sunnudagur, apríl 05, 2015

Páskadagur

Sólríkur og góður dagur hjá okkur. Fórum í útsýnisferð um borgina og ákváðum þá að næst þegar við færum í borgarferð að byrja á útsýnisferð en ekki enda á henni eins og núna. Við vorum reyndar búin að ramba á marga af þessum stöðum sem bent var á, það gerðum við þegar við vorum á hjólunum fyrstu þrjá dagana áður en vinnustofan hófst. Nú sáum við að það hefði verið sniðugt að fara fyrst í ferðina og skoða svo frekar það sem við höfum áhuga á.  En í dag voru engin hjól til leigu svo við urðum að ganga og þá erum við ekki eins fljót yfirferðar. Við fórum út á stað sem kallaður er "Herrenhauser Garten í Herrenhausen Garden" og sagður vera eftirlíking af Versalagarðinum í París. En þetta er flottur garður þótt ekki sé komið sumar, trén mynduðu alls kyns mynstur sem voru mjög falleg.  Við dunduðum okkur í garðinum í tvo tíma og tókum svo vagninn áfram í útsýnisferð og lukum henni við járnbrautarstöðina sem allt miðast við í Hannover. Mikið hefur verið byggt upp í borginni, nánast frá grunni þar sem hún fór svo illa í seinna stríðinu, enda húsin snyrtileg og vel frágengin. Margir hafa leitað til Hannover við uppbyggingu hjá sér (fékk þennan punkt hjá konunni sem laumaði þessu að mér í hátalaranum í rútunni í dag). Það er mjög gott að hjóla í borginni, alls staðar hjólastígar aðskildir frá göngustígum og vel merktir. Það liggur hringur umhverfis miðhluta borgarinnar sem hægt er að hjóla eftir og auðvelt er að fá bílastæði og hafa aðgang að verslunum og öðrum þjónustustöðum.
Nú leggjum við í hann snemma í fyrramálið eða um 6 leytið og tökum fyrst u-banann niður á aðalbrautarstöðina, þar tökum við aðra lest til Frankfurt brautarstöðvarinnar og þaðan aðra lest út á flugvöll.  Vonandi gengur þetta allt upp en flugvélin á að fara klukkan 14 í loftið og lenda 15 heima svo við "græðum" tvo tíma á leiðinni, ekki slæmt :-)
Þetta er búin að vera fín ferð og fróðleg og við erum orðin eldklár á lestarferðum og ég tala nú ekki um þýskunni ;-)... en það þyrfti bara nokkra daga í viðbót til að þetta væri fullkomið!!!
Hlakka til að koma heim, því heima er best.

Á brautarpallinum að bíða eftir u-bananum í morgun.

Í flotta garðinum þar sem við eyddum meiri hluta dagsins.

Flott tré með flott mynstur.

Biðstöð fyrir strætó, hannaðar voru 7 svona nýstárlegar 
biðstöðvar sem allar voru mismunandi. Þetta er ein þeirra.

Dagurinn endaði á bananasplitti, uppáhaldið hans Odds. 
Ég fékk mér auðvitað líka honum til samlætis.

laugardagur, apríl 04, 2015

Úti í náttúrunni

Vinnustofan endaði á gönguferð úti í náttúrunni hér í nágrenni Hannover með Reiner, skólastjóra Waldorfskólans sem fararstjóra sem hluti af hópnum fór í dag. Hinn hlutinn var svo önnum kafinn að hann gaf sér ekki tíma til að taka þátt eða gat það ekki einhverra hluta vegna. 15 manna hópur tók lest til Sonnenborstel sem tók um 30 mínútur og þar gengum við um svæði í um 5 tíma og skoðuðum jökulafurðir, mó, mýri og fugla. Veðrið var okkur hliðhollt og lét sólin sjá sig stóran hluta tímans. Við gengum um skóg þar sem fjöldi stórra trjáa hafði fallið í vindinum um daginn þegar við Oddur fórum í hjólaferðina góðu. Stóðu ræturnar upp í loftið og sást vel hve grunnt þær rista í jarðveginn svo það er ekki að undra að þær láti undan í slíku roki.
Það sem mér er efst í huga eftir þátttökuna í vinnustofunni núna er að við kennarar/foreldrar þurfum að láta til okkar taka og fræða nemendur um viðfangsefni sem tengjast heimskautunum og kynna þeim hve mikilvægu hlutverki þau hafa að gegna á jörðinni varðandi vatnsforða, veðurfari og hvernig þetta tengist loftslagsbreytingum, Það eru þeir sem erfa jörðina og þurfa að takast á við verkefni sem tengjast loftslagsbreytingum og öðrum breytingum sem við erum að sjá núna á jörðinni.  Hvernig gerum við það? Góð spurning. Þessi hópur sem vann núna saman veltir þessu líka fyrir sér og er að leita leiða til að færa heimskautavísindin inn í skólastofuna meira en gert er nú. Verið er að finna styrki til að fræða hjálpa kennurum að mennta og fá fleiri áhugasama í hópinn okkar.

Mótekjubóndabær skoðaður, mörg hundruð 
fermetrar af landi eru þarna teknar undir mótekju.

Nýfallið tré.

Þeir eru flottir þessir!

föstudagur, apríl 03, 2015

Enn á vinnustofunni

Seinni dagurinn á vinnustofunni. Fyrirlestrar hófust um 9 leytið og við vorum mætt tímanlega til að hlusta á fyrirlestur um loftslagsbreytingar á heimskautasvæðunum sem David Carlson, veðurfræðingur og Bandaríkjamaður sem býr í Sviss hélt fyrir okkur. Það eru greinilega miklar breytingar á veðurkerfinu og hafa vísindamenn ekki öruggar skýringar á þeim. Hann sýndi okkur mjög skemmtilega hreyfimynd sem búin var til úr veðurgögnum frá 7 mánaða tímabili 1974 og var athyglisvert að sjá hvernig veðurkerfið hreyfðist og breyttist eftir tímabilum. Við fengum einnig fyrirlestur um hvað er að gerast á norðurheimskautsvæðinu. Þar eru siglingaleiðir að breytast sökum ísleysis og verið er að skipuleggja fjölda ferða langt fram í tímann. Einnig er verið að þjarka um hver eigi heimskautið og hafa jafnvel Rússar hótað að taka þóknun af þeim sem fara um svæðið.
Þá sögðu nokkrir frá því hvað þeir væru að vinna með nemendum sínum í skólunum og þar á meðal sögðu Anna og Ekaterina sem koma frá Siberíu frá sínum aðstæðum og umhverfi og sýndu myndband þar sem Ekaterina spilaði undir á sérkennilegt hljóðfæri.


Hljóðfærið sem Ekaterina spilaði á.


Seinni hluta dagsins fengum við að leika okkur eins og í gær og var Louise þar aðalmanneskjan eins og svo oft áður og sýndi og kenndi okkur fjölda leikja og spila sem gaman væri að prófa með nemendum heima. Allir voru þeir ætlaðir til að vinna með námsefni um heimskautin og náttúruna. Dagurinn endaði svo á að nemendur Waldorfskólans sem sáu um okkur á vinnustofunni, grilluðu handa okkur pylsur og héldu happdrætti en þeir eru að safna fé fyrir ferð til heimskautanna í sumar á vegum "Students on Ice". Hér væri tækifæri fyrir íslenska nemendur að taka þátt.
Þátttakendur á námskeiðinu voru skemmtilegir og glaðlegir og var mjög gaman að kynnast þessu fólki og deila með þeim skoðunum og vinnu. Að fara á svona atburð er á við vítamínsprautu, maður fer fullur af hugmyndum heim og ætlar að gera margt og mikið, svo er bara að vita hvað verður úr því þegar fram líða stundir. Kemur í ljós.

Waldorfskólinn - fullt af smáhúsum með göngustígum á milli þeirra. 


Nemendur að grilla pylsur ofan í mannskapinn.

Elena frá Alaska að kenna okkur að spila "fæðukeðju" spilið.



fimmtudagur, apríl 02, 2015

Vinnustofan

Aðalumræðuefnið í dag á vinnustofunni var umræðan um verðandi umferð um norðurheimskautasvæðið, hverjir ættu að hafa aðgang að því og hverjir ætluðu að eigna sér það. Það væri jafnvel farið að skipuleggja ferðir frá ferðaskrifstofum um svæðið þótt ekki sé hægt að fara þar auðveldlega um ennþá. 
Þá var talað um freðmýrarnar því þær eru að þiðna meira en góðu hófi gegnir og er það óhugnanleg þróun sem lýst var í fyrirlestri í dag. Oddur talaði um jöklasporðamælingar og hvernig jöklarnir væru á hröðu undanhaldi og hvernig bændur, lögfræðingar, læknar og skólakrakkar mældu jökulsporðana. Við fengum líka að leika okkur smá og nota spil þar sem hægt er að læra ýmislegt um náttúruna og hvernig hún hagar sér og er byggð upp. 
Á vinnustofunni eru um 40 manns og það hallar eilítið á fjölda karla í hópnum.  Þetta eru mest kennarar en það eru líka nemendur úr Waldorf skólanum þar sem vinnustofan er haldin og nokkrir vísindamenn.  Flottur og skemmtilegur hópur á öllum aldri sem hefur það sameiginlegt að hafa áhuga á náttúrunni og hvernig hægt er að vernda hana og kenna nemendum um hana og að virða hana og njóta.
Um kvöldið fóru allir út að borða á grískan veitingastað og áttum við þar góða stund saman yfir góðum mat.  Það er ótrúlega gaman að hitta þetta áhugasama fólk og spjalla við það um þessa hluti og mynda sambönd sem ef til vill leiða til einhvers meira, það er aldrei að vita.


Teikning eftir þýskan nemanda sem skreytir vegg vinnustofunnar.


Ekaterina frá Belogorskaya í Siberíu að halda fyrirlestur um heimabæinn sinn. 
Hún skreytti sig með þjóðbúningi þegar hún flutti fyrirlesturinn.

Það snjóaði pínulítið annað slagið yfir daginn, rétt eins og heima.

Elena er að kenna okkur náttúrufræðispilið sem verður gefið út í sumar.

miðvikudagur, apríl 01, 2015

Vinnustofan hefst

Engin afreksverk í dag og þó, eftir á að hyggja þá var það ekki Michael bylurinn heldur Niklas sem var að gera okkur lífið leitt í gær en hann kom daginn á eftir Michael. Þeir koma hér í röðum eins og heima. Það var nú heldur rólegra í dag en í gær og við hjóluðum niður í miðbæ og heimsóttum Landssafnið sem er bæði náttúrugripasafn og málverkasafn.  Þarna var mikið af börnum enda fengu þau að skoða og prófa margt þarna sem var til sýnis. Flott safn. Eftir smáhjólatúr í bænum og heimsókn á kaffihús fórum við í Waldorf skólann þar sem vinnustofan er haldin, skráðum okkur inn og vinnan hófst. Þarna hittum við fólk sem var í Coimbra og var gaman að hitta þau aftur og rifja upp kynnin.  PEI sem stendur fyrir Polar Educators International og hefur það að markmiði að flytja heimskautavísindi inn í skólastofuna. Þetta er mikið hugsjónafólk sem samanstendur af vísindamönnum og kennurum víðs vegar að úr heiminum. Þarna áttum við góða stund með þessu fólki fram eftir kvöldi og einnig voru fluttir fyrirlestrar af heimskautaleiðangrum o.fl. smálegt.  Allt mjög fróðlegt og skemmtilegt. Síðan verður meira á morgun, þá verða sett upp veggspjöld um það sem unnið hefur verið síðan síðast og verð ég með eitt þar sem ég segi frá því sem við höfum verið að vinna með í Flataskóla. Oddur verður einnig með sinn fyrirlestur á morgun. Þetta er nú það helsta sem drifið hefur á daginn í dag. Meira á morgun og hér koma svo nokkrar myndir til að skreyta frásögnina.

Ráðhúsið í Hannover - það var við hliðina á safninu sem við heimsóttum í dag.

Niklas gerði usla víða eins og ég sagði frá í blogginu í gær. 
Þetta sáum við í blaðinu í dag á kaffihúsinu.

Stór kort af heimskautunum voru hengd upp í skólanum í tilefni vinnustofunnar.