laugardagur, mars 30, 2013

Aftur í Lissabon

Í gangstéttarkaffihúsi í dag í Coimbra.
Þá erum við aftur komin til Lissabon. Coimbra kvaddi okkur í dag með fyrsta sólardeginum á meðan á dvöl okkar stóð og yndislegu veðri svo okkur gafst tækifæri til að skoða gangstéttarkaffihúsalífið :-). 






 








Annars fengum við okkur góðan göngutúr yfir Mondego ána sem flæðir nú yfir bakka sína og útvistarsvæði þar í kring enda er ekkert búið að rigna smávegis undanfarið. Við skoðuðum útivistarsafn með "miniature" húsum frá ýmsum stöðum í heiminum (Hub of portuguese Culture and Heritage) sem var nokkuð fróðlegt og skemmtilegt í þessu góða veðri. Það hefði verið gaman að hafa strákana með.



Háskólinn upp á hæðinni og áin Mondego.
 Síðan tókum við lestina til Lissabon en ferðin tók um tvo tíma þangað. Núna erum við komin á 12. hæð í hóteli nálægt svæðinu þar sem EXPO 98 var haldin á dögunum. Ég er pínu lofthrædd en læt mig hafa það svona eina nótt. Á morgun höldum við til London að hitta Freyju og verðum þar þangað til á mánudagskvöld er við fljúgum heim aftur.





Í rigningunni í Coimbra
Í gær náði ég ekki að blogga eftir daginn en við rigndum næstum niður eftir hálfan dag og flúðum inn á hótel til að þurrka okkur. Við fórum samt í "sight seeing" sem tók klukkustund og sáum þá ýmislegt sem við vildum skoða aftur þar á meðan mjög flottan garð en einmitt þegar við vorum þar byrjaði að rigna svo við skutumst inn á kaffihús en ekki hætti rigningin svo við létum okkur hafa það og vorum svona á röltinum fram eftir degi. Síðan fórum við í messu í kirkjunni í göngugötunni (já alveg satt) og þar fór fram skemmtileg "leiksýning" ef það má orða það svo.  Ekki sátum við alla messuna en svona framan af því við vorum forvitin að sjá hvernig þetta færi fram og svo langaði okkur að heyra tónlistina og það var engin rigning inni :-).
Þetta er búið að vera fín ferð og fróðleg og hefur liðið hreint alveg ótrúlega fljótt. En minningarnar geymast og hugmyndin er að koma þessu áhugaverða viðfangsefni áfram til menntakerfisins eins og mögulegt er og voandi kemst það í framkvæmd með tímanum.

 

föstudagur, mars 29, 2013

Vinnubúðir - lokadagur

Nú er vinnubúðunum lokið og það var svo mikið á dagskrá alla dagana að það gafst varla tími fyrir kaffihlé.
Þessa setningu náði ég að skrifa í gær áður en netið gaf sig. Nú sit ég í "lobbyinu" að morgni næsta dags til að ná sambandi og er ekki hress með að geta ekki verið á herberginu við slíka iðju á fjögurra og hálfrar stjörnu hóteli því það á að vera netsamband sem maður þarf ekki að greiða fyrir.
Nóg um það, í samantekt í lok gærdagsins var farið yfir það sem tekið var fyrir á ráðstefnunni og eru allir mjög bjartsýnir um að hægt sé að vekja athygli menntamanna á að það sé nauðsynlegt að koma þessum fræðum inn í skólastofuna til ungu kynslóðarinnar því það er hún sem tekur við taumunum eftir nokkur ár og þá þarf hún að hafa þessa vitneskju um hvert stefnir sem vonandi verður ekki alltof seint, þótt seint sé nú þegar að mati margra vísindamanna.  Nú ætlum við að mæla göturnar hér í bænum og athuga hvað við sjáum markvert. Reyndar eru öll húsin hér svört af einhverju sennilega sveppi eða skófum og er það ekki fallegt. Það er greinilega mikill raki hér eins sést hefur síðustu daga. Á myndinni hér fyrir neðan er Oddur á göngugötunni í gærdag, skírdag.


Hér er svo myndband af ísgerð sem sýnd var við lok síðasta dags og er það í takt við vísindin sem fjallað var um í hópnum.

Þetta er myndband af hópnum sem sett var saman í lok vinnubúða.


miðvikudagur, mars 27, 2013

Vinnubúðir - dagur 2

Þá er öðrum degi lokið og mikið búið að hlusta og spjalla og vinna við tilraunir. Ekki var minna innheimt af fróðleik þennan daginn. Í dag vorum við að spjalla um lífheiminn og vatnið (sjóinn) og urðum við all miklu fróðari um seli, mörgæsir, átu, smokkfiska og sitthvað fleira sem fylgdi með. Við gerðum tilraunir með alls kyns fitu á selum, fuglum og fleiri dýrum þ.e.a..s hvernig hún verndar dýrin í þessu kalda umhverfi. Merkilegastur var reyndar Weddell selurinn en hann getur haldið sér í kafi í klukkustund og kafað niður á 600 m dýpi og synt 5 km vegalend án þess að koma upp. Þetta tengist víst súrefnisupptöku í vöðvum en ekki lungum. Svo er það risa smokkfiskurinn sem getur orðið meira en 20 m langur, lengri en strætisvagn. Það var alltaf verið að setja allar upplýsingar í samhengi við það maður þekkir sem er ótrúlega skynsamlegt. Þá var aftur mikið rætt um hvernig við ætlum að segja frá þessum fræðum þegar heim er komið og fá fólk með okkur í þessa vinnu að fræða börnin eða sem sagt breiða út sannleikann um hvert heimurinn er að stefna. Komu margar tillögur upp á borðið sem á að vinna frekar með á morgun sem er síðasti dagurinn í vinnubúðunum. Lítið annað var afrekað í dag fyrir utan að ganga niður hæðina í mat í hádeginu og upp aftur og síðan fór hópurinn út að borða saman á ítalskan veitingastað á árbakkanum um kvöldið. Kominn var háttatími þegar þetta allt var búið. Enn rigndi í dag eins og í gær og fyrradag og koma regnhlífarnar sér vel þessa dagana en ég var svo skynsöm að grípa þær með í ferðina. Svo við stundum ekki kaffihúsin á gangstéttunum í þetta skiptið því enn er spáð rigningu á morgun :-(
Hér er mynd af okkur hjónum á kaffihúsi í hádeginu í dag og hún er tekin inni :-)

þriðjudagur, mars 26, 2013

Vinnubúðir - dagur 1


Þetta er búið að vera langur dagur hjá okkur hjónum, en farið var af stað um 8 í morgun og við komum ekki á hótelið aftur fyrr en um 10 leytið í kvöld. Svo þetta verður stutt blogg. Háskólinn þar sem vinnubúðirnar voru er upp á hæðinni svo við vorum móð og sveitt þegar upp var komið og búið var að finna rétta staðinn. Þar hlustuðum við á ákaft og hugsjónafullt fólk fram til hádegis. Þá var farið í stúdentamötuneyti í hádeginu sem var niðri í bænum og upp aftur í vinnubúðir. Mikið púlað upp og niður þann daginn og ekkert fleira um það segja. Svo fengum við að skoða bláa ískubba sem sukku í vatn og átti að tákna sjávarstrauma heimsins, búa til kolvetnissameind (sem var mjög fljókið og ég lauk ekki við) og elta kolvetni út um allt o.s.frv. Allt var þetta tengt freðhvolfinu sem var þema dagsins. Svo var spurningunni velt fyrir sér hvernig hægt væri að koma þessum fræðum fyrir í yfirfullri dagskrá kennara. Það verður bara að koma í ljós hvernig það tekst en óhætt að segja að það sé brýn þörf eins og staðan er í dag.  En þetta var fróðlegt og skemmtilegt og við kynntumst og spjölluðum við fullt af fólki frá 12 mismunandi löndum. Það er áhugavert að hlusta á og heyra mismunandi sjónarmið frá öðrum menningarheimum eins og við fengum að gera í dag.
 

mánudagur, mars 25, 2013

Coimbra

Komin til Coimbra. Það tók tæpa tvo tíma með lest frá Lissabon. Rigningin mætti okkur í bænum og smástrekkingur (svona svolítið íslenskur) svo varla var hægt að nota regnhlífar. En samt var um 15 gráðu hiti.  Bærinn stendur í fjallendi og háskólinn er upp á einni hæðinni svo við fáum góða þjálfun við að ganga þangað daglega næstu þrjá daga. Þar verðum við í vinnubúðunum frá kl. 9 til hálf sex á daginn. Þetta virkar spennandi og það verður gaman að sjá hvað kemur út úr þessu. Í dag þegar við komum rétt um fjögur leytið fengum við okkur göngu um bæinn og könnuðum svona helsta nágrenni.  Það liggur stór á eftir miðjum bænum sem skiptir honum í tvennt rétt eins og í Lissabon. Við fórum á upplýsingamiðstöðina og náðum okkur í upplýsingar og bæklinga því við ætlum að vera hér á föstudaginn og skoða það helsta í nágrenninu. Það var skrýtið að ganga eftir götunum hér því það var eins og að ganga Laugaveginn fyrir 30 árum, litlar búðir með alls kyns varningi í sömu búð - svona svolítið gamaldags og heimilislegt. Við fréttum reyndar af stóru "molli" hér rétt fyrir utan en ég veit varla hvort við nennum þangað, heldur fáum við okkur göngutúr upp á næsta fjall ;-)
Annars er heldur lélegt netið hérna á hótelinu en ég vona að mér takist að henda þessu á netið.
Myndin er af Oddi þar sem hann heldur á flokkunarfötu sem er á hótelherberginu okkar. Flott hönnun!!
 

sunnudagur, mars 24, 2013

Lagt af stað á ný

 
Jæja þá erum við byrjuð að flakka á ný og að þessu sinni er ferðinni heitið til Portúgal. Erindagjörðin er að sækja smáviðbót í þekkingarsarpinn. Við ætlum að taka þátt í vinnustofu í heimsskautavísindum í Coimbra í Norður Portúgal. Þarna kemur saman hópur með rúmlega 30 einstaklingum héðan og þaðan úr heiminum. Háskólinn í Coimbra og vísindastofan AWI (Alfred Wegener Institute í Þýskalandi) eru hvataaðilar í þessu verkefni. Markmiðið er að færa þessi vísindi á einhvern hátt inn í skólastofuna í leik- grunn- og framhaldsskóla og vekja athygli nemenda á þessum mikilvægu fræðum.
Í gærmorgun lögðum við í hann og flugum til London og áfram til Lissabon og þar verðum við í tvo daga og ætlum að skoða okkur aðeins um hér því hér höfum við aldrei verið áður.

Við fórum í skipulagða leiðsögn í rútu um borgina  í dag. Þetta er sögð vera ein af elstu borgum í Vestur Evrópu með hálfa milljón íbúa og mikil ferðamannaborg. Hér eru mörg eldgömul, hrörleg hús og þröngar götur eins og gengur í þessu hluta heimsins en innan um rísa nýtísku háhýsin. Svo það svona blandast allt saman innan um hvert annað.  Ég get nú ekki mælt með þessari rútuleiðsögn sem við fengum í dag því það var lítið sagt um söguna og mest var spiluð portúgölsk tónlist í heyrnartólin þegar þau virkuðu.  Einnig auglýstu þeir grimmt öll "mollin" sín og meira að segja útstölurnar. Reyndar svolítið fyndið. Svo við erum núna á netinu að afla okkur frekari upplýsinga um borgina svona til að fylla upp í götin.

Ekki tóku Portúgalar vel á móti okkur í gær því leigubílstjórinn sem ók okkur á hótelið svindlaði á okkur og tók nærri þrefalt gjald fyrir aksturinn.  Mér fannst þetta eitthvað gruggugt og bað um nótu, en var ekki með gleraugun og sá ekki fyrr en ég kom inn að hann hafði bara skrifað upphæðina og ekkert annað.  Ég komst svo að hinu sanna í afgreiðslunni á hótelinu hve "ríflega" hann hafi tekið fyrir aksturinn. Þetta gerist ekki aftur hérna, nú er maður á varðbergi.  Við vorum algjörir sveitamenn þarna þegar við lentum. Freyja bendir okkur á Wikitravel til að skoða hvað beri að forðast. Best að fara að ráðum hennar.

En við skoðuðum kastala, minnismerki fallinna hermanna, kirkjur, styttur, þröngar götur og brúna Vasco da Gama sem liggur yfir ána Tajo sem skiptir Lissabon í tvennt. Brúin er 17,2 km á lengd og mikið mannvirki.  Nokkru ofar er önnur brú en mun styttri og tvöföld og þar bruna lestarnar undir bílunum. Annars lék veðrið við okkur og sólin skein nánast í allan dag og hitinn fór yfir 20 stig svo ekki kvörtuðum við yfir veðrinu í dag. Bæði erum við sólbrennd í andliti og á fleiri stöðum, enn eitt athugungarleysið hjá okkur því sólin hér núna er eins og í júlí heima. Sólarvörn verður keypt á morgun.
Á morgun förum við norður til Coimbra, fyrrum höfuðborg Portúgals með 100 þúsund íbúa, þar sem við verðum í 5 næstu daga. Meira um það síðar.