miðvikudagur, júní 13, 2012

Hjólatúr í Chiang Mai

Í morgun smelltum við okkur í hjólatúr með tælenskum leiðsögumanni og hjóluðum um borgina og í útjaðri hennar. Með okkur í ferð voru tveir Ástralar og var þetta sérlega vel heppnað. Síðar um daginn skoðuðum við gömlu borgarmúrana frá 13. Öld en eins og víða á þessum tímum voru borgir víggirtar til ad verjast árásum. Hér urdu mikil flóð í fyrra og má víða sjá merki þess á húsveggjum og girðingum. Nýr dagur - miðvikudagur Ég náði ekki að klára í gær ég var svo þreytt, ekki búin að jafna mig á tímamismuninum ennþá. Í dag fórum við í langan bíltúr og fórum upp á hátt fjall í nágrenni Chiang mai og skoðuðum hof eða musterið Doi Suthep en þar búa munkar í appelsínugulum klæðum. Þar var mikið skraut og fínerí. Þar var einnig fullt af fólki sem var að færa fórnir á ýmsan hátt, það var mikið með blóm og reykelsi en einnig gaf það fugla lifandi sem það sleppti úr körfubúrum. Eftir musterið ókum við í Mae sa dalinn þar sem Karen fólkið lifir. (http://www.karen.org.au/karen_people.htm) þar var margt að skoða -fólkið býr þarna og lifir á því að búa til minjagripi og fleira til að selja ferðamönnum og sýna gamla lifnaðarhætti. Það býr við mjög frumstæð skilyrði. Við búum á hóteli utan við bæinn í mjög friðsælu hverfi. Hótelið rekur kanadísk kona og það eru bara 4 herbergi sem eru leigð út. Freyja fann þetta á netinu. Við læsum ekki einu sinni herberginu þegar við förum út á daginn. Oddur og Freyja eru að láta sauma á sig föt og verða þau tilbúin á morgun. Það er mjög ódýrt að láta sauma á sig hérna t.d. kosta flottar buxur á Odd bara um 8000 kr. Veðrið leikur við okkur en það er yfirleitt um 30 gráður sem Freyja segir að sé frábært miðað við það sem verið hefur hjá henni hér áður, okkur líkar það ekki illa kannski pínu of heitt. Sem sagt allt gengur bara voða vel og við lendum í ævintýrum á hverjum degi enda er umhverfið afar ólíkt því sem við höfum upplifað áður. Ég kann ekki að setja myndir inn í bloggið af ipaddinum mínum, það er eitthvað sem ég þarf að græja. En meira á morgun.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home