þriðjudagur, september 27, 2005

Þriðjudagurinn

Jæja nú er þetta allt að koma hjá strákunum. Allir komnir með bloggsíðu og byrjaðir að blogga. Hlakka til að sjá bloggið þeirra í dag. Eftir nokkur ár verður gaman að lesa það sem stendur hér og er skrifað í önnum skóladagsins. Aldrei að vita hvort það verða læknar eða lögfræðingar sem lesa sín eigin skrif af bloggsíðunum:-)

mánudagur, september 19, 2005

Mánudagurinn

Mánudagur aftur. Sólin skín og veður er ljúft. Reyndar farið að kólna svolítið en það er ekkert verra. Lífið gengur sinn vanagang. Maður hespaði af einu matarboði um helgina. Svo sat ég auðvitað við tölvuna eins og venjulega það má ekki af henni sjá, ég er að skrifa rannsóknaráætlun. Göngutúrarnir fengu sinn tíma og var nú bara farið um næsta nágrenni í þetta sinn, svona Elliðaárdalinn og um Seljahverfið. Það er frekar hressandi að skella sér svona út á íþróttaskónum og rölta smá. Einnig skutumst við hjónin í heimsókn til Óttars litla en hann var að fá nýtt rúm því hitt var orðið of lítið og var hann heldur glaður og sagði að rúmið sitt væri jafnlagt og rúmið hjá mömmu og pabba hans.

mánudagur, september 12, 2005

Myndaalbúm

Jæja þá er ég búin að búa til myndaalbúm með nokkrum myndum í til að sýna á netinu.
Hér getur þú smellt til að skoða.
Annars sýnist mér að þetta renni út þann 26. september og þá verð ég að ákveða hvað ég geri. Kaupi ég mér aðgang fyrir myndirnar mínar eða hvað? Leggst undir gærufeld og hugsa málið:-)

föstudagur, september 09, 2005

Föstudagur

Jæja þá er að koma helgi enn einu sinni. Alltaf notalegt að hugsa til þess að fá að sofa út og lesa góða bók, ég var einmitt að fá Uglupakkann góða í gær og sá þar þrjár mjög góðar bækur. Er reyndar búin að lesa eina eða Karitas án titils - skrýtinn titill a tarna:-) En hinar voru spennubækur sem alltaf er gaman að gleyma sér yfir sérstaklega þegar það rignir úti og mann langar ekki að fara út.

þriðjudagur, september 06, 2005

Hvað má skrifa og hvað má ekki skrifa?

Jæja eftir að hafa lesið bloggið hennar Hörpu þá þorir maður varla að láta neitt flakka um starfið og samskipti sín við nemendur. Mér finnst reyndar skemmtilegt að fá svona uppákomur til að hressa upp á hversdagsleikann. Eruð þið ekki sammála? Það væri nú leiðinlegt ef allir væru sammála og enginn væri að tuða.
Harpa er reyndar mjög skemmtilegur tuðari og það er gaman að lesa bloggið hennar.

mánudagur, september 05, 2005

Mánudagurinn

Jæja þá er kominn mánudagur og það er rigning.
Ég var að setja inn hjá mér krækjur á strákana í tæknimenntinni svo nú getið þið kíkt á hvað þeir eru að blogga.
Strákar verið þið snjallir að blogga og bloggið ekki neina vitleysu segir kennarinn. Það verður gaman að fylgjast með þeim, sumir eru að skrifa ævintýri og að ég held framhaldssögur en sannleikurinn leynist inn á milli línanna:-)

sunnudagur, september 04, 2005

Esjan

Í gær heillaði Esjan svo að ég varð að skreppa upp á hana. Það tók mig klukkutíma og korter að komast upp á Þverfellið. Á leiðinni mætti ég tveimur fyrrverandi nemendum mínum sem mér fannst mjög skemmtilegt, því ég hélt að ungviðið væri ekki svona "galið" að vera að klífa fjöll bara til að klífa fjöll. En kannski liggur eitthvað á bak við???
Útsýnið var frábært, einhver þarna uppi nefndi Eyjafjallajökul og fleiri fjöll sem hann sagðist sjá. Þarna var fólk á öllum aldri ég held næstum allt að níræðu:-) ....og allir voru brosandi.... hvað segir það.... "jú mér tókst það":-)
Þegar heim var komið beið þetta venjulega á laugardögum, gólfþvottur og svoleiðis sem maður hespaði af ásamt því að tína rifsberin af trjánum svo þau færu ekki í hund og kött og fugla. Sultan verður að vera heimatilbúin annað er ekki hægt á góðum bæjum.
Fáir komu í matinn um kvöldið en rættist þó úr þegar bóndinn kom fljúgandi frá Egilsstöðum mjög óvænt og náði í síðustu leyfarnar eftir okkur mæðgurnar tvær.
Konan var þreytt og fór snemma í háttinn.