fimmtudagur, júní 21, 2012

Síðasti dagur í Yangon

Þá er komið að því að við yfirgefum Myanmar og hoppum aftur til Thailands á morgun. Í dag fórum við með Freyju aftur niður á NLD þar sem hún fékk viðtal við einhvern fulltrúa. Síðan gengum við niður í bæ og ætluðum að leita okkur að einhverjum góðum innlendum stað til að borða á, en fundum engan sem okkur leist á svo við fórum á flottasta hótelið í bænum og fengum okkur glæsilegan lunch og hann kostaði reyndar sitt líka miðað við innlent en við vorum sæl og glöð með það. Það er lítið um ferðamenn hér og við vekjum athygli í bænum. Veitingastaðirnir eru svo miklar búllur að það er ekki kræsilegt að fara inn og fá sér að borða. Annars skoðuðum við mjög fallega garða (verst að geta ekki sett myndir á bloggið) og svo fórum við upp í turn (20 hæðir) til að skoða útsýnið og þegar við ætluðum niður og vorum komin inn í lyftuna fór rafmagnið af. Við komumst út aftur úr lyftunni þar sem hún var ekki lögð af stað niður og ég harðneitaði að fara niður með henni svo við gengum alla stigana niður á fyrstu hæð. Það er alltaf verið að taka af rafmagnið hér og skammta fólkinu. Til að geta selt meira til útlanda. Við erum líka alltaf að lenda í ævintýrum með peninga, það virðist vera tvenns konar gjaldmiðill í gangi bæði dollarar og kyat (1 króna = 7 kyat). Dollaraseðlarnir eru skoðaðir í bak og fyrir og oft spurt hvort við eigum ekki betri eintök og stundum vilja þeir þá ekki. Við skiljum þetta ekki alveg en seðlabankinn tekur aðeins nýja og óskemmda seðla. Nú fer þessu ævintýri að ljúka og allt hefur þetta gengið samkvæmt áætlun. Sem sagt Bangkok á morgun, Finnland á laugardag og Ísland á sunnudag. Heyrumst.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home