þriðjudagur, mars 16, 2010

Ferðasaga frá Færeyjum vikuna 19. til 26. júní 2009




Fyrsti dagurinn






Ferðin hófst um hádegið þann 19. júní með flugi frá flugvellinum í Reykjavík. Flugið tók einn og hálfan tíma og ferðinni var heitið til Vogeyjar í Færeyjum. Eftirvænting ríkti í hópnum sem samanstóð af átta manns eða fernum hjónum. Tilefnið var að halda upp á 10 ára afmæli gönguhópsins okkar. Ferðalangarnir voru ásamt mér, Oddur maðurinn minn, Sesselja og Ívar hjón úr Hryggjarselinu í Breiðholti, Jón Leifur og Lára úr Grafarvoginum og Gústi og Sólveig af Laugateignum. Búið var að panta sumarhús í Leynum sem er á Straumey eða í 15 mínútna akstursleið frá flugvellinum og bílaleigubíl frá Avis – níu manna minibus (Mazda).
Flugið tók einn og hálfan tíma og við lendingu flýttum við klukkunni um einn tíma til að hafa sama tíma og Færeyingar. Bíllinn var klár á vellinum en þegar við opnuðum hurðina á honum gaus þvílík fúkkalykt út úr honum að ekki var við unað. Kvörtun dugði ekki, þeir áttu ekki annan bíl og sögðu okkur að kaupa ilmspjald í bílinn til að yfirgnæfa fúkkalyktina. Reyndar tók ekki betra við þegar við nú loks röðuðum okkur inn í bílinn kom í ljós að eitt öryggisbeltið var bilað en það kom kannski ekki að sök þar sem einn ferðalanganna situr aldrei í slíku belti svo við gerðum ekkert í því máli að sinni.
Nú var að finna sumarhúsið sem var í litlu þorpi – Leynar á Straumey. Við fundum nú þorpið eftir að hafa villst smá af leið. Í Leynum eru um 15 til 20 hús alls en okkar hús var ekki auðfundið. En við vorum með ljósmynd af umhverfinu og gátum fundið það eftir henni. Það kom í ljós eftir að hafa skoðað myndina vel að það var langt upp í hlíðinni og ekki ökufært að þangað. Ég er ekki að grínast. Það er svo sannarlega satt, en það var malbikaður stígur hálfa leiðina uppeftir og ekki hægt að keyra hann vegna þess að hann var svo mjór og brattur með kröppum beygjum og bíllinn stór og eftir það var hrossastígur um 100 m að húsinu. Svo við þurftum að selflytja farangurinn upp í húsið og fundum við hjólbörur sem örugglega hafa verið ætlaðar til flutnings á varning upp brekkuna í húsið. Húsið leit ágætlega út og það fór vel um okkur. Eftir að hafa komið okkur fyrir og fengið okkur í svanginn skoðuðum við næsta umhverfi, en bæirnir liggja alls staðar niðri við sjóinn. Í Leynar var hvít strönd sem virtist vera sólarströnd nálægra bæja en það sáum við seinna. Einnig leyndist þarna í húsunum listamaður sem rennir ljósakrónur og skálar úr við. Við heimsóttum hann seinna og fengum að skoða verkstæðið hans og muni sem voru hver um sig sannkölluð listasmíð. Hann heitir Ole Jakob Nielsen og hefur netfangið ojntrae@gmail.com og er að búa til vefsíðu http://www.onjtrae.com/.












Annar og þriðji dagur



Veðrið lék við okkur allan tímann sem við vorum, sól upp á hvern dag. Við sáum þó þoku og rigningu en það var yfirleitt á kvöldin og nóttunni eða í býtið á morgnana. Við fórum fyrsta daginn út í vestustu eyjuna Mykines þaðan sem hinn frægi færeyski málari er. Annan daginn gengum við á Slættaratind sem er hæsti tindur Færeyja (882 m) og einnig fórum við í Götuþorpin þar sem hann Þrándur í Götu bjó og sáum þessa fínu styttu af honum sem liggur lárétt út frá styttusteininum. Þriðja daginn fórum við til Þórshafnar á „Kunningarstovuna“ (upplýsingamiðstöð) til að fá fleiri gögn eða bæklinga til að lesa um Færeyjar. Þá gengum við yfir í Kirkjubæ en biskupinn í Færeyjum sat þar og hægt var að skoða þar byggingar frá 13. og 17. öld. Við tókum okkur á þriðja tíma að rölta þangað í sólskininu. Við skoðuðum Norræna húsið og fengum okkur kaffi. Það er mjög flott hús og glæsilegt.












Fjórði dagurinn



Fjórða daginn ókum við yfir til Saksun en það liggur á Straumey og liggur í mynni lengsta dals (Saksunardalur 11 km) í Færeyjum og þaðan gengum við yfir í Tjörnuvík og fengum þoku á leiðinni og vorum ekki alveg viss með leiðina en það bjargaðist og þegar yfir fjallið var komið birtist bærinn langt niður í fjörunni í sólskininu og „Karl og Kerling“ á Austurey sáust einnig allvel í fjarska. Við höfðum séð þau skötuhjú frá Slættaratindi daginn áður frá öðru sjónarhorni.
Síðar um daginn þáðum við boð Alberts sendiherra Íslands í Færeyjum, en hann er kunningi Gústa og Sólveigar. Eftir boðið fórum við út að borða á Hvönn í Þórshöfn og fengum ágætis mat og þangað kom hún Andrea sem býr í Þórshöfn og vann með okkur Láru í Breiðholtsskóla. Gekk hún með okkur um bæinn og sagði okkur frá því sem fyrir augun bar og svaraði spurningum okkar um ýmislegt sem við höfðum velt fyrir okkur í sambandi við Færeyinga.












Fimmti dagur



Fimmti dagurinn rann upp með sudda og rigningu, en við létum það ekki á okkur fá og ferðinni að þessu sinni var heitið út í Viðey eða að Viðareiði. Rigndi allrösklega á okkur á leiðinni en þegar á áfangastað var komið skein sólin og aðstæður voru hinar ágætustu. Allhá fjöll eru þarna við Viðareiðið eða um sjö til áttahundruð metra há. Gengum við fram á björgin og horfðum út í Fugley og Svíney en þangað er ekki akfært. Við ókum síðan einnig út í Kúney á lítilli uppfyllingu sem er milli hennar og Borðeyjar en létum síðan Kalsey eiga sig þar sem taka þarf ferju til að komast þangað. Einnig létum við Suðureyjarnar vera að þessu sinni því það þarf einnig að taka ferju þangað og eitthvað verður að vera eftir þegar við komum næst.












Sjötti dagur



Sjötta deginum eyddum við að mestu í Þórshöfn en Gústi fór á Fornminjasafnið að afla gagna um fífustengur en við skelltum okkur á Listasafnið og fengum okkur göngutúr um listagarðinn og bæinn sem er nú ekki stór.
Þá ætluðum við að skoða Vestmannabjörgin frá sjó og skelltum okkur til Vestmanna sem er steinsnar frá Leynum en viti menn báturinn fór klukkutíma of snemma í skoðunarferðina svo ekkert varð af því. Við keyptum því 3 færeyska bjóra til að ylja okkur við um kvöldið og kostaði flaskan (eins og lítil kókflaska) um 50 danskar krónur eða tæplega 1300 ísl. krónur. Svona var reyndar allt þarna, flott færeysk þríréttuð máltíð (án víns) kostaði um 12 þús. ísl. krónur. Ferðin út í Mykines sem tók um 45 mínútur kostaði fimm þúsund krónur á manninn.
Svo við ákváðum að elda okkur mat heima í bústaðnum sem kom mjög vel út og var rosalega góður. Við innkaupin styrktum við Bónus sem er allvíða í Færeyjum.












Að lokum



Á ferð okkar um eyjarnar komum við í mörg lítil þorp og það vakti undrun okkar að það var varla nokkur manneskja á ferli nema ferðamenn, við vorum alltaf að hitta sama fólkið, Þjóðverja og Svía sem virtust vera á sama róli og við. Húsin eru yfirleitt í þyrpingu við fjallsræturnar, niður við sjó og voru þau frekar lítil og gömul þó sáust örfáar nýbyggingar á nokkrum stöðum. Sendiherrann okkar er t.d. með skrifstofu í gömlu timburhúsi í Þórshöfn frá 17. öld og var verið að slá þakið því þegar við komum þangað.
Ferðin var í alla staði mjög vel heppnuð og sáum við mjög margt skemmtilegt og fróðlegt. Það má líka segja að við höfum unnið í happdrætti hvað veðrið snertir því sagt er að þoka og rigning einkenni veðurfarið en regnfötin okkar voru ekkert notuð í þessari ferð.
Það sást ekki nokkurt tré í Færeyjum nema í görðum heim við hús. Berjalyng var ekki að sjá og mikill mosi var í móunum úti á víðavangi. Það eru líka ofboðslega margar kindur í Færeyjum og flestar þeirra eru flekkóttar og fáar alhvítar. Þær eru mjög líkar okkar kindum nema ögn háfættari og aðeins stórgerðari. Flestir Færeyingar eiga nokkrar skjátur til að geta búið sér til skerpukjöt og einnig eiga þeir endur sem þeir setja á beit á sumrin og slátra þeim síðan á haustin og eiga þar með góða jólasteik. Svo var það steypuvélarnar sem voru næstum við hvert hús, það var eins og það væri ákveðið stöðutákn að eiga eina slíka. Það var ekkert sérstaklega snyrtilegt við húsin þeirra og lítið um fallega garða. En landið var grænt og gróið þótt ekki væri það trjágróður sem græddi það. Birtan og veðrið spilaði saman ótal tónbrigði fyrir augað og var ótrúlega skrýtið að sjá hve snöggt veðrið breyttist og var oft samtímis sól, þoka og rigning.







Hér kemur svo uppskrift af súpu sem bæði ég og Láru komum með til að elda.



Mexíkó – súpa
2 -3 stk. sellerí – smátt skorið.
1 stk. rauð paprika.
1 stk. rauðlaukur.
1 – 2 laukar.
500 gr. nautahakk( eða kjúklingur) steikt og kryddað með salti og pipar.

Þetta er allt saxað smátt og léttsteikt í olíu á pönnu.
8 dl vatn
1 dós tómatpuré
1 dós hakkaðir tómatar
1 dós chilibaunir/ nýrnabaunir
200 gr. rjómaostur
5 dl matreiðslurjómi




Í pottinn:
Allt sett í pottinn ásamt hakki og grænmeti og látið malla í 30 mínútur.
Kryddað með: grænmetiskrafti, hvítlaukskryddi, salt, pipar og sætri chilisósu.
Borið fram með nachos –snakki (mulið yfir), sýrðum rjóma, rifnum osti og nýbökuðu brauði






0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home