þriðjudagur, apríl 26, 2011

Ítalía - Róm

Hæ hæ

Jæja nú kemur lítið blogg frá Ítalíu. Við Oddur, Jórunn og Freyja sem kom og hitti okkur frá Nariobi í Kenya erum búin að rölta hreint um alla Rómaborg og skoða gamlar minjar frá tveimur síðustu öldum. Hefur þetta verið allfróðlegt og ágætt að rifja svona upp gömlu söguminningarnar frá því í skólanum. Ég var nú reynar aldrei neitt sérlega fyrir sögu og gremst nú yfir þessu áhugaleysi mínu þá. En við höfum verið heppin með veður og stóðum við á torginu fyrir fram páfann við Péturskirkjuna á páskadag í himnesku veðri og hlustuðum á hann þar sem hann las yfir okkur á latínu. Þar sem við stóðum og hlustuðum lítur Jórunn dóttir mín við og segir "Dóra" og það var Dóra sem var þarna í 4 daga að skoða Rómaborg eins og við og er hún vinkona Þóru vinkonu Jórunnar. Tilviljanirnar eru á hverju strái. Við hittum hana þrisvar af tilviljun þennan sama dag hvort sem þið trúið því eða ekki. Róm er ekki stór.


En nú er Jórunn farin heim að sinna mikilvægum erindum en við Freyja og Oddur héldum áfram ferð okkur í dag suður á bóginn eftir að hafa leigt bíl í Róm og ekið Jórunni út á flugvöll (án GPS-tækis) og skoðað Herkúlaneum - borgina sem grófst í eðju frá Vesúsíusi árið 79 eftir Krist. Það var mjög sérstakt að standa þarna í uppgrafinni borginni og ímynda sér hvernig þetta var. Vesúvíus sýndi ekki á sér toppinn í kvöld en við vonumst til að geta ekið upp á fjallið og skoðað gíginn á morgun. Þá ætlum við að skoða Pompeii líka en hún varð fyrir gjóskufalli sama ár og hin borgin. Þetta hefur allt saman gengið mjög vel og verið ánægjuleg og fróðleg ferð, en Oddur er að koma til Ítalíu í fyrsta sinn.


Þetta er í fyrsta sinn sem ég kemst í tölvu í ferðinni og myndavélin mín gafst upp í fyrradag svo það verða engar myndir núna. Blogga kannski meira seinna en við komum heim á laugardagskvöld.

laugardagur, apríl 16, 2011

Preili og Riga

Ekkert net = ekkert blogg.


Gistingin í sumarhúsinu bauð ekki upp á blogg í gær svo það verður tveggja daga blogg í dag, laugardag frá Riga, en þangað erum við nú komnar á leiðinni heim. Dagskráin í gær var þannig að við lögðum af stað með rútu og 27 krökkum og nokkrum kennurum þeirra til Preili sem er í Lettlandi og var það 4 tíma rútuferð með einu passaskoðunarstoppi og einu klósettstoppi. Sveitin í Lettlandi býður ekki upp á vegasjoppur, aðeins örfáar bensínstöðvar þar sem bensínverð er svipað og hjá okkur. Var þetta eins og að fara hálfa öld aftur í tímann miðað við Ísland. Við sáum eintóma akra og fátæklega bóndabæi með storkahreiðrum við nánast hvern bæ.






Í Preili búa 8000 íbúar og skólinn sem við heimsóttum var einu sinni stærsti skóli í Lettlandi með 1000 nemendur en nú eru þar aðeins um 500 nemendur og fer fækkandi. Fólk flytur í burtu og leitar sér að vinnu annars staðar í heiminum. Eins og alls staðar var mjög vel tekið á móti okkur og veisluborðið beið okkar eftir að nemendur í þjóðbúningum buðu okkur velkomin í anddyri skólans með flottu dansatriði. Nemendur voru á aldrinum 6 til 10 ára og voru afar flínk og fim í dansinum.


Elín tók að sér föndrið og ég sýni kynninguna hans Odds og tengdi hann við skólastofuna þar sem nemendur fengu tækifæri til að spyrja hann spjörunum úr. Gekk þetta allt saman upp að vanda og á eftir var heilmikil sýning í hátíðarsal sem nokkurs konar lokaatriði á verkefninu um Rainbow of the Folkelore. Fulltrúar landanna afhentu dúkkurnar sem hvert land fær til eignar. Lettnesku og litháensku nemendurnir skemmtu okkur með flottum sýningaratriðum í leik, söng og í dansi. Eftir það skoðuðum við dúkkusafn og leirkeragerð í Preili. Á leiðinni í sumarbústaðinn sem við gistum í um nóttina í Algona skoðuðum við kirkjuna sem páfinn heimsótti 1993 og þorpsbúar eru afar stoltir af.



Einnig fórum við á stað þar sem búið er að búa til alls kyns tákn (líkneski) tengt biblíunni úr trjám. Um kvöldið þegar orðið var dimmt var settur á svið óvæntur atburður sem gestgjafar okkur höfðu undirbúið en það var að senda lifandi ljós upp í loftbelgjum og óska sér einhvers um leið, en Lettar eru mjög hjátrúarfullir. Þetta var allt saman mjög skemmtilegt og áhugavert og erum við búnar að upplifa margt óvænt, fróðlegt og skemmtilegt í ferðinni okkar. Við hlökkum til að koma heim á morgun og deila þessari reynslu okkar með öðrum.



Í gönguferðinni okkar í Old Riga í dag sáum við þessa fallegu styttu.

fimmtudagur, apríl 14, 2011

The Hill of Crosses

Morgundagurinn hófst á ferð að "hæð krossanna" en Ásta tók að sér að aka okkur þangað sem er í um 12 km fjarlægð frá Sólarborginni Siauliai. Það var stórkostlegt að sjá alla þessa krossa þarna, þeir skiptu þúsundum. Fólk kemur með krossa og setur þarna á hólinn til að höndla hamingjuna og óska sér og sínum alls góðs. Þetta tengist eitthvað undirokun Sovétríkjanna frá því 1863. Á leiðinni sáum við stork upp á ljósastaur og á árbakkanum fyrir neðan hæð krossanna sem var mjög athyglisvert fyrir mig alla vega því ég hef ekki séð stork úti í náttúrunni fyrr. Hér er smásýnishorn af krosshæðum.



Eftir hádegið var ráðstefna um samskiptaverkefni og voru fluttir fyrirlestrar um ýmis verkefni sem unnin hafa verið hér í Litháen og svo voru einnig erindi frá okkur sem erum í Nordplus verkefninu. Ég sagði þeim frá lestrarverkefninu okkar á eTwinning. Voru ábyggilega mörg fróðleg erindi flutt þarna en við skildum þau bara ekki öll því sum voru flutt á litháensku :-(


Næst á dagskrá var náttúrugripasafnið og fengum við að flétta körfur úr náttúrulegum greinum og auðvitað að skoða safnið. Við fórum líka til skartgripahönnuðar sem vinnur skartgripi úr rafi (amber) og sáum þar flotta hönnun o.fl. Síðan fórum við í súkkulaðibúð sem er í tengslum við verksmiðju og keyptum smá súkkulaði, en Litháar eru miklir súkkulaðigerðarmenn sem og Lettar. Að lokum var farið út að borða sem var svona lokamáltíðin í Litháen því í fyrramálið um 6 leytið förum við í 4 tíma rútuferð til Preili í Lettlandi og þar verður stíf dagskrá fram á kvöld. Með okkur í ferðinni verða tæplega 30 krakkar frá Litháen sem fá að heimsækja nemendur í Preili sem hafa verið að vinna sama verkefnið í Nordplus.

Veðrið hefur leikið við okkur í dag og í gær. Sólin skín í sólskinsborginni sem er 4 stærsta borgin í Litháen með um 130 þús íbúa. Það er þó ekkert sérlega heitt ennþá þótt sólin skíni. Við höfum aðeins rölt um bæinn í dag og skoðað kirkjuna og Sundial Square þar sem 18 m há súla trónir á miðju torginu með gylltum dreng "Saulys" (the Archer) sem heldur á boga og ör og er tilbúinn að skjóta. Það er sagt að nafnið á borginni hafi dregið nafn sitt af þessari styttu allt frá 13. öld.






miðvikudagur, apríl 13, 2011

Geguziukai - Árbæjarsafn

Miðvikudagurinn rann upp bjartur og sólríkur hér í Litháen. Við fórum í skólann um hálf níu og hófum þann daginn á að horfa á enskukennslu hjá 9 ára krökkum. Við höldum að nemendur okkar séu komnir mun lengra í enskunámi hvað varðar framburð og skilning en þeir. Þeir eiga t.d. erfitt með að bera fram h fremst í orð. En þau voru dugleg og vinnusöm eins og við höfum séð alla vikuna. Síðan sýndum við 3. og 4. bekk kynningu frá Íslandi og skólanum okkar og voru þau mjög dugleg að spyrja og spurðu margra góðra spurninga og voru áhugasöm.


Svo setti ég sýninguna hans Odd í gang hjá 8. og 9. bekk (um 50 nemendur) og var sýningin á ensku og virtust þau skilja hana alveg enda var Oddur skýr í framburði og hafði hátt í stofunni í hátölurunum.

Eftir sýninguna tengdum við Skype og Oddur kom á skjáinn og spjallaði við nemendur og svaraði spurningum sem hefðu reyndar mátt vera fleiri en hann sagði þeim bara frá ýmsu varðandi eldfjöll og jökla þess á milli.


Eftir hádegið fórum við á nokkurs konar Árbæjarsafn sem var í útjaðri borgarinnar og hittum þar fyrir eldri hjón sem tóku á móti okkur með bjölluhljómi og einhverjum drykk sem þau höfðu búið til (birdwater). Eftir það vorum við leidd um svæðið og í hvern kofann af öðrum þar sem allt var fullt af reykjarsvælu innanhúss vegna þess að það var kynnt upp með spýtum í arni og ekki loftað nægilega vel út. Við dönsuðum á túninu með ungum krökkum sem einnig sungu fyrir okkur.


Við fengum að njóta ýmis konar drykkja með alls konar bragði, allt náttúrulegt, þá fengum við soðnar kartöflur með ídýfu sem var eldgamall réttur sem við þurftum að prófa. Boðið var upp á sauna og bað í trépotti úti á túni sem aðeins einn þáði. Svo bjuggum við til kerti úr býflugnavaxi og lituðum egg sem voru mjög skrautleg eins og sjá má á myndinni.






Eftir þetta allt var okkur ekið í "Moll" þar sem við röltum um, en keyptum lítið og fengum okkur að borða. Góður dagur með góðu veðri og góðu fólki.

þriðjudagur, apríl 12, 2011

Bjórverksmiðjan


Í dag fengum við að sjá tónmenntatíma hjá 10 ára krökkum. Þau lesa nótur, syngja í röddum, spila á blokkflautur og panflautur sem eru heimagerðar úr rafmagnsrörum og eru þeir rosalega flínkir og prúðir. Maður á eiginlega ekki orð hvað mikið fer fram í tímanum sem er 45 mín langur.



Eftir kennslu í dag þar sem við kenndum páskaungana og páskadúkana fórum við ferð til Birzair sem er smábær í 2 klst akstri frá Siaulie. Þar er bjórverksmiðja sem býr til Rinkuskiai bjór sem þykir mjög góður. Við brögðuðum á 5 tegundum af mjöðnum og varð hann alltaf sterkari og sterkari eftir því sem könnunum fjölgaði á borðinu og var kominn galsi í konurnar þegar á leið.


Veðrið var mjög gott en frekar kalt og var ís á vatninu við bæinn. Við sáum stork á labbi en það eru víst margir slíkir hér um slóðir. Það er ótrúlegt að aka um þessar slóðir, allt er svo flatt og akrar út um allt og pollar og tjarnir svo langt sem augað eygir. Tré eru svona hér og þar í flákum og í dag sáum við breiður af eplatrjám mjög lágvöxnum þar sem verið var að klippa ofan af þeim fyrir sumarið. Það er ekki mikið um ár hérna og fjöll engin. Húsin í þorpunum eru frekar fátækleg svo og bóndabæirnir. Það er greinilega ekkert ríkidæmi á hverju strái. Landbúnaðarvélar sjást varla og þá svo gamlar eða eins og bláu ferguson-traktorarnir voru í eldgamla daga. Jæja nú eru allir sofnaðir og farnir að hrjóta í kringum mig svo það er best að koma sér í háttinn til að vera hress á morgun við fyrirlestrana.



mánudagur, apríl 11, 2011

Juventa skólinn í Siauliu


Í dag var skólaheimsókn í Juventa skólann í Siauliu í Litháen þar sem 1000 börn eru við nám. Þarna starfa 100 kennarar með 30 börn í bekk á miðstigi og ofar en 24 á yngsta stigi. Nemendur eru á aldrinum 6 til 15 ára. Þessi skóli er sérhæfður í tónlistarkennslu og eru 36 kennarar af þessum 100 tónmenntakennarar. Í Siauliu eru um 700 þús. íbúar og fer fækkandi. Þeir eru með NATO stöð hér í úthverfinu og þar eru franskir, þýskir og bandarískir hermenn og er skólinn í sambandi við stöðina og koma hermennirnir oft í heimsókn og tala við nemendur og öfugt, en nemendur fara einnig þangað og er þetta liður í tungumála- og landafræðináminu.


Jón og Gunna voru afhent við hátíðlega athöfn á sal. Sómdu þau sér vel í þjóðbúningum sínum. Við Elín kenndum svo 10 ára nemendum í morgun að búa til páskadúka og páskaunga og voru nemendur afar prúðir og kurteisir.




Við kenndum líka tveimur bekkjum á sal tvo gamla leiki, höfrungahlaup og hanaslag en við leitum í forna tíð eftir einhverju úr menningu okkar til að sýna þeim.



Skólinn er frekar gamall og lítur ekki vel út og frekar fátæklegt um að litast, það er eins og að stíga inn aðra veröld frá því fyrri partinn á 20. öld. Ljósin á göngunum eru t.d. slökkt til að spara rafmagn og aðeins kveikt í frímínútum. Annars eru allir hressir og glaðir og sýna okkur ánægjulegt viðmót. Í dag er rigning og hefur aðeins hlýnað. Við fórum í banka að skipta evrum í "litas" og er eitt litas tæplega 50 íslenskar krónur.


Síðan var hátíð í skólanum þar sem nemendur sýndu okkur dans, spiluðu fyrir okkur á blokkflautur og sungu raddað ýmsa söngva. Foreldrar komu líka að horfa á og svo dansaði allur hópurinn alls konar hópdansa saman. Þetta var bara fjör og læti og voða gaman. Síðan fengum við dumplings að borða og það var nú reyndar ekkert sérlega gott svo seinna um kvöldið fengum við okkur viðbótarkvöldverð á hótelinu:-)



sunnudagur, apríl 10, 2011

Lettland og Litháen


Þá er ég komin til Litháen en þessi ferð er farin á vegum Nordplusverkefnis um verkefnið regnboga menninganna í löndunum Danmörk, Lettland, Litháen og Ísland. Við fórum í gær í gegnum Danmörku til Lettlands og vorum þar í nótt.



Skoðuðum síðan "The Old Riga Town" í morgun með leiðsögumanni, eftir það fórum við á stað þar sem lettneskar fjölskyldur fjölmenna með börnin sín um helgar og eiga skemmtilegan dag, þar fengum við okkur að borða af hlaðborði, mjög góðan mat.



Við litum inn í þessa fallegu kirkju þar sem verið var að jarða einhvern. Þar voru allar konur með skuplu til að hylja hár sitt og allir gengu til altaris bæði börn og fullorðnir, mötuð með sömu skeiðinni. Mjög falleg tónlist var í kirkjunni og greinilega allt nýuppgert bæði innan og utan.

Eftir gönguna í Old Riga og góðan hádegisverð, ókum við áleiðis til Litháen með viðkomu í Rundales höll sem er safn frá 18. öld. Antra frá Lettlandi átti afmæli í dag og bauð okkur í kökuveislu á veitingastað í Siauliu í Litháen þegar við vorum búnar að koma okkur fyrir á hótelinu. Á morgun byrjar svo ballið, við förum í skólann og hittum kennara og nemendur og kennum þeim gamla íslenska leiki og föndrum svo með þeim. Einnig verður móttaka hjá skólastjóra svo það er best að fara að sofa og reyna að vera úthvíld til að takast á við daginn á morgun. Hér er reyndar brunakuldi og mjög napurt svo ekkert dugar nema föðurlandið og húfa og vettlingar.

föstudagur, apríl 08, 2011

Myndir frá Tyrklandi

Hæ hæ
Þar sem mér hefur ekki unnist tími til að setja fleiri myndir inn frá Tyrklandi eins og ég lofaði og klára ferðasöguna ætla ég að skella hér inn myndbandi frá heimsókninni í skólana en einnig er þar smáinnsýn í mannlífið í Ankara.

Myndband