þriðjudagur, október 26, 2010

Óskarsteinar og danskennsla


Í dag var skemmtilegur dagur. Við vorum að kenna krökkunum í Stadil skóla að þæfa utan um óskasteina og komum með allt hráefnið að heiman. Steinarnir (4 kg í töskunni hennar Rögnu) komu frá Djúpalónssandi. Okkur fannst að nemendum þætti þetta skemmtilegt. Við héldum Dönum, Lettum og Litháum veislu um kvöldið og komum með hangikjöt, malt, appelsín og grænar baunir (í töskunni hjá Rögnu) með okkur en rauðkálið og kartöflurnar voru keyptar í búð í Danmörku. Í eftirrétt fengu þau döðluköku með karamellusósu og í forrétt var aspassúpa. Þótti okkur að útlendingunum þætti þetta gott og sumir fengu sér aftur af kjötinu :-)



Um kvöldið var svo farið til Velling og heimsóttur hópur sem hefur dansað saman í 30 ár og sýnt víða um heiminn. Þau voru flínk. En við kenndum þeim að dansa víkivaka og syngja um hann Ólaf liljurós en þau tóku nú ekki hraustlega undir en þau gátu tekið sporið. Lettarnir nærri sprengdu þau því þeirra dansar eru með svo mikil hopp og hí. Litháarnir voru aðeins skárri í hoppunum og sáu að hópurinn hafði ekki meira úthald svo þeir voru bara stutt.

Við vorum ánægð með daginn og hópurinn í sumarhúsinu er að koma til, enda var honum gefið opalskot eftir heimkomuna og brosið er aðeins farið að birtast endrum og eins. En meira á morgun það er orðið áliðið og ég er ein á fótum og best að koma sér í háttinn eins og hinar konurnar í húsinu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home