föstudagur, september 11, 2015

Lokahjóladagurinn

Við gistum í nótt hjá hefðarfrú í St Neot sem er smáþorp rétt við bæinn Bodmin á Cornwall. Þetta er margra alda gamalt hús sem tengdaforeldrar hennar áttu og búið er að endurnýja. Það var skemmtilegt að koma inn í svona hús og sjá hvernig fólk býr á þessum slóðum. Þetta er kona á okkar aldri og þau hjónin bjuggu þarna ein í húsinu. Hún tekur ekki fleiri en 4 í einu í gistingu en við vorum einu gestirnir að þessu sinni og hún dekraði heldur betur við okkur. Hún bauð upp á te/kaffi og kökur við komuna. Búið var að loka þorpskránni vegna skilnaðar hjóna sem ráku hana svo það var ekkert að fá nema í 5 km fjarlægð og frúin bara bauðst til að aka okkur þangað og ná í okkur aftur, því það hefði verið mál að hjóla í myrkrinu og innifalið í því var ein dágóð brekka upp á við, svo við þáðum akstur með þökkum enda búin að hjóla nóg þann daginn.  Svo var þessi fíni morgunverður borinn fram í setustofu fjölskyldunnar sem dugði okkur vel fram á daginn.
Nú var stefnan tekin á Bodmin og þaðan á Padstow eftir svokölluðum Camel Trail sem er vinsæll göngu- og hjólastigur meðfram ánni Camel. Við hjóluðum um 45 km í dag og eins og endranær var þetta upp og niður, en við erum orðin svo vön þannig hjólaleiðum að við tökum nánast ekkert eftir  því hvort við förum upp eða niður :-).
Við stöldruðum við í Padstow en það er greinilega vinsæll ferðamannastaður því mikill erill var á öllum veitingastöðum og búðum. Þetta er fiskibær rétt út við Atlandshafið og lítil skemmtileg höfn með skrautlegum bátum. Þarna gætir mjög vel fljóðs og fjöru  sem eru margir metrar, en bátarnir lágu á þurru upp á landi þegar við hjóluðum út fjörðinn en voru síðan komnir á flot þegar við fórum aftur til baka. 
Nú sitjum við hér á Pickwick Inn eftir góðan kvöldverð og spilum krossorðaspilið í einhvers konar svítu sem Freyja pantaði handa okkur. Það er bæði baðker og sturta í baðherberginu ásamt sjónvarpi enda nýtti Freyja sér það áðan. Við erum afar hress með ferðina í heild, það gekk allt svo vel og veðrið lék við okkur, en sagt er að í Devon rigni "six days out of seven". Við fengum aðeins smáúða í dag í 5 mínútur á leiðinni að hótelinu í lok dags, svo þessi fullyrðing á ekki við um veðrið eins og það var hjá okkur í þessari ferð.

Lampen Farm þar sem hefðarfrúin ók okkur á matsölustaðinn á Landrovernum.

Séð út um gluggann á hótelinu, en þetta er garður frúarinnar en eiginmaðurinn klippir runnana.


Ruslafötur af ýmsum gerðum stóðu út við vegkantinn.

Götusjálfsala - grænmeti og blóm til sölu.

Svona skilti sáust víða en þetta var hallinn á einni brekkunni sem við fórum upp.

Freyja er greinilega að spá í að kaupa sér villu á Cornwall.

Stíðsmannsstytta á leið okkar

Á Camel slóð á leið til Padstow.

Radon-grjót til umræðu á Camelslóðinni.

Í Padstow á Corwall.


Á kráargötunni í Padstow.


Síminn hennar Freyju varð fyrir smáslysi og er hér lagaður með límbandi en hann var notaður sem fararstjóri í ferðinni.

Baðkerið á Pickwick hótelinu hjá St Issey.

Vaskarnir voru eins í laginu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home