sunnudagur, maí 01, 2011

Strandlengjan - Amalfi

Nú erum við komin heim aftur í snjóinn og slydduna en það var lent í gærkvöldi um miðnætti og ekið heim á nýbónuðum bílnum - svaka lúksús bara.




Við sem sagt fórum upp á Vesúvíus á miðvikudeginum og röltum þar um á gígbarminum í sól og blíðu en þetta er um 1200 m hæð svo það var nú frekar svalt. Það var fróðlegt að sjá hvernig ennþá rauk úr gígbörmunum frá síðasta gosi 1944 og þarna er fólk búið að koma sér fyrir og er að selja minjagripi og leiðbeina fólki um svæðið þrátt fyrir að gos getur hafist í fjallinu án fyrirvara. Eftir fjallgönguna fórum við beint til Pompeii og skoðuðum þar minjar um borg sem var grafin úr 5 m öskulagi og var ótrúlegt að ganga þarna um og sjá minjar um dauðastríð fólksins sem þarna dó en búið er að búa til gifsmót úr holunum sem mynduðust þegar askan lagðist yfir það. Síðan þræddum við ströndina alveg suður frá Sorento til Salerno eða eftir hinni frægu Amalfi stönd sem liggur snarbrött niður í sjó og vegurinn hangir nánast utan í fjallinu og alls staðar er byggt á öllum klettasnösum þar sem hægt er að koma við húsum eða kofum. Þetta er ótrúlegt að aka þarna um og Oddur stóð sig með mikilli prýði og ekki skráma á bílnum í lok ferðar. Við fundum okkur alltaf hótel að kvöldi og vorum ekkert búin að panta neitt þannig að þetta var svolítil óvissuferð í rauninni. En þetta gekk ótrúlega vel allt saman og nú eigum við minningarnar um Ítalíu til að melta með okkur í náinni framtíð. Það er greinilega ekki mikil velmegun þarna, allt frekar fátæklegt og lúið, landbúnaður og ferðaiðnaður aðalatvinnuvegirnir og hýbýli víða hrörleg. En fólkið var glatt og vingjarnlegt og virtist una sér vel. En Ítalía á mikla menningarsögu og það er erfitt og dýrt að halda þessu öllu við svo vel sé. En alltaf er best að búa á Íslandi það er ekki spurning.