þriðjudagur, mars 26, 2013

Vinnubúðir - dagur 1


Þetta er búið að vera langur dagur hjá okkur hjónum, en farið var af stað um 8 í morgun og við komum ekki á hótelið aftur fyrr en um 10 leytið í kvöld. Svo þetta verður stutt blogg. Háskólinn þar sem vinnubúðirnar voru er upp á hæðinni svo við vorum móð og sveitt þegar upp var komið og búið var að finna rétta staðinn. Þar hlustuðum við á ákaft og hugsjónafullt fólk fram til hádegis. Þá var farið í stúdentamötuneyti í hádeginu sem var niðri í bænum og upp aftur í vinnubúðir. Mikið púlað upp og niður þann daginn og ekkert fleira um það segja. Svo fengum við að skoða bláa ískubba sem sukku í vatn og átti að tákna sjávarstrauma heimsins, búa til kolvetnissameind (sem var mjög fljókið og ég lauk ekki við) og elta kolvetni út um allt o.s.frv. Allt var þetta tengt freðhvolfinu sem var þema dagsins. Svo var spurningunni velt fyrir sér hvernig hægt væri að koma þessum fræðum fyrir í yfirfullri dagskrá kennara. Það verður bara að koma í ljós hvernig það tekst en óhætt að segja að það sé brýn þörf eins og staðan er í dag.  En þetta var fróðlegt og skemmtilegt og við kynntumst og spjölluðum við fullt af fólki frá 12 mismunandi löndum. Það er áhugavert að hlusta á og heyra mismunandi sjónarmið frá öðrum menningarheimum eins og við fengum að gera í dag.
 

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home