miðvikudagur, október 27, 2010

Vedersöefterskole

Í dag fórum við snemma í skólann og hlustuðum á morgunsöng sem er á hverjum degi í Stadil skóla. Sungin eru tvö lög og stundum þegar einhver á afmæli þá er sunginn afmælissöngurinn líka og hrópað fjórum sinnum húrra fyrir afmælisbarninu.
Svo stjórnuðum við leikjum í leikfimisalnum en það var svo mikil rigning og rok að það var ekki hundi út sigandi. Við kenndum þeim tvo leiki sem ekki eru reyndar leiknir lengur heima en það var að "hoppa yfir legg" og "að reisa horgemling". Gekk þetta svona og svona en þeim þótti greinilega gaman. Rakel kenndi þeim klappið okkar til að fá athygli og hljóð og það svínvirkaði. Síðan sýndum við þeim leikinn "köttur og mús" og var mikið fjör í salnum þangað til gulræturnar komu en þá fóru allir í einfalda röð og tóku sér gulrót úr stórri fötu sem kennarinn hélt á (sjá mynd).


Eftir það var haldinn fundur í hópnum og fórum við yfir Twinspace vefsíðuna, skipulögðum bæði Íslandsferð og Lettlands/Litháenferð. Lettarnir kenndu okkur skemmtilegar föndurhugmyndir með því að nota servéttur.
Síðan var farið inn í Ringköbing sem er lítill gamall bær hér í nágrenninu og rölt um hann og kíkt í búðir. Um kvöldið héldu Lettarnir okkur hátíðlega máltíð þar sem boðið var upp á sérrétti frá Lettlandi og farið í leik og hlustað á lettneska tónlist. Var þetta allt hin besta skemmtun og við áttum notaleg samskipti og sögðum frá hvers annars siðum og venjum.



þriðjudagur, október 26, 2010

Óskarsteinar og danskennsla


Í dag var skemmtilegur dagur. Við vorum að kenna krökkunum í Stadil skóla að þæfa utan um óskasteina og komum með allt hráefnið að heiman. Steinarnir (4 kg í töskunni hennar Rögnu) komu frá Djúpalónssandi. Okkur fannst að nemendum þætti þetta skemmtilegt. Við héldum Dönum, Lettum og Litháum veislu um kvöldið og komum með hangikjöt, malt, appelsín og grænar baunir (í töskunni hjá Rögnu) með okkur en rauðkálið og kartöflurnar voru keyptar í búð í Danmörku. Í eftirrétt fengu þau döðluköku með karamellusósu og í forrétt var aspassúpa. Þótti okkur að útlendingunum þætti þetta gott og sumir fengu sér aftur af kjötinu :-)



Um kvöldið var svo farið til Velling og heimsóttur hópur sem hefur dansað saman í 30 ár og sýnt víða um heiminn. Þau voru flínk. En við kenndum þeim að dansa víkivaka og syngja um hann Ólaf liljurós en þau tóku nú ekki hraustlega undir en þau gátu tekið sporið. Lettarnir nærri sprengdu þau því þeirra dansar eru með svo mikil hopp og hí. Litháarnir voru aðeins skárri í hoppunum og sáu að hópurinn hafði ekki meira úthald svo þeir voru bara stutt.

Við vorum ánægð með daginn og hópurinn í sumarhúsinu er að koma til, enda var honum gefið opalskot eftir heimkomuna og brosið er aðeins farið að birtast endrum og eins. En meira á morgun það er orðið áliðið og ég er ein á fótum og best að koma sér í háttinn eins og hinar konurnar í húsinu.

mánudagur, október 25, 2010

Jótland og menningarmunur






Jæja þá er maður kominn til Jótlands í verkefnavinnu með Lettum, Litháum og Dönum um regnboga menninganna. Það má með sanni segja að menningarmunur sé mikill og margt skrýtið sem kemur upp á þegar svona þjóðarbrot koma saman til að vinna verkefni. Það er þónokkur lífsreynsla að vinna með fólki að verkefnum sem skilur ekki nokkurt tungumál nema sitt eigið eins og meira en helmingur þátttakenda og stjórnandinn gerir en aðrir ekki. Við erum hérna samankomnar 10 konur, þrjár frá Lettlandi, 3 frá Litháen og 4 frá Íslandi að vinna með tveimur Dönum í Stadil skóla á Jótlandi. Verkefnið gengur úr á menningu landanna og kallast Regnbogi menninganna. Fyrsti dagurinn er liðinn og við erum að sjóða hangikjöt til að bjóða í veislu annað kvöld. Í dag fengum við upplýsingar frá skólaskrifstofunni í Ringköbing - Skern um hvernig skólakerfið í Danmörku er uppbyggt og var það mjög athyglisvert og margt kom þar fram sem við ætlum að flytja heim til skoðunar.



Síðan fórum við á Bork-víkingasafnið og fengum þar að skoða það sem safnið hefur upp á að bjóða til skólakennslu. Einnig var þar kona sem er að vinna mastersritgerð um það hvernig söfn og skólar vinna saman að kennslu nemenda. Hún ætlar að koma í heimsókn til okkar á morgun í matinn og taka við okkur viðtal um hvernig kennarar líta á safnkennslu og fleira í þeim dúr.
Okkur var boðið í fleskesteg og rödkål í skólanum í kvöld og epladesert sem mamma eins kennarans bjó til. Stadil skóli er mjög lítill skóli með nemendum á aldrinum 4 til 11 ára og eru aðeins 84 nemendur í skólanum og 10 kennarar. Voða heimilislegt.



miðvikudagur, október 20, 2010

Uppsalir

Jæja þá er konan komin aftur til Uppsala í Svíþjóð eftir 20 ára fjarveru. En nú er erindið að Oddur er að halda fyrirlestra um fræðin sem hann var að læra um fyrir 40 árum síðan og bauð hann konu sinni með. Tveir fyrirlestrar búnir og sá þriðji á morgun. Heimir Pálsson kallaði hann til og var hann að keyra saman hugvísindi og raunvísindi þ.e.a.s. orð sem tengjast raunvísindum og náttúru Íslands. Þótti þeim aðsókn hin besta og voru mjög ánægðir með þetta allt saman. En Reynir Böðvarsson talaði um jarðskjálfta en Oddur talaði um þetta sýnilega þegar jarðskjálftar og eldgos verða. Þá talaði Veturliði Óskarsson um málfræðiþáttinn, hvernig þjóð í nýju landi lagar mál sitt að nýstárlegri náttúru, og Heimir sjálfur um bókmenntirnar og hvernig orðræðan tengdist inn í þær.
Á morgun talar Oddur meira um vísindalega þáttinn frekar en fagurfræðilega þáttinn.
Við vorum svo lánsöm að fá lánuð hjól hjá þeim mætu hjónum Fredrik og Birnu og einnig skutu þau yfir okkur húsaskjóli ásamt því að stjana við okkur á alla lund með hlýjum fötum og endurskinsmerkjum. En það er svo sannarlega kominn vetur hér í Svíþjóð og veitir ekki af að hlúa að Íslendingum sem hafa ekki fengið að þefa að vetrinum enn heima á Fróni.


Á myndinni sjáið þið blokkina á Blodstensvägen þar sem við bjuggum með Finn nýfæddan á 2. hæð. Það var allt nákvæmlega eins og þegar við vorum þar bara aðeins pínulítið lúið svona hér og þar.
Í dag fengum við okkur græna prinsessutertu á kaffi Ofvandals og var hún námkvæmlega eins á bragðið og hérna um árið. Við fórum einnig inn í háskólann og settumst á bekkina í "Aulan" þar sem við vorum fyrir 40 árum. Vá það er varla að maður þori að nefna þennan árafjölda því það er eins og við höfum verið hér í gær.




Annars erum við búin að hjóla um Uppsalabæinn og skoða fyrrum vistarverur og ýmsa góða staði þar sem við vorum á árunum. Einnig litum við inn á nýja staði eins og tónlistarhúsið við brautarstöðina (sjá mynd) en það er svona eins og Harpan og Hofið á Akureyri deiluefni vegna kostnaðar og óráðsíu. En hér stöndum við á efstu hæð og horfum yfir á höllina og kirkjuna og niður á mjög flotta stétt með myndum af tónlistarmönnum (sjá mynd).






Malta september 2010




Ég fór í námsferð til Möltu í september. Var ég þar í viku á námskeiði um hvernig er hægt að nýta tæknina í skólastarfi. Það voru rúmlega fjörutíu þátttakendur á námskeiðinu frá sextán löndum. Fékk ég styrk úr sjóðum Comeníusar til að greiða ferðina. Með mér fóru tveir kennsluráðgjafar úr Garðabæ og einn deildarstjóri í upplýsingatækni úr Reykjavík.



Var þetta afar fróðleg og lærdómsrík ferð sem ég er enn að vinna úr. En meiningin er að miðla þessu smátt og smátt til kennara í skólanum.



Við lærðum ekki á strætókerfið í landinu. Það er afar flókið og óreglulegt. Vagnirnir eru margir gamlir Reó-Studebaker sennilega frá stríðsárunum og menguðu mikið. Það var yfirleitt alltaf einhver gola sem feykti menguninni út á haf sem betur fer. Sólin skein án afláts alla daga og var gott að koma heima í ringinguna og svalann.


Einnig urðum við reynslunni ríkari þegar við fórum í "sight seeing" túr um eyjuna og urðum strandaglópar, vagnarnir voru hættir að ganga og við þurftum að taka "strætó" heim á hótel aftur. Þá vorum við verulega spældar. Enda ekki búin að fara nema hálfan hring og auðvitað það skemmtilegasta eftir held ég. Hérna er ég að bíða eftir vagninum sem kom aldrei.




Þetta eru stöllurnar sem voru með mér á námskeiðinu. En það eru þessar með gleraugun og heita Elísabet, Þórunn og Guðrún.