Jótland og menningarmunur
Jæja þá er maður kominn til Jótlands í verkefnavinnu með Lettum, Litháum og Dönum um regnboga menninganna. Það má með sanni segja að menningarmunur sé mikill og margt skrýtið sem kemur upp á þegar svona þjóðarbrot koma saman til að vinna verkefni. Það er þónokkur lífsreynsla að vinna með fólki að verkefnum sem skilur ekki nokkurt tungumál nema sitt eigið eins og meira en helmingur þátttakenda og stjórnandinn gerir en aðrir ekki. Við erum hérna samankomnar 10 konur, þrjár frá Lettlandi, 3 frá Litháen og 4 frá Íslandi að vinna með tveimur Dönum í Stadil skóla á Jótlandi. Verkefnið gengur úr á menningu landanna og kallast Regnbogi menninganna. Fyrsti dagurinn er liðinn og við erum að sjóða hangikjöt til að bjóða í veislu annað kvöld. Í dag fengum við upplýsingar frá skólaskrifstofunni í Ringköbing - Skern um hvernig skólakerfið í Danmörku er uppbyggt og var það mjög athyglisvert og margt kom þar fram sem við ætlum að flytja heim til skoðunar.
Síðan fórum við á Bork-víkingasafnið og fengum þar að skoða það sem safnið hefur upp á að bjóða til skólakennslu. Einnig var þar kona sem er að vinna mastersritgerð um það hvernig söfn og skólar vinna saman að kennslu nemenda. Hún ætlar að koma í heimsókn til okkar á morgun í matinn og taka við okkur viðtal um hvernig kennarar líta á safnkennslu og fleira í þeim dúr.


0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home