laugardagur, apríl 26, 2014

Komin heim

Þá erum við komin heim aftur endurnærð á sál og líkama. Ekki gafst tími til að blogga fyrr en nú. Þetta var frábær ferð og nú er ég alla vega búin að fá bakteríuna og langar að hjóla meira. Síðasti dagurinn var eins ánægjulegur og allir hinir, við tókum okkur góðan tíma til að hjóla þessa km sem eftir voru og skoðuðum klaustur á leiðinni heim og það var eins og allar þessar fornu byggingar með flotta turna og flottan garð. Þetta var eins og lítið þorp með hárri girðingu í kring og greinilega sjálfu sér nægt.
Eftir að hafa fengið sér hressingu í Avignon og skilað hjólunum tókum við hraðlestina síðdegis og komum til Parísar rétt um átta leytið eftir tæplega þriggja tíma ferð. Fundum íbúðina sem Freyja hafði pantað í gegnum AirBnB, hittum þar stúlkuna Radinu sem á íbúðina og hún leiddi okkur inn í allt í tengslum við vistarveruna en við gistum þarna í eina nótt. Íbúðin var á þriðju hæð og engin lyfta svo við fórum í kraftlyftingar og örkuðum upp tröppurnar með töskurnar okkar. Við vorum fegin að vera einni hæð neðan en í hinni íbúðinni svo það var bara Pollýönnuleikur að þessu sinni. Freyja á ekki orð yfir allan þennan farangur sem við erum alltaf að dröslast með. Hún var með eina litla tösku í handfarangri og dró hvert dressið af öðru upp úr henni daglega, það var ótrúlegt hvað kom upp úr svona lítilli tösku. Við þurfum greinilega að skoða listann okkar betur næst þegar við förum og læra af henni hvað á að taka með. Við áttum að fljúga heim um tvö leytið daginn eftir en fengum smá bónus (aftur Pollýönnuleikur) á tímann vegna verkfalls og gátum rölt um París og notið góða veðursins í 3 tíma í viðbót og vorum við þó komin heim um kvöldmatarleytið síðasta vetrardag því það var tveggja tíma munur á tímanum. Freyja hitti vinkonu sína um miðjan dag þegar við fórum en hún átti kvöldflug til Birmingham. Hún á vini í öllum löndum sem hún hittir þegar hún er á ferðinni enda daman búin að ferðast víða um heim og mynda sambönd.
Sem sagt þessi páskaferð var vel heppnuð eins og margar okkar páskaferðir hafa verið áður t.d. til Krítar og Ítalíu. 
Abbaye de Saint-Michel de Frigolet klaustið sem við heimsóttum,

Freyja og Oddur á ferðinni í góða veðrinu.

Á hóteli í Graveston á leiðinni til Avignon síðasta daginn.

Rýnt í kortin, við vorum ekki alveg viss á leiðinni þarna.




mánudagur, apríl 21, 2014

Að villast í Frakklandi


Þriðji dagur búinn og ekki sveik skipulagið frekar en endranær þótt við værum dálitið áttavillt í lok dags og findum ekki hótelið okkar í Graveson, en það tókst nú að lokum með góðri hjálp vegfaranda. Freyja og Oddur æfa sig í frönskunni og tekst bara þó nokkuð að gera sig skiljanleg. Við fengum bara bærilegt veður í dag þrátt fyrir rigningarspá, því sólin lét sjá sig og hitastigið var nálægt 19 stigum svo ekki gátum við kvartað.  Við bættum aðeins við fyrirhugaða ferð og fórum til Arles og þar var nú heldur betur læti í bænum en við sáum kúreka og naut hlaupa eftir götunum. Þar er líka gamalt hringleikahús fra fyrri öldum sem enn er notað við hátíðarhöld eins og í dag. Síðan fórum við til lítils bæjar Tarascon þar sem ekkert var að gerast sjálfsagt allir i Arles á hátíðarhöldunum. Þar fengum okkur hressingu og hjóluðum áfram til Graveson. 50 km voru lagðir að baki í dag í yndislegu umhverfi, eplatré, vínakrar og olífuakrar ásamt hveitiökrum lögðu undir landflæmið svo langt sem augað eygði og hjóluðum við litla sveitavegi að mestu. Fuglasöngurinn gerði okkur lífið ljúft en hann var afar fjölbreyttur og greinilega mikið að gerast hjá þeim núna. Sem sagt veröldin lék við okkur í dag og við nutum hverrar mínútu.
Set með nokkrar myndir til að sýna stemninguna hjá okkur.
Lagt af stað frá Fontvieille um morguninn.










Víða eru leyfar af svona fornminjum þar sem við komum í bæina.



sunnudagur, apríl 20, 2014

Dagur tvö, frá Saint Remy til Fontvieille

Hugsa sér dagur tvö búinn en hann var afar ánægjulegur þrátt fyrir örlítið regn af og til en aldrei þó svo mikið að við rennblotnuðum. Hitastigið var ekki hátt eða svoleiðis en það var samt vel yfir 16 stig. Við hjóluðum um 40 km að þessu sinni. Við lögðum af stað rétt fyrir 10 frá Saint Remy og komum rúmlega 5 til Fontvieille með tveggja tíma stoppi í virkisborginni Les Baux de Provence. Það er bær upp á háum kletti sem hafði lengi vel aðeins einn uppgang og er með múra og háa kletta allt um kring. Við þurftum að leggja hjólunum fyrir neðan hann og ganga upp stiga upp i um 900 m hæð. Þar var sviðsett smáleikrit með sverðaglamri (hvernig menn börðust í gamla daga). Við gengum um svæðið eftir þröngu götunum með mörgu litlu búðunum þar sem verslunareigendur reyndu að selja ferðamönnunum minjagripi. Þarna búa um 400 manns að staðaldri, þarna er miðaldakastali eða virki sem fannst aftur um 1820 en var byggður á 12. öld. Er þetta einn helsti ferðamannastaður hér um slóðir og oftast ekki hægt að þverfóta fyrir fólki yfir sumarið og ráðlagt í bókinni sem við erum með að heimsækja hann að vori eða að hausti, svo við vorum greinilega á réttum tíma en samt var margt um manninn enda páskadagur. Á morgun ætlum við til Arles, Tarascon og gista í Graveson síðustu nóttina áður en við ljúkum hjólaferðalaginu og tökum lestina aftur til Parísar á leið heim frá Avignon
Læt nokkrar myndir fylgja með að þesu sinni.

Áð við vínakra og í fjarska sést fjallgarðurinn Les Alpilles sem við hjóluðum yfir á leiðinni í dag.

Gamli maðurinn og asninn hans á förnum vegi.

Les Baux, virkisbærinn í s-Frakklandi




laugardagur, apríl 19, 2014

Saint Rémy -1. hjóladagurinn

Dagurinn lofaði góðu, sólin skein og ekki ský á himni þegar við vöknuðum í morgun en það var skratti kalt og þó nokkur gola. Við sóttum hjólin snemma um morguninn og fórum svo að skoða páfahöllina og það var engin röð þegar við komum svo við renndum okkur í gegnum þessi glæsilegu húsakynni sem byggð voru snemma á 14. öld. Við löfðum síðan af stað upp úr 12 og dagleiðin varð 30 km og komum við til hótelsins sem við gistum í núna um 4 leytið. Hjólaferðin var dásamleg, golan í bakið og leiðin flott. Hjólað var fram hjá vínekrum, olífuekrum og fleiru sveitalegu sem við kunnum ekki skil á og nutum við heldur betur lífsins eða eins og Freyja sagði við notuðum gjörhyglina. Töskurnar voru komnar á hótelið þegar við komum svo við komum okkur fyrir og gengum síðan í bæinn til að líta á mannlífið og umhverfið. Þetta er lítill bær með 10 þús. íbúum og það er mikið um rómverskar fornminjar sem tengjast sögu bæjarins. Um kvöldið fengum við 5 réttaða máltíð við hvítdúkað borð og var maturinn algjört sælgæti. Svo nú liggjum við nánast afvelta og spjöllum og njótum lífsins. Er hægt að hafa betra?
Til að gefa ykkur smáinnsýn í lífið hérna hjá okkur þá læt ég nokkrar myndir fylgja með í lokin.









föstudagur, apríl 18, 2014

Avignon

Þá erum komin til Avignon í Frakklandi. Það tók tæpar þrjár klukkustundir að komast frá París með hraðlest á svæðið. Í Avignon búa rúmlega hálf milljón manns. Við gengum um svæðið innan bæjarmúranna eftir að við komum og tók það ekki langan tíma, við skoðuðum páfahöllina sem er nú helsta aðdráttaraflið hérna. Hún er notuð fyrir ráðstefnur og var byggð á 14. öld og er stærsta gotneska höllin í Evrópu. Áin Ron rennur meðfram bænum breið og falleg með mörgum brúm. Þar er hálf brú sem liggur út í ána sem byggð var fyrst á 13. öld og endurbyggð síðan mörgum sinnum aftur vegna flóðaeyðileggingar fram á 17. öld. Hún er nú ein af vinsælum ferðamannastöðum hér um slóðir. Freyja er mjög dugleg að finna góða veitingastaði sem tripadviser ráðleggur og er vel gert við okkur í mat daglega. Við erum að verða búttuð og sælleg og eins gott að hjólatúrinn byrji á morgun.
Hér eru nokkrar myndir frá deginum í dag þar sem við erum á röltinu.





fimmtudagur, apríl 17, 2014

Rölt í París

Í dag var rölt um París og bara látið ráða hvert farið var, en stefnan var tekin á Luxemborgargarðinn en okkur líkar mjög vel við fallega garða með flottum trjám þar sem hægt er að horfa vítt yfir. Ekki sveik garðurinn og var hann reyndar fullur af fólki sem angraði okkur ekkert. Sest var á kaffihús a.m.k. tvisvar til að fá sér hressingu yfir daginn og við bara nutum lífsins í botn. Við gengum meðfram ánni Signu, skoðuðum hjá Notre Dam en fórum ekki inn, einnig komum við að Louvre safninu og horfðum á margra metra langa röð sem beið eftir að komast inn. Þetta var afslappaður og notalegur dagur sem við vorum mjög ánægð með. Á morgun tökum við hraðlestina til Avignon og hefjum hjólatúrinn.



miðvikudagur, apríl 16, 2014

Tvisvar í öfuga átt

Dagurinn í dag var tileinkaður Versölum þar sem Lúðvíkarnir nr. 14, 15 og 16. bjuggu á 15., 16.og 17. öld. Ekkert okkar hafði komið þangað áður svo við vorum afar eftirvæntingarfull. Veðrið lék svo sannarlega við okkar en sólin fór ekki a bak við ský allan daginn svo Oddur fékk að kenna á því en húfan gleymdist heima. Nú vitum við heilmikið um Maríu Antoníettu konu Lúðvíks 16. en hún kom frá Austurríki og gefin Lúðvík sem eiginkona til að tryggja friðinn milli landanna. Á leiðinni þangað tókst okkur að taka lestina í öfuga átt og einnig tilbaka þá fórum við í öfuga átt í Metrónum. Nú hljótum við að vera orðin vel sjóuð í þessum ferðamáta. En það kemur í ljós :-)
Versalir sviku ekki, þvílíkt flott svæði og við skoðuðum líka hallirnar þeirra Maríu og Lúðvíks og þar var greinilega ekkert sparað. 

Séð yfir garðinn í Versölum.

Bak við Freyju sjáum við höllina hans Lúðvíks.


þriðjudagur, apríl 15, 2014

París í dag

Það var farið snemma á fætur í morgun eins og venjulega þegar flogið er frá Íslandi en fyrir vikið vorum við komin eftir þriggja tíma flug til Parísar en þar sem klukkan er tveimur tímum á undan hér var hún rétt um eitt leytið. Sól og tíu stiga hiti reyndist vera í borginni svo það væsti ekki um okkur. Freyja var búin að leigja íbúð fyrir okkur í miðborginni rétt við kirkju hins heilaga hjarta. Við tókum lest og "metróinn" til að komast á staðinn sem gekk mjög vel og var eins og við höfum aldrei gert annað. Anna Maria eigandi íbúðarinnar tók á móti okkur og sýndi okkur svona hitt og þetta í henni. Íbúðin er tveggja herbergja upp á fjórðu hæð og engin lyfta :-( Dagurinn fór svo í rölt og nánasta umhverfi skoðað eins og heilaga kirkjan og mannlífið á götunum.

Flugvöllurinn í París Charles de Gaulle

mánudagur, apríl 14, 2014

Hjólaferð í Frakklandi

Nú er fyrirhuguð hjólaferð í Frakklandi með viðkomu í París en þar á að skoða listasöfn og fleira sem ekki náðist í síðustu heimsókn. Freyja og Oddur og ég ætlum síðan til Avignon í Suðurhluta Frakklands og hjóla þar í fjóra daga um svæðið. Við Oddur leggjum í hann á morgun en Freyja kemur frá Birmingham yfir sundið og hittir okkur í París. Ég mun síðan setja hér á síðuna það sem á dagana drífur eftir því sem samband næst og ég kemst í tölvu. Nú er bara að pakka og muna eftir öllu og svo að vakna snemma til að fljúgja beint til Parísar.