sunnudagur, mars 24, 2013

Lagt af stað á ný

 
Jæja þá erum við byrjuð að flakka á ný og að þessu sinni er ferðinni heitið til Portúgal. Erindagjörðin er að sækja smáviðbót í þekkingarsarpinn. Við ætlum að taka þátt í vinnustofu í heimsskautavísindum í Coimbra í Norður Portúgal. Þarna kemur saman hópur með rúmlega 30 einstaklingum héðan og þaðan úr heiminum. Háskólinn í Coimbra og vísindastofan AWI (Alfred Wegener Institute í Þýskalandi) eru hvataaðilar í þessu verkefni. Markmiðið er að færa þessi vísindi á einhvern hátt inn í skólastofuna í leik- grunn- og framhaldsskóla og vekja athygli nemenda á þessum mikilvægu fræðum.
Í gærmorgun lögðum við í hann og flugum til London og áfram til Lissabon og þar verðum við í tvo daga og ætlum að skoða okkur aðeins um hér því hér höfum við aldrei verið áður.

Við fórum í skipulagða leiðsögn í rútu um borgina  í dag. Þetta er sögð vera ein af elstu borgum í Vestur Evrópu með hálfa milljón íbúa og mikil ferðamannaborg. Hér eru mörg eldgömul, hrörleg hús og þröngar götur eins og gengur í þessu hluta heimsins en innan um rísa nýtísku háhýsin. Svo það svona blandast allt saman innan um hvert annað.  Ég get nú ekki mælt með þessari rútuleiðsögn sem við fengum í dag því það var lítið sagt um söguna og mest var spiluð portúgölsk tónlist í heyrnartólin þegar þau virkuðu.  Einnig auglýstu þeir grimmt öll "mollin" sín og meira að segja útstölurnar. Reyndar svolítið fyndið. Svo við erum núna á netinu að afla okkur frekari upplýsinga um borgina svona til að fylla upp í götin.

Ekki tóku Portúgalar vel á móti okkur í gær því leigubílstjórinn sem ók okkur á hótelið svindlaði á okkur og tók nærri þrefalt gjald fyrir aksturinn.  Mér fannst þetta eitthvað gruggugt og bað um nótu, en var ekki með gleraugun og sá ekki fyrr en ég kom inn að hann hafði bara skrifað upphæðina og ekkert annað.  Ég komst svo að hinu sanna í afgreiðslunni á hótelinu hve "ríflega" hann hafi tekið fyrir aksturinn. Þetta gerist ekki aftur hérna, nú er maður á varðbergi.  Við vorum algjörir sveitamenn þarna þegar við lentum. Freyja bendir okkur á Wikitravel til að skoða hvað beri að forðast. Best að fara að ráðum hennar.

En við skoðuðum kastala, minnismerki fallinna hermanna, kirkjur, styttur, þröngar götur og brúna Vasco da Gama sem liggur yfir ána Tajo sem skiptir Lissabon í tvennt. Brúin er 17,2 km á lengd og mikið mannvirki.  Nokkru ofar er önnur brú en mun styttri og tvöföld og þar bruna lestarnar undir bílunum. Annars lék veðrið við okkur og sólin skein nánast í allan dag og hitinn fór yfir 20 stig svo ekki kvörtuðum við yfir veðrinu í dag. Bæði erum við sólbrennd í andliti og á fleiri stöðum, enn eitt athugungarleysið hjá okkur því sólin hér núna er eins og í júlí heima. Sólarvörn verður keypt á morgun.
Á morgun förum við norður til Coimbra, fyrrum höfuðborg Portúgals með 100 þúsund íbúa, þar sem við verðum í 5 næstu daga. Meira um það síðar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home