þriðjudagur, mars 31, 2015

Íslendingar eru víkingar!!

Ekki er of sögum sagt af áræði og víkingablóði Íslendinga það virðist blunda í okkur enn þann dag í dag. Við hjónin leigðum okkur hjól í gær og í dag var svo lagt af stað út á landsbyggðina eftir að hafa lagst yfir kortið og fundið nokkra smábæi sem gaman væri að skoða. Þetta gekk mjög vel framan af þar sem vindurinn var í bakið og sólin skein annað slagið á okkur en svo versnaði í því  þegar leið á daginn og vindurhviðurnar fóru upp í 29 m á sek. Oddur snerist einu sinni í hring og ég fór oft út af stígnum. Þetta ku vera angi af Mikael fellibylnum sem geisað hefur um Evrópu undanfarið og gert fólkinu lífið leitt. Hjólaðir voru tæplega 50 km við þessar aðstæður og var frúin heldur slöpp þegar heim kom. Við hjóluðum nánast allan tímann með vindinn á móti okkur. En heim náðum við og vorum heldur hress með okkur af þessum árangri. Krafturinn var ekki meiri en svo að við rétt skriðum út í næsta veitingastað sem heitir því fallega nafni "Burger King" og keyptum okkur í svanginn. Ég held að þetta sé í 3 sinn sem ég fer á svona stað á ævinni. Annars er gróðurinn að springa hér út, víðikettlingar eru komnir á trén og annað brum, skordýrin sjást víða þrátt fyrir rokið og er greinilega ekki langt í vorið.

Skilti fuku um koll....
... eða skekktust...

 ... trén brotnuðu...
... og við fengum okkur kaffi og meðíð....
Beðið af sér í skjóli á meðan hryðjan gengur yfir.


mánudagur, mars 30, 2015

Hannóver 30. mars 2015

Þá er maður kominn á flakk aftur. Í þetta sinn var stefnan tekin á Hannover í Þýskalandi. Þar eru vinnubúðir sem við Oddur ætlum að taka þátt í um PEI sem útleggst Polar Educators International. Það eru 15 ár síðan það var stofnað af áhugasömum vísindamönnum og kennurum og fórum við á samskonar vinnustofu í Coimbra í Portúgal fyrir tveimur árum. Síðan þá hef ég tekið þátt í einu eTwinningverkefni þar sem þetta efni var tekið fyrir í tveimur skólum á Ítalíu og í Flataskóla þar sem ég vinn. Fyrra árið vann ég með 7. bekkja kennurum og í ár með 6. bekkja kennurum og voru nemendur mjög áhugasamir í báðum hópum. Nú er ég spennt að heyra eitthvað nýtt í þetta skipti til að færa heim til okkar.  Oddur ætlar að vera með fyrirlestur um sporðamælingar meðal leikmanna og skólanemenda og ég verð með veggspjald þar sem ég sýni hvað við vorum að gera í okkar skóla. 
Vinnustofan byrjar á miðvikudag og stendur frá á laugardag en við ákváðum að koma aðeins fyrr hingað og skoða okkur um og eiga smá frí áður en við hefjumst handa á miðvikudag. 
Í gær fór allur dagurinn að koma sér á staðinn frá því að við fórum frá Íslandi kl. hálf fimm í rútuna og þangað til við komum á hótelið um hálf átta leytið. Eftir þriggja tíma flug til Frankfurt tók við lestarferð í tæplega 3 tíma og svo leigubíll í 25 mínútur frá lestarstöðinni.
Í dag fórum við í miðbæinn að leita okkur að hjólum og skoða okkur um og síðan hjóluðum við aðeins um einhvern hluta Hannover áður en við fórum á hótelið. Það gekk á með éljum/rigningu og sól svo við þurftum annað slagið að leita í skjól en það var gott á milli. Það er ekki hlýtt hér eða bara um 10 gráður (svo það var skrýtið með élin) en sólin er byrjuð að hita aðeins og gott í skjóli.
Það sem sagt væsir ekki um okkur og við erum í fríi engin klukka að reka á eftir okkur sem er alveg indælt.
Nú erum við að horfa á hryllingsmynd um stríðið og Hitler í sjónvarpinu og höfum það mjög náðugt.
Meira frá okkur á morgun. Nú erum við ekki á Kúbu, hér er netsamband á hótelinu sem er mjög þægilegt fyrir svona tölvufíkil eins og mig.

Oddur við hliðina á orkulistaverki, en vindurinn snýr kúlunum
eftir því hvernig stendur á honum. Tvær snerust að þessu sinni.
Listaverkið stendur á götunni fyrir fram aðaljárnbrautarstöðina.

Svona bakkelsesborð var víða í boði og reynt var að freista manns,
en það er svo kalt að það er ekkert freistandi að borða úti núna, 
best að sitja við glugga og láta sólina skína í gegn.

mánudagur, mars 23, 2015

3. mars - flogið heim

Ekki var farið um morguninn og margir orðnir dálítið órólegir því vinnan beið og ekkert áhreinu hvernær varahlutirnir kæmu til eyjarinnar. En við vorum á 5 stjörnu hóteli með allt innifalið og reyndum að dunda okkur á ströndinni og sólbrenna svolítið á bakinu og svoleiðis, enda lítið við að vera nema sjórinn og ströndin. Þurfum að vera við hótelið til að fá tilkynningar um hvenær við mundum fara út á völl. Svo loksins kom tilkynningin að brottför yrði um sex leytið síðdegis. Einkaflugvél var send eftir súrefniskútunum sem flugstjórarnir þurftu að hafa á leiðinni heim en þeir gömlu höfðu tæmst.
Lent var um 8 leytið um morguninn í Keflavík eftir vel heppnaða og skemmtilega ferð sem var eitt ævintýri frá upphafi til enda.


2. mars - aftur á leið heim


Fórum út á flugvöll á leið heim en þá var vélin biluð og ferðinni var frestað til morguns. Öllum farþegum var ekið á fimm stjörnu hótel á Varadero (annað en í gær) þar sem allt er innifalið svo það var um að gera að njóta. Við Oddur fengum okkur göngutúr á ströndinni eftir góðan hádegisverð og nutum góða veðursins. Það á að leggja í hann klukkan hálf sex í fyrramálið svo við tókum nóttina snemma. Það er algjör Íslendinganýlenda hér á hótelinu enda 185 manns sem áttu að fljúga heim. Maður kannast við marga bæði unga og gamla og allir hafa sögur að segja af dvölinni og margar eru misvísandi við það sem okkur hefur verið sagt en látum það liggja milli mála. Það var ekki annað að gera en að slappa af enda hjólin komin í kassana og við nutum hitans og sólarinnar enda kuldi í loftinu heima.


1. mars - á leið heim


Farið frá Havanna til Varadero í rútu. Í morgun var farið frá Havanna tíl Varadero strax eftir morgunmat. Hótelið í Varadero var með "all included" sem þýðir að allt sem maður þurfti í mat og drykk var til reiðu án greiðslu. Eftir að við höfðum fengið okkur hádegisverð hjóluðum við eftir ströndinni og skoðuðum okkur um. Þetta er algjör strandlífsstaður með hvítri baðströnd svo langt sem augað eygir í báðar áttir á ströndinni. Franskur auðmaður hafði átt þennan tanga og byggt sér flotta villu þar sem var gerð upptæk af þeim Castrobræðrum og svæðið gert að ferðamannastað. Hótel og minjagripabúðir raða sér meðfram ströndinni og kúbönsk tónlist hljómar í loftinu. Eftir hjólatúrinn voru hjólin tekin í sundur og sett í kassa og inn í rútu. Við áttum góða stund með hópnum um kvöldið og var það nokkurs konar kveðjustund. Var fólk sammála um að ferðin hefði verið góð og sumir eru áfjáðir í að fara aftur og læra meiri spænsku áður. Sighvatur var orðinn betri í fæti og hjólaði smáspöl með okkur svona til að bæta sér upp það sem hann missti af hjólatúrnum í gær.





28. febrúar


Í dag hjóluðum við um 50 km og fórum við í gegnum Mariel sem er stærsta hafnarborg Kúbu. Það er mikið iðnaðarsvæði tengt henni svo íbúar þarna anda að sér mikilli mengun í viðbót við alla mengunina úr gömlu bílunum sem strokurinn stendur aftur úr. Við hjóluðum meðfram sjónum í áttina að Havanna og hlutum drjúgan mótvind. Við fórum niður að sjónum í einu stoppinu og óðum í fjörunni og var Sighvatur svo óheppinn að vera bitinn af svokölluðum ljónafiski og blæddi mikið úr sárinu síðan bólgnaði hann allur upp á tánni og leið illa svo það var ákveðið að skella sér með hann í bæinn og leita læknis. Hann fékk bót meina sinna og má ekki borða fisk, sítrusávexti og mjólkurvörur næstu viku meðan eitrið fer úr líkamanum. Sjö af ellefu hjóluðu á hótelið í Havanna sem við gistum fyrst þegar við komum og fengum við góða aðstoð rútubílstjórans en hann hugsaði vel um okkur á leiðinni, frábær karl. Um kvöldið eftir smádvöl á barnum við sundlaugina úti í garði fórum við á veitingastað (einka veitingastað) og fengum okkur að borða. Flestir fengu sér humar og bragðaðist þetta bara vel. En það er ekki langt síðan að Kúbverjar fengu að stofna veitingastað sjálfir sem þeir reka án aðstoðar ríkisins. Eru þónokkrir slíkir veitingastaðir til núna á Kúbu.

Konurnar í hópnum


Fjölskyldan í hópnum

Vinjales - 27. febrúar

Í dag heimsóttum við Vinjales dalinn og  Love and Hope community fyrir mongólíta/vangefin börn og fullorðna en það er skóli með rúmlega 20 nemenda á aldrinum 9 ára til 58 ára.
Við hjóluðum í Vanjeles dalnum sem er um 12 km og til baka. Við heimsóttum vindlaverksmiðuna hans Petros en hann býr hér rétt í nágrenni hótelsins og vefur 80 - 100 vindla á dag. Hann hefur meira að segja vafið vindil fyrir páfann því hann sagðist eiga vin sem er vinur páfans. Hann sýndi okkur hvernig hann býr til vindil og síðan fengu þeir sem vildu að prófa. Það var mjög gaman að skoða Vinjales dalinn en hann er umkringdur hvítum molotes sem eru kalksteinsfjöll frá Júratímabilinu sem rigning og veður hafa mótað til. Fídel lét á sínum tíma mála risastórt málverk á klettana til að auka ferðamannastrauminn og var það ekki í þökk heimamanna.

Síðan hjóluðum við að helli nokkrum sem við ætluðum að skoða og fara í bátasiglingu en það var of löng biðröð sem beið eftir að fara í skoðunarferð um hellinn svo við nenntum ekki að bíða og fórum í annan helli skammt frá þar sem þrælar sem höfðu flúið frá sykurreyrplantekrum földu sig.


Við ferðumst á tveimur rútum þar sem önnur er fyrir okkur en hin fyrir hjólin og er þeim troðið inn í hana þegar við erum ekki að hjóla og þurfum að ná einhverri áætlaðri dagskrá sem bíðu rokkar. Við hefðum viljað hjóla meira en við höfum gert og höfum við látið það í ljósi svo vonandi fáum við að hjóla meira þessa tvo daga sem eftir eru.

Þetta hefur verið ævintýri líkast að kynnast Kúbu á þennan hátt og upplifa með leiðsögumanninum og bílstjórunum tveimur lífið og tilveruna í landinu og spyrja þá þegar maður vill fá að vita eitthvað.  T.d. fá kennarar 10 CUC á mánuði sem er um 1500 kr. En þeir fá skömmtunarmiða fyrir öllum nauðsynjum sem þeir þurfa og ókeypis læknisþjónustu, lyf, menntun svo eitthvað sé nefnt þannig að kannski þurfa þeir ekki á meiru að halda????? Eða hvað?????


Landbúnaðar- og tóbaksframleiðendur fá t.d. "allt" sem þeir þurfa frá ríkinu til framleiðslunnar og einnig fá þeir laun en ríkið fær svo ákveðinn hluta af framleiðslunni og allt sem er framleitt umfram það fær framleiðandinn að nota til eigin þarfa eða selja það öðrum. Er þetta ekki hvatning til að gera vel?????
Það er tvenns konar miðill í landinu CUC (1 US dollari eða 130 kr.) og svo pesos sem er 24 sinnum verðmeiri. það kostar t.d. ekki nema 80 kr. fyrir foreldra að greiða mat fyrir barnið í skólann.










San Diago De Los Banos

26. febrúar 
Í dag fórum við í orkedíugarðinn þar sem við fengum leiðsögn garðyrkjufræðings. Það var mjög svo fróðlegt og upplýsandi. Þarna var að finna mörg hundruð tegunda orkidea sem eru aðfluttar víðsvegar að úr heiminum. Einnig var þarna mikill fjöldi trjátegunda og annarra jurta sem eru notaðar sem skraut í garðinum. Eftir það skoðuðum við foss en það var ekki mikið vatn í honum vegna þurrka en rjóðrið var fallegt og friðsælt og ekki þurftum við að kvarta yfir veðrinu en það var reyndar mistur eða þoka um morguninn sem fljótleg vék fyrir sólinni og hitinn var rétt um 30 stig C. EFtir það voru hjólin sett í rútuna og ekið af stað til næsta dvalarstaðar sem var SAN Diego de Los Banos sem staðsett er við fjöllin Sierra Fel Rosario og gistum við á hótel Mirador. Það varð smámisskilningur hjá okkur og leiðsögumannsins en það var á áætlun að við ætluðum að hjóla hluta leiðarinnar en fararstjórinn misskildi og ók beint á hótelið án þess að stoppa. Þannig að við hjóluðum í nágrenninu út í fuglagarð og trjágarð og komum svo við á leiðinni til baka á búgarði og fengum hressingu þar. Margs konar ávexti sem teknir voru beint af trjánum, djúsi úr kókoshnetum og guava. Við fengum óvænt nýjan leiðsögumann sem stýrði þessu öllu af mikilli snilld án þess að um væri beðið og fékk hún að launum mánaðarlaun kennara á Kúbu sem eru 10 CUC eða um 1500 kr. íslenskar. Um kvöldið var salsanámskeið fyrir hópinn og svo máltíð undir beru lofti þar sem moskítóið hafði áheftan aðgang að okkar leggjum og handleggjum.




sunnudagur, mars 22, 2015

Las Terrazas - San Juan river - 25. febrúar


Þá er annar dagurinn í hjólatúrnum en í dag voru hjólaðir rúmlega 60 km. Við fórum frá Havana til Soroa með viðkomu í Laz Terrazas sem er svæði inn á eyjunni þar sem bændur lifðu afar einangraðir fram á síðustu öld og höfðu t.d. ekki hugmynd um úrslit byltingarinnar og að Fidel hefði unnið Batista Fulgencio sem var einræðisherra á Kúbu á undan Fidel. Síðan skoðuðum við San Juan ána og sumir fengu sér þar fótabað en vegna mikilla þurrka var hún heldur lítilfengleg á að sjá. Laz Terrazas svæðið var tekið í gegn og lagfært til laða ferðamenn að svæðinu. 
Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá svæðinu.



Kúba - 24. febrúar - Havana


Flugferðin til Kúbu gekk vel við fengum hagstæða vinda og þurftum ekki að millilenda í Halifax og ferðin tók aðeins tæpa níu tíma. Síðan tókum við rútu til Havana frá Varadero þar sem við lentum en ferðin þangað tók um tvo tíma. Hótelið sem við erum á hefur einhvern tíman verið glæsilegt en hefur ekki fengið þá aðhlynningu sem svona hús þurfa á að halda og er þar af leiðandi margt bilað og illa farið bæði í umhverfinu og húsnæðinu. Eftir að við vorum búin að koma okkur fyrir í "bungalóum" utan við hótelið settum við saman hjólin sem öll voru flutt í kössum og tekin í sundur fyrir ferðalagið. Það verk gekk bara vel og ekkert vandamál kom upp. Náðum við þessu fyrir myrkur en það skall á nokkuð snögglega um 7 leytið.

Kúbverjar eru afar músikalskt fólk og það hljómar fjörug tónlist alls staðar sem við förum. Oddur er búinn að láta pranga inn á sig 2 diskum en tónlistarmenn spila og syngja fyrir okkur þegar við borðum og svo ganga þeir um með söfnunarbauk og diskana og selja okkur. Reyndar tók Oddur undir með söngkonunni í gærkvöldi og söngu dúett með henni og skemmti gestunum á barnum.

Í dag hjóluðum við inn í Havana eða Old Havana og skoðuðum okkur um með Javier leiðsögumanninum okkar sem fylgir okkur hvert fótmál (ekki á hjólunum) og fræðir okkur um allt milli himins og jarðar um það sem varðar Kúbu. Við höfum fengið allt aðra og víðari yfirsýn af Kúbu en áður og erum mun fróðari. Við heimsóttum allmörg torg og eitt safn um Jose Marti sem er rithöfundur og blaðamaður á síðari hluta 19. aldar. Um kvöldið fengum við okkur að borða í Turninum, en hann er mun hærri en hjá okkur eða 32 hæðir og tók heldur á hjá mér að taka lyftuna og út að glugganum fór ég ekki. Rafmagnið fór af þrisvar sinnum á meðan við vorum að borða og var ég ansi smeyk við að fara niður í lyftunni þegar við vorum búin. En þetta endaði allt vel og ævintýrin biðu næsta dag en þá stefnum við á Las Terrazas - San Juan river - Soroa.




Á flugvellinum þegar hjólin komu úr vélinni.


Hjólin sett saman um kvöldið.