvæðunum sem David Carlson, veðurfræðingur og Bandaríkjamaður sem býr í Sviss hélt fyrir okkur. Það eru greinilega miklar breytingar á veðurkerfinu og hafa vísindamenn ekki öruggar skýringar á þeim. Hann sýndi okkur mjög skemmtilega hreyfimynd sem búin var til úr veðurgögnum frá 7 mánaða tímabili 1974 og var athyglisvert að sjá hvernig veðurkerfið hreyfðist og breyttist eftir tímabilum. Við fengum einnig fyrirlestur um hvað er að gerast á norðurheimskautsvæðinu. Þar eru siglingaleiðir að breytast sökum ísleysis og verið er að skipuleggja fjölda ferða langt fram í tímann. Einnig er verið að þjarka um hver eigi heimskautið og hafa jafnvel Rússar hótað að taka þóknun af þeim sem fara um svæðið.
Þá sögðu nokkrir frá því hvað þeir væru að vinna með nemendum sínum í skólunum og þar á meðal sögðu Anna og Ekaterina sem koma frá Siberíu frá sínum aðstæðum og umhverfi og sýndu myndband þar sem Ekaterina spilaði undir á sérkennilegt hljóðfæri.


Hljóðfærið sem Ekaterina spilaði á.


Seinni hluta dagsins fengum við að leika okkur eins og í gær og var Louise þar aðalmanneskjan eins og svo oft áður og sýndi og kenndi okkur fjölda leikja og spila sem gaman væri að prófa með nemendum heima. Allir voru þeir ætlaðir til að vinna með námsefni um heimskautin og náttúruna. Dagurinn endaði svo á að nemendur Waldorfskólans sem sáu um okkur á vinnustofunni, grilluðu handa okkur pylsur og héldu happdrætti en þeir eru að safna fé fyrir ferð til heimskautanna í sumar á vegum "Students on Ice". Hér væri tækifæri fyrir íslenska nemendur að taka þátt.
Þátttakendur á námskeiðinu voru skemmtilegir og glaðlegir og var mjög gaman að kynnast þessu fólki og deila með þeim skoðunum og vinnu. Að fara á svona atburð er á við vítamínsprautu, maður fer fullur af hugmyndum heim og ætlar að gera margt og mikið, svo er bara að vita hvað verður úr því þegar fram líða stundir. Kemur í ljós.

Waldorfskólinn - fullt af smáhúsum með göngustígum á milli þeirra. 


Nemendur að grilla pylsur ofan í mannskapinn.

Elena frá Alaska að kenna okkur að spila "fæðukeðju" spilið.



0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home