miðvikudagur, október 27, 2010

Vedersöefterskole

Í dag fórum við snemma í skólann og hlustuðum á morgunsöng sem er á hverjum degi í Stadil skóla. Sungin eru tvö lög og stundum þegar einhver á afmæli þá er sunginn afmælissöngurinn líka og hrópað fjórum sinnum húrra fyrir afmælisbarninu.
Svo stjórnuðum við leikjum í leikfimisalnum en það var svo mikil rigning og rok að það var ekki hundi út sigandi. Við kenndum þeim tvo leiki sem ekki eru reyndar leiknir lengur heima en það var að "hoppa yfir legg" og "að reisa horgemling". Gekk þetta svona og svona en þeim þótti greinilega gaman. Rakel kenndi þeim klappið okkar til að fá athygli og hljóð og það svínvirkaði. Síðan sýndum við þeim leikinn "köttur og mús" og var mikið fjör í salnum þangað til gulræturnar komu en þá fóru allir í einfalda röð og tóku sér gulrót úr stórri fötu sem kennarinn hélt á (sjá mynd).


Eftir það var haldinn fundur í hópnum og fórum við yfir Twinspace vefsíðuna, skipulögðum bæði Íslandsferð og Lettlands/Litháenferð. Lettarnir kenndu okkur skemmtilegar föndurhugmyndir með því að nota servéttur.
Síðan var farið inn í Ringköbing sem er lítill gamall bær hér í nágrenninu og rölt um hann og kíkt í búðir. Um kvöldið héldu Lettarnir okkur hátíðlega máltíð þar sem boðið var upp á sérrétti frá Lettlandi og farið í leik og hlustað á lettneska tónlist. Var þetta allt hin besta skemmtun og við áttum notaleg samskipti og sögðum frá hvers annars siðum og venjum.



0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home