sunnudagur, apríl 10, 2011

Lettland og Litháen


Þá er ég komin til Litháen en þessi ferð er farin á vegum Nordplusverkefnis um verkefnið regnboga menninganna í löndunum Danmörk, Lettland, Litháen og Ísland. Við fórum í gær í gegnum Danmörku til Lettlands og vorum þar í nótt.



Skoðuðum síðan "The Old Riga Town" í morgun með leiðsögumanni, eftir það fórum við á stað þar sem lettneskar fjölskyldur fjölmenna með börnin sín um helgar og eiga skemmtilegan dag, þar fengum við okkur að borða af hlaðborði, mjög góðan mat.



Við litum inn í þessa fallegu kirkju þar sem verið var að jarða einhvern. Þar voru allar konur með skuplu til að hylja hár sitt og allir gengu til altaris bæði börn og fullorðnir, mötuð með sömu skeiðinni. Mjög falleg tónlist var í kirkjunni og greinilega allt nýuppgert bæði innan og utan.

Eftir gönguna í Old Riga og góðan hádegisverð, ókum við áleiðis til Litháen með viðkomu í Rundales höll sem er safn frá 18. öld. Antra frá Lettlandi átti afmæli í dag og bauð okkur í kökuveislu á veitingastað í Siauliu í Litháen þegar við vorum búnar að koma okkur fyrir á hótelinu. Á morgun byrjar svo ballið, við förum í skólann og hittum kennara og nemendur og kennum þeim gamla íslenska leiki og föndrum svo með þeim. Einnig verður móttaka hjá skólastjóra svo það er best að fara að sofa og reyna að vera úthvíld til að takast á við daginn á morgun. Hér er reyndar brunakuldi og mjög napurt svo ekkert dugar nema föðurlandið og húfa og vettlingar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home