mánudagur, mars 22, 2010

Nýja Sjáland


Auckland

Við komum til Auckland á sunnudagsmorgun eftir þriggja daga ferðalag og viðkomu í Hong Kong eina nótt. Við töpuðum 13 tímum á leiðinni hingað og erum svolítið rugluð í dagatalinu og tímahringnum. Allt gekk eftir áætlun og við hittum vinkonu Freyju hana Debbie í Hong Kong eins og áæltað var en hún býr þar og vinnur við AIESEC eins og Freyja gerir í Wellington. Hún lallaði með okkum um borgina og við tókum lest upp á hæð eina til að sjá yfir en hún virðist standa á fjallatoppum sem standa upp úr sjónum með lítið undirlendi enda nánast eingöngu háhýsi alls staðar upp á marga tugi hæða.

Á sunnudag eftir að við vorum búin að koma okkur fyrir á hóteli röltum við um miðbæ Auckland en borgin breiðir úr sér hér yfir all stórt svæði og er lítið um háhýsi nema rétt í miðborginni. Við sigldum síðan út í eyju Waiheke Island sem liggur hér í 40 mín siglingarfjarlægð frá landi og áttum þar góða stund í náttúrunni. En ekki var risið hátt á fólkinu þennan daginn því lítið hafði verið um svefn nóttina áður í fluginu.

Í gær mánudag leigðum við okkur bíl og ókum norður fyrir Auckland til að líta á stærstu og elstu tré sem finnast á suðuhveli jarðar og kallast kauri tré. Hæsta tréið var rúmlega 50 m á hæð og það sverasta var með 16 m í ummál. Þetta eru skrýtin tré mjög búkmikil og utan á þeim eru ýmis sníkjutré svo erfitt var að sjá hvernig lauf tilheyrðu þeim þar til við sáum eitt sem var góðursett árið 1979 og var ekki nema um 7 m hátt. Myndir koma seinna því netsamið er ekki gott hérna. Ferðin tók reyndar heldur lengri tíma en við ætluðum en gekk samt mjög vel. Við gleymdum að beygja einu sinni sem lengdi ferðina aðeins, kortalesarinn sofnaði he he. Freyja ók mestan hluta leiðarinnar og er hörkubílstjóri en hér er ekið á vinstri vegarhelmingi og það má ekki gleyma sér eitt andartak þá er maður ósjálfrátt kominn yfir á hinn vegarhelminginn að bragði. Nú er veru okkar lokið í bili hér í Auckland og við ætlum að halda aðeins suður á bóginn í dag og skoða miðnorðurhluta norðureyjunnar, en við komum aftur hingað í lok ferðarinnar og fljúgjum til Hong Kong laugardaginn 2. apríl n.k.

1 Comments:

At 22/3/10 2:14 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Hæ hæ, gott að þið eruð komin á svæðið hress og kát, njótið nú daganna þeir verða fljótir að líða, þangað til næst, bless bless og bestu kveðjur , mamma og Jens

p.s. bíðum spennt eftir að heyra meira , mamma

 

Skrifa ummæli

<< Home