laugardagur, mars 27, 2010

Te papa


Í dag tökum við einn dag enn í borginni og nú er skýjað en ekki rigning og talsverð gola. Freyja segir að hér sé mjög vindasamt og afar sjaldan logn. Í gær var þó besta veður þrátt fyrir goluna en hitinn náði vel yfir 22 gráður og við röltum um borgina og skoðuðum bæjarlífið, kíktum við og við í búðarglugga og fórum síðan í skrúðgarðinn upp í eini hæðinni en þaðan sést allvíða yfir. Borgin liggur í mjög hæðóttu landi og liggur við að húsunum sé tillt upp í brekkurnar hér og þar á óskipulagðan hátt og á mörgum stöðum eru aðeins tröppur upp að húsunum eins og hjá Freyju og ekki hægt að aka heim að dyrum eins og á Íslandi. Okkur var boðið í kvöldmat til Kristjönu sem býr hér ein af fáum Íslendingum í Wellington en þeir ku vera þrír. Það eru þó fleiri búsettir hér í landinu. Við áttum góða stund hjá henni og auðvitað komu í ljós tengsl milli okkar og hennar sem við vissum ekki um en er það ekki ótrúlegt hve oft Íslendingar rekja einhver tengsl sín á milli?
Í dag er ætlunin að skoða hið flotta safn Nýsjálendinga Te papa sem er tiltölulega nýtt og samanstendur af mörgum söfnum og er staðsett niður við höfn.
Það búa margir Bretar hérna og ekki skrýtið þar sem landið er enn formlega undir umsjón Betu en þeir eru enn með mynd af henni á peningunum (myntinni) sínum. Hér er myndband frá Wellington ef einhver hefur áhuga.
Við erum búin að panta okkur bíl á Suður eyjunni og förum þangað í fyrramálið með ferju en það tekur um þrjá tíma að sigla yfir sundið. Meira um það síðar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home