miðvikudagur, október 01, 2008

Olympíuleikvangurinn og sumarhöllin

Það er heilmikið púl að vera ferðamaður með skipulagða dagskrá, maður er bara dauðþreyttur eftir daginn. Í dag afrekuðum við það að fara á uppáhaldsstaðinn hennar Þorgerðar Katrínar eða Ólympíuleikvanginn í Peking. Leiðsögumaðurinn okkar fór eldsnemma í morgun að ná í miða fyrir okkur og fékk þá á þreföldu verði því það var í fyrsta skipti í dag sem almenningur fékk aðgang að leikvanginum enda er þjóðhátíðardagur Kínverja í dag skv. fyrirskipun Maós formanns frá árinu 1949. En þá tilkynnti Maó að Alþýðulýðveldið Kína væri formlega stofnað. Það var magnað að koma inn á leikvanginn og sjá alla dýrðina. Myndirnar tala sínu máli.
Sjónvarpsskjáir voru á háhýsunum í kring um vettvanginn og sjáið hvað sólin er rauð en það er svo mikil mengun að hún nær ekki að skína í gegn. Sundhöllin lýsir þarna blá í rökkrinu fyrir framan háhýsin. Mannfjöldinn á götunum hérna er gífurlegur.





Við fórum einnig í sumarhöll keisarans eða garðinn þar sem hún er og var hann stofnaður á 17. öld þegar Qianlong keisari ríkti en var eyðilagður af ensk/franska árásarliðinu (1860) í opíumstríðinu. Keisaraynjan Cixi fyrrum hjákona keisarans endurreisti hann síðan 1888 en hún var síðasti valdamaður keisaraættarinnar í Kína og ríkti til 1911. Þarna hafði keisarinn og hans lið viðdvöl á sumrin. Garðurinn var settur á menningarminjaskrá heimsins 1998 af UNESCO. Garðurinn er mjög stór eða um tæplega 3 ferkílómetrar og þar er að finna skrautleg húsakynni, stórt vatn, margar litlar eyjar og flottar brýr þar sem bátar sigla milli brúarstólpanna. Hér koma nokkrar myndir frá garðinum.










4 Comments:

At 2/10/08 4:19 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Vá hvað þetta er spennandi, hefði sko alveg verið til í að vera með ykkur þarna á leikvangnum.
Góða ferð heim ef ég heyri ekki í ykkur aftur.
Stórt knús, Jórunn

 
At 2/10/08 6:54 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Gaman að fylgjast með ykkur!!

Hlakka til að heyra meira.

Besta kveðja
Eygló

 
At 2/10/08 1:53 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Það er gaman að fylgjast með ykkur. Planið var að fara um páskana til Kína eeeeennnn miðað við stöðu mála í dag þá er ekki útlit fyrir að það gangi eftir. Kínaferðin ykkar verður kannski að duga. Haltu áfram að blogga Kolla mín og segðu okkur frá Kína.
Kær kveðja Helga J

 
At 3/10/08 3:11 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Fór inná póstinn í Flataskóla og sá þá bréfið frá þér með þessum link og fór að forvitnast! Rosalega er gaman að lesa um þessa ferð - mikið ævintýri greinilega.´
Góða ferð heim.
Kveðja,
Oddný

 

Skrifa ummæli

<< Home