föstudagur, mars 26, 2010

Wellington



Jæja nú eru ferðalangarnir komnir til Wellington eftir að hafa skoðað land og þjóð á leiðinni frá Auckland. Við erum búin að ganga eftir skógarstígum, fara upp á aðalskíðasvæði Norður Sjálendinga (en þar var reyndar enginn snjór ennþá) en það er í tæplega 3000 m hæð og þar sáum við tvo smájökla. Við fórum á sýningu sem frumbyggjar Nýja Sjálands Maoriar sýndu okkur með söng og dansi og var það mikil upplifun. Þeir voru frumlega málaðir og ygla sig og gretta og reka út úr sér tunguna og reyna að vera sem ljótastir. Þeir heilsa hver öðrum með því að nudda saman nefjum og ganga í feldum gerðum m.a. úr kiwifuglinum. Við fórum einnig í dýragarð til að sjá faununa á Nýja Sjálandi en hér voru engin spendýr fyrr en innflytjendur fluttu þau inn með sér fyrr á öldum og gerðu mikinn usla í dýralífinu. Hér var fjöldi fugla sem ekki gat flogið þ.e.a.s. hafði ekki vængi þar á meðal kiwifulginn. Hann er í útrýmingarhættu og verið er að reyna að bjarga því á ýmsan hátt, maður getur t.d. tekið einn slíkan í fóstur svipað og börn í Úganda eða á Indlandi þ.e.a.s. að borga með þeim ákveðna upphæð reglulega. Einnig fórum við á strönd þar sem heitir hverir voru í flæðarmálinu og hægt var að grafa í sandinn og fá heitt vatn í holuna til að liggja í þar til næstasjávarflóð kom.
Við ætlum að dvelja hér í Wellingtown í 2 daga og Freyja ætlar að sýna okkur borgina sem hún er mjög hrifin af. Hér er afar flott safn sem við ætlum að skoða og heitir Te papa. Síðan ætlum við að fara yfir á Suðureyjuna og skoða hana en eftir reynslu síðustu daga ætlum við að aka minna en ganga og skoða út frá einum eða tveimur stöðum nyrst á eyjunni. En þetta er allt í skipulagningu og kemur í ljós næstu daga. Við höfum haft það þannig að við skipuleggjum svona eftir hendinni hvern dag og þykir það mjög þægilegt. Við vitum að við höndlum ekki allt sem hér er hægt að skoða og gera og sættum okkur vel við það.
Meira seinna.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home