miðvikudagur, mars 31, 2010

Suðureyjan



Hæ aftur
Á mánudagsmorguninn fórum við yfir á Suður eyjuna og sigldum með ferju og það tók rúma 3 tíma að koma okkur yfir. Veðrið hefur leikið við okkur í ferðinni og það var undurfagurt landslag sem við sáum á leið okkar inn geysilangan krókóttan fjörð þar sem landslagið var klætt afar fjölbreyttum trjágróðri og er sagt að þetta sé land hinna sokknu dala en gróðurinn nær alveg niður í sjá og það er ekkert undirlendi.
Nýr bíll beið okkar við ferjustaðinn og við erum nú búin að aka allvíða um norðurenda eyjunnar og fara á marga afkimastaði að hætti Odds en hann forðast þjóðgarða og svoleiðis að vanda. En okkur tókst samt að fá hann með okkur í þjóðgarð Abel Tasman sem liggur í norðvestur horni Suðureyjunnar. Þar fengum við okkur far með bát og gengum síðan í skóginum eina 11 km og tókum síðan bátinn aftur tilbaka. Þetta tók daginn og var mjög skemmtilegt og fróðlegt að skoða skóginn, heyra í fuglunum og spjalla við fólkið sem við hittum á förnum vegi og rölta um frábæru strendurnar með hvíta sandinum og tæra vatninu. Það er mjög fábreytt dýralíf hérna sem við verðum vör við, aðallega fuglar, við sjáum nánast engin landdýr nema dauð á veginum en heyrum bara skemmtileg fuglahljóð. Maður á ekkert von á því að mæta pumu eða þvílíku dýri hérna og spendýrin sem hingað hafa verið flutt inn eru öll lítil eins og rottur, kanínur, stout (sem Ástralir fluttu inn), possum (lítið pokadýr) en þau gera mestan usla þ.e.a.s. hafa eyðilagt fuglafánuna. Margir af útdauðu fuglunum eða þeim sem eru í hættu (kíwifuglinn) gátu ekki flogið þannig að þetta var allsnægtarborð sem innfluttu dýrunum var boðið upp á.
Hér eru allir skógar fullir af burknum og má segja að þetta sé land burknanna. Nýsjálendingar eru líka að hugsa um að búa til nýja fána fyrir landið og setja silfurburknann sem tákn í fánann. En allvíða má sjá hann í skreytingum eins og myndin af kúlunni sýnir. Hinar myndirnar eru teknar í skógargöngunni í gær.
Nú er síðasti dagurinn framundan (fimmtudagurinn) og við æltum að skoða helli sem er hér í nágrenninu og fara út á Farewell Spit og e.t.v. eitthvað fleira eftir því sem tíminn leyfir. Síðan er að fara tilbaka á flugvöllinn í Nelson og fljúga til Auckland. Freyja kemur með okkur en hún er að fara að halda ráðstefnu þar með sínum félögum í Wellington. En við fljúgum beint til Hong Kong um kvöldið með 24 tíma stoppi þar áður en ferðinni er haldið áfram til London og síðan heim stax um kvöldið. Ég hugsa að þetta verði síðasta bloggið að sinni nema að mér takist að komast í netsamband í Hong Kong.
En þetta er búið að vera hin ævintýralegasta og fróðlegasta ferð og skemmtilegt að sjá svona alveg nýja menningu. Okkur hefur liðið mjög vel hér og gaman að vera með Freyju þessa dagana og vinstrihandaraksturinn hefur sloppið alveg slysalaust.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home